Þingflokksformenn fjögurra stjórnarandstöðuflokka hafa lagt fram vantrauststillögu á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra, samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en með henni eru Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar, Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður Flokks fólksins og Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar sem kemur í stað Loga Einarssonar þingflokksformanns flokksins þar sem hann er staddur erlendis.
Alþingi þarf að fá gögn til að afgreiða umsóknir með viðunandi hætti
Nokkuð uppnám var á Alþingi í gær þegar þingmenn Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata komu í pontu og sökuðu dómsmálaráðherra um lögbrot. Var hann meðal annars hvattur til að íhuga stöðu sína alvarlega.
Ástæðan var að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk nýlega afhent minnisblað sem tekið var saman í tengslum við umfjöllun nefndarinnar um ákvörðun dómsmálaráðherra vegna beiðna Alþingis um afhendingu gagna og upplýsinga.
Mikil umræða var á síðasta ári í þingsal um afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsóknum um ríkisborgararétt til Alþingis. Margir þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu það að stofnunin drægi að skila inn gögnum og beindist sú gagnrýni ekki síst að dómsmálaráðherra.
Í niðurstöðu minnisblaðsins, sem var til umræðu í gær, kemur fram að Alþingi fari með forræði á veitingu ríkisborgararéttar með lögum. Þar kemur jafnframt fram að samkvæmt ákvæði í lögum undirbúi Útlendingastofnun málin, rannsaki hagi umsækjenda og veiti umsögn um þær ásamt því að afla umsagna lögreglustjóra á dvalarstað umsækjenda.
„Ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 100/1952 binda ekki hendur Alþingis heldur stjórnvalda og fela þar með ekki í sér sérákvæði gagnvart 1. mgr. 51. gr. þingskapa. Þó ákvæði 51. gr. þingskapa hafi ekki verið hugsað til að nota í málum sem varða veitingu ríkisborgararéttar felur ákvæðið í sér þá meginreglu að Alþingi eigi aðgang að upplýsingum frá stjórnvöldum sem eru því nauðsynlegar til að þingið geti gegnt hlutverki sínu.
Til þess að Alþingi geti afgreitt umsóknir um ríkisborgararétt með viðunandi hætti þarf það að fá þau gögn sem máli skipta. Fáist þau gögn ekki afhent með þeim hætti sem Alþingi óskar eftir getur það í ljósi þess að þingið fer með forræði á málaflokknum beitt 1. mgr. 51. gr. þingskapa til að skylda stjórnvöld til að verða við beiðnum Alþingis innan tiltekins frests. Ákvæðið hefur víðtækt gildisviðs og ekki eru gerðar ríkar kröfur til þess hvernig mál sem nefnd hefur til umfjöllunar er afmarkað,“ segir í niðurstöðunni.
Brot sem þingið megi ekki láta yfir sig ganga
Þórhildur Sunna sagði undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag, eftir að tillagan var lögð fram, að ráðherrann hefði brotið gegn þingsköpum þegar hann „bannaði Útlendingastofnun að afhenda þinginu þau gögn sem þingið óskaði eftir“.
„Með þessu athæfi braut ráðherrann gegn einni af grunnstoðum þingræðisins á Íslandi. Hann braut gegn upplýsingarétti Alþingis Íslendinga. Það er grafalvarlegt brot gegn þinginu, brot sem þingið má ekki láta yfir sig ganga eins og ekkert hafi gerst. Réttur þingsins til að kalla eftir þeim upplýsingum sem það þarf til að sinna störfum sínum er bundinn í stjórnarskrá, hann er víðtækur og gríðarlega mikilvægur.
Við erum lýðveldi með þingbundinni stjórn og það má ekki leyfa ráðherrum að taka sér það vald að velja hvaða upplýsingar þeim finnst þingið eiga rétt á að fá og hverjar ekki. Ef við samþykkjum það einu sinni erum við að setja fordæmi sem er ekki bara hættulegt heldur beinlínis andstætt stjórnskipun lýðveldisins Íslands,“ sagði hún.
