Vantrauststilllaga á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra var felld á Alþingi í dag með 35 atkvæðum en fimm þingmenn voru fjarstaddir. 22 sögðu já og einn greiddi ekki atkvæði.
Heimildin greindi frá því í gær að fjórir þingflokksformenn Pírata, Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Flokks fólksins hefðu lagt fram vantrauststillögu á dómsmálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í seinni ræðu sinni í umræðum um tillöguna að þingmenn Vinstri grænna legðust gegn þessari tillögu. „Þar með erum við ekki að smætta það viðfangsefni sem hér er til umræðu,“ sagði hún. Margir þingmenn stjórnarandstöðunnar voru harðorðir í garð dómsmálaráðherra og stjórnarflokkanna og hvöttu þeir aðra þingmenn til að greiða með tillögunni.
Segir ráðherrann hafa brotið gegn einni af grunnstoðum þingræðisins á Íslandi
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður og flutningsmaður tillögunnar sagði undir liðnum störf þingsins á Alþingi í gær, eftir að tillagan var lögð fram, að ráðherrann hefði brotið gegn þingsköpum þegar hann „bannaði Útlendingastofnun að afhenda þinginu þau gögn sem þingið óskaði eftir“.
„Með þessu athæfi braut ráðherrann gegn einni af grunnstoðum þingræðisins á Íslandi. Hann braut gegn upplýsingarétti Alþingis Íslendinga. Það er grafalvarlegt brot gegn þinginu, brot sem þingið má ekki láta yfir sig ganga eins og ekkert hafi gerst. Réttur þingsins til að kalla eftir þeim upplýsingum sem það þarf til að sinna störfum sínum er bundinn í stjórnarskrá, hann er víðtækur og gríðarlega mikilvægur.
Við erum lýðveldi með þingbundinni stjórn og það má ekki leyfa ráðherrum að taka sér það vald að velja hvaða upplýsingar þeim finnst þingið eiga rétt á að fá og hverjar ekki. Ef við samþykkjum það einu sinni erum við að setja fordæmi sem er ekki bara hættulegt heldur beinlínis andstætt stjórnskipun lýðveldisins Íslands,“ sagði hún.
Tillagan lögð fram „til að standa vörð um grundvallarstjórnskipan Íslands“
Af þessum ástæðum sagði Þórhildur Sunna að þingflokksformenn flokkanna fjögurra legðu til vantraust á hendur dómsmálaráðherra; til að standa vörð um grundvallarstjórnskipan Íslands.
„Um það snýst þessi tillaga og ekkert annað. Hún snýst ekki um veitingu ríkisborgararéttar. Hún snýst ekki um Útlendingastofnun. Hún snýst ekki um útlendinga, hvað sem hver segir. Allra síst snýst hún um dylgjur dómsmálaráðherra í garð þingmanna allsherjar- og menntamálanefndar, sem er ein ógeðfelldasta afvegaleiðing sem ég hef orðið vitni að. Þessi tillaga snýst um það að ráðherra sem brýtur jafn freklega gegn upplýsingarétti Alþingis getur ekki, má ekki og á ekki að njóta trausts þess sama Alþingis,“ sagði hún.
Ríkisstjórnarsamstarfið „stendur styrkum fótum“
Margir tóku til máls í umræðu sem átti sér stað fyrir atkvæðagreiðsluna. Allir formenn stjórnarflokkanna lögðu orð í belg. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna sagði meðal annars í sinni ræðu að vantrauststillagan væri svo sannarlega ekki meðhöndluðu af neinni léttúð af þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna enda ekkert skemmtiefni um að ræða. „En við vitum það líka sem hér erum að slíkar tillögur eru iðulega settar fram til að kljúfa samstöðu í ríkisstjórn, kannski eðlilega, og ég vil ítreka það hér að ríkisstjórnarsamstarfið stendur styrkum fótum.“
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins sagði að tillagan hvíldi á veikum grunni. Í hans huga er tillaga stjórnarandstöðunnar hluti af eitraðri orðræðuhefð sem skapast hefði í kringum málefni útlendinga á Alþingi Íslendinga.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði meðal annars í sinni ræðu að honum þætti þetta vera afar langsótt tilraun sem í hans huga byggði fyrst og fremst á því að fólk væri í grundvallaratriðum pólitískt ósammála áherslum dómsmálaráðherra.
Athugasemdir