Stundu áður en lögin áttu að fara fyrir franska þingið hélt Macron fund með Elisabeth Borne forsætisráðherra í Elysée-höll, þau fóru í sameiningu að telja og reikna og komust að þeirri niðurstöðu að alls óvíst væri að meirihluti væri fyrir hendi til að koma þeim í gegn. Því ákváðu þau í snarheitum að beita sérstakri heimild stjórnarskrárinnar, sem nefnd er „grein 49, parafgraf 3“, og leyfir að lög geti talist samþykkt, án atkvæðagreiðslu, nema ríkisstjórnin sé síðan felld með vantraustsyfirlýsingu. Þessi sérstaklega ólýðræðislegi paragraf var saminn um leið og stjórnarskráin sjálf, 1958, og átti að vera lausn á því vandamáli að þegar þingið þurfti að bregðast við miklum vandamálum var það oft óstarfhæft vegna klofnings, deilna og málþófs. Þingmenn höfðu þá semsé mikla tilhneigingu til að spila sóló hvað sem af því kynni að hljótast, og á þeim tíma var vandinn mikill, semsé Alsírstríðið. En nú var málið einfalt, um það eitt var að ræða, að samþykkja lagafrumvarpið eða fella það. Vandi Macrons var einungis sá að flokkur hans hefur ekki lengur meirihluta á þingi og verður að styðja sig við annan hægri flokk, svokallaða „Repúblikana“, flokk Sarkozys sem er reyndar búinn að skipta um nafn, en hann var tvíklofinn. Kannske sást Macron yfir það að í landinu eru einmenningskjördæmi og þingmenn þurfa því að standa einir og óstuddir í héraði frammi fyrir kjósendum sínum, og nú var yfirgnæfandi meirihluti andvígur þessum lögum, sjötíu af hundraði landsmanna, og sennilega nálægt níutíu af hundraði ef einungis eru taldir vinnandi menn. Þetta var fagnaðarlaus staða, sumir þingmenn urðu fyrir hótunum og töldu tryggast að fá lögregluvernd. Þeir voru því beggja blands.
Stór meirihluti leit svo á að með því að beita þessum lögkrók væri verið að brjóta gegn lýðræði. Vinstri sinnaðir þingmenn lyftu upp spjöldum með áletrunum „Nei við 64 árum“ og öðrum slíkum, þegar forsætisráðherra veifaði framan í þá paragrafinum, og þeir tóku að syngja franska þóðsönginn fullum hálsi hvað eftir annað: „Áfram börn föðurlandsins“. Þá þegar var stór hópur manna farinn að safnast saman á Concorde-torgi á hægri bakka Signu, beint á móti þinghúsinu sem er handan árinnar á vinstri bakkanum. Blöð tóku fram, þótt allir Fransmenn ættu í rauninni að vita það, að þetta var staðurinn þar sem Lúðvík konungur sextándi var lagður undir fallöxina. Um leið og sú fregn barst að lögkróknum „49,3“ hefði verið beitt, hófust mikil mótmæli á torginu. Fljótlega birtust lögreglumenn gráir fyrir járnum, og það kom til óeirða.
Strax var lögð fram vantrauststillaga gegn stjórninni. Enginn bjóst við því að hún yrði samþykkt, því þingmönnum var ekki ljúft að hugsa til þess að þá yrði þingið kannske rofið og þeir yrðu að horfa beint í augu kjósenda, en svo fór að það vantaði aðeins níu atkvæði á að tillagan næði fram að ganga. Þar skall í rauninni hurð nærri hælum. Daginn eftir kom Macron fram í sjónvarpi til að útskýra málið. Hann kallaði þá sem tekið hefðu þátt í mótmælaaðgerðum „factieux“, en það er ýmist þýtt sem „uppreisnarmenn“ eða „æsingamenn“ og merkir í rauninni hvort tveggja. Svo klykkti hann út með því að fráleitt væri að halda að „gatan“ – semsé það sem einu sinni var kallað á Íslandi „Alþingi götunnar“ – hefði meira lögmæti en „kjörnir fulltrúar þjóðarinnar“, en hann steingleymdi því að „kjörnir fulltrúar þjóðarinnar“ höfðu einmitt alls ekki fengið að skera úr um málið. Margir fjölmiðlar litu svo á að þessi sjónvarpsræða Macrons hefði verið „klaufaleg“, í rauninni skvetti hún olíu á eldinn.
Síðan hafa verið sífelld mótmæli um allt land. Þegar þetta er skrifað stendur yfir það sem kallað er „tíundi mótmæladagurinn“ en svo nefnist dagur þegar verklýðsfélög boða í sameiningu til verkfalla, mótmælafunda og mótmælagangna vítt og breitt um landið. En fyrir utan þessa „daga“ hefur sífellt komið til smærri aðgerða hingað og þangað, þær virðast rísa upp af sjálfu sér.
Áður mótmæltu menn eingöngu eftirlaunalögunum, því að eftirlaunaaldurinn skyldi hækkaður úr 62 árum í 64 ár, – ofan á allt annað með þeim hætti að breytingin bitnaði sérstaklega á konum, með „slitinn“ starfsferil eins og sagt er, og mönnum sem vinna erfiðisvinnu. Og þetta gerðist á þeim tíma þegar kjör almennings fara versnandi, sífellt eru verðhækkanir á nauðsynjavörum og harka á vinnustöðum eykst, eins og fram kemur í fjölgun vinnuslysa, sjálfsvíga í tengslum við vinnu, „útkulnunar“ og öðru.