Af þessum ástæðum sagði Þórhildur Sunna að þingflokksformenn flokkanna fjögurra legðu til vantraust á hendur dómsmálaráðherra; til að standa vörð um grundvallarstjórnskipan Íslands.
„Um það snýst þessi tillaga og ekkert annað. Hún snýst ekki um veitingu ríkisborgararéttar. Hún snýst ekki um Útlendingastofnun. Hún snýst ekki um útlendinga, hvað sem hver segir. Allra síst snýst hún um dylgjur dómsmálaráðherra í garð þingmanna allsherjar- og menntamálanefndar, sem er ein ógeðfelldasta afvegaleiðing sem ég hef orðið vitni að. Þessi tillaga snýst um það að ráðherra sem brýtur jafn freklega gegn upplýsingarétti almennings getur ekki, má ekki og á ekki að njóta trausts þess sama Alþingis,“ sagði hún. Aðrir þingmenn kölluðu eftir að Þórhildur Sunna lauk máli sínu: „Heyr, heyr.“
Ráðherra verður leystur frá embætti ef vantrauststillaga er samþykkt
Í lögum um Stjórnarráð Íslands segir að ráðherrar starfi í umboði Alþingis. Forsætisráðherra sé skylt að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt ef tillaga um vantraust á ríkisstjórn er samþykkt á Alþingi. Samþykki Alþingi tillögu um vantraust á einstakan ráðherra í ríkisstjórn sé forsætisráðherra skylt að gera tillögu til forseta um að viðkomandi ráðherra verði leystur frá embætti.
Frá 1944 hafa verið lagðar fram þingsályktunartillögur um vantraust á ríkisstjórn í 24 skipti. Þar af var ein tillaga um vantraust á alla ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 1994 en henni var vísað frá að tillögu forsætisráðherra. Á tímabilinu var aðeins ein vantrauststillaga samþykkt. Það var árið 1950 þegar ríkisstjórn Ólafs Thors fór frá. Árið 1974 rauf Ólafur Jóhannesson þing áður en vantrauststillaga á ríkisstjórn hans kom til umræðu á þinginu.
Vantrauststillaga á Sigríði Á. Andersen felld árið 2018
Síðast var vantrauststillaga lögð fram á ráðherra árið 2018 þegar tveir stjórnarandstöðuflokkar, Píratar og Samfylking, lögðu fram slíka tillögu á Sigríði Á. Andersen þáverandi dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar. Það var vegna Landsréttarmálsins svokallaðs, sem snerist um að matsnefnd um hæfi umsækjenda um dómaraembætti við Landsrétt hefði lagt fram tillögu um 15 hæfustu einstaklinganna til að taka við 15 stöðum.
Sigríður ákvað að breyta þeirri tillögu og færa fjóra af lista matsnefndarinnar en setja fjóra aðra í staðinn. Í desember 2017 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði brotið gegn stjórnsýslulögum með athæfi sínu í málum sem tveir mannanna sem höfðu verið færðir af listanum höfðuðu. Hinir tveir höfðuðu síðan bótamál á hendur ríkinu sem þeir unnu.
Vantrauststillagan kom í kjölfar þess að umboðsmaður Alþingis sendi bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar kom fram að hann myndi ekki hefja frumkvæðisrannsókn á málinu í ljósi yfirstandandi umfjöllunar dómstóla og Alþingis um málið. Hann gerði hins vegar nokkrar veigamiklar athugasemdir við málsmeðferðina.
Tillagan var tekin fyrir á Alþingi þann 6. mars 2018 og var hún felld. Atkvæði féllu þannig að 33 voru á móti tillögunni, 29 meðfylgjandi og einn sat hjá, Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins. Tveir þingmenn Vinstri grænna, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, studdu tillögu um vantraust, en aðrir stjórnarþingmenn voru á móti.
Athugasemdir