Nú mótmæla menn því einnig að þetta skuli knúið í gegn á ólýðræðislegan hátt, með úreltum lögkrók. Menn líta svo á að með þessu séu stjórnvöld, Macron og ríkisstjórnin, að lítilsvirða almenning. Þetta virðist hafa hleypt illu blóði í marga sem höfðu ekki látið sig málið miklu varða til þessa. Í þeim hópi eru ekki síst námsmenn og stúdentar sem fréttir herma að séu nú farnir að loka skólum og flykkjast út á götur. Þessi hreyfing er martröð stjórnmálamanna sem kalla það „ungu hættuna“, en það minnir beint á orðtækið „gula hættan“, munurinn á þessum orðtækjum er aðeins einn sérhljóði, og þau eru afskaplega lík í framburði.
Ofan á allt bætist svo að lögreglan fer fram af mikilli hörku gagnvart mótmælendum. Einkum beitir hún nú þeirri aðferð að umkringja stóra hópa manna, smala þeim upp í lögreglubíl og keyra með þá á lögreglustöðvar þar sem þeir verða svo að dúsa heila nótt. Það virðist vera undir hælinn lagt hverjir lenda í þessu, það geta allt eins verið friðsamir mótmælendur eða bara venjulegir vegfarendur, í fréttum var sagt frá austurrískum stúlkum í skólaferðalagi sem voru allt í einu komnar í fangaklefa án þess að vita hvaðan á sig stóð veðrið. Ekki hafa borist fregnir af illri meðferð á þessum slóðum – þótt táragasi og kylfum sé óspart beitt á götum úti – en gjarnan virðist haft í hótunum og menn eru óspart ljósmyndaðir og fingraför af þeim tekin. Einn „fanginn“ gat náð á upptökutæki það sem sagt var á lögreglustöðinni, og birtist það í útvarpi og blöðum svo mjög var eftir því tekið. Upptakan var skrautleg. Innan um margt annað heyrðist smellur af löðrungi og orðin „ætlarðu að halda kjafti eða viltu annan?“ Síðar komu orðin: „Varaðu þig, litla hausinn þinn, litla hausinn þinn, við höfum hann þegar á mynd, þú þarft ekki annað en koma út á götuna næst. Og næst þegar við hittum þig ferðu ekki upp í lögreglubíl til að vera keyrður á stöðina, þú ferð upp í annars konar vagn sem er kallaður sjúkrabíll, og hann keyrir þig beint á spítala...“
Þetta er vitanlega gert til að hræða menn frá því að taka þátt í mótmælum eða yfrleitt vera á ferli þegar mótmæla er von. En óvíst er að það hafi þau áhrif sem til er ætlast, þvert á móti.
Svo lítur það illa út í augum almennings að stjórnvöldum hefur tekist óhönduglega að útskýra ástæðurnar fyrir þessum lögum, fjölmiðlar hafa haldið því fram að á þeim hafi ekki verið nein sérstök þörf. Fyrst var talað um hinar miklu skuldir þjóðarinnar sem þyrfti að borga, en almenningur skildi ekki hvers vegna hann ætti að standa undir þeim en ekki alþjóðahringar og ólígarkar sem hafa fengið miklar skattaívilnanir í stjórnartíð Macrons og auðgast ómælt. Þegar mótmælaaldan var farin að rísa bárust fregnir af því að stjórn eins stórfyrirtækisins, TotalEnergies, ætlaði að hækka laun forstjórans um tíu af hundraði á þessu ári, en hann hafði þegar 5,9 miljónir evra í árstekjur, semsé tæpar 500.000 evrur á mánuði. Þetta var réttlætt með því að hann væri ekki nema hálfdrættingur innan um aðra forstjóra sams konar fyrirtækja. Tilfinning almennings kom sennilega best fram í teikningu af forstjóranum þar sem hann sagði grafalvarlega: „þetta var nauðsynlegt til að vega upp á móti verðhækkunum á grænmeti“.
Síðast sagði Macron að þessi lög væru nauðsynleg til að koma á friði og ró í kauphöllum og fjármálastofnunum, fá þaðan góðan vilja. Þetta skildu menn enn síður og létu sér nægja að vitna í de Gaulle sem sagði á sínum tíma: „Frakklandi er ekki stjórnað úr kauphöllum“.
Macron á enn eftir fjögur ár af sínu kjörtímabili, og þá er ferli hans lokið, því hann getur ekki boðið sig fram í þriðja sinn, samkvæmt stjórnarskránni. Hver sem niðurstaðan verður af þessu eftirlaunamáli velta menn því fyrir sér hvernig hann geti stjórnað þessi ár sem nú eru framundan. Hann getur ekki lengur treyst á Repúblikana í neinu alvörumáli, því þeim er annt um sjálfstæði sitt. Hann getur ekki rofið þing og efnt til nýrra kosninga, því þeim myndi hann sennilegast tapa og verða þá í enn minni minnihluta, og hann getur ekki skipt um stjórn því óvíst er að hann hafi neitt burðugt efni í nýjan forsætisráðherra. Kannske verður hann að sitja áfram sem máttlítill stólavermir. Það er tímanna tákn að þeir þrír þungaviktarmenn á hægri arminum sem nefndir hafa verið sem hugsanlegir eftirmenn Macrons hafa látið sem minnst fyrir sér fara í þessu eftirlaunamáli öllu, þeir vilja helst ekki vera bendlaðir við það.
Athugasemdir