Um þessar mundir sýður upp úr í Frakklandi með verkföllum og mótmælaaðgerðum um land allt, og er ástæðan áform stjórnarinnar og Macrons forseta um að hækka eftirlaunaaldur úr 62 árum upp í 64 ár. Öll stéttafélög eru andvíg þessari breytingu, og er slíkur einhugur óvanalegur, en auk þess sýna skoðanakannanir að sjötíu af hundraði almennings er henni mótfallinn. Sú tala hækkar til muna ef einungis eru taldir vinnandi menn.
Þessi ólga í Frakklandi vekur stundum undrun á Íslandi og menn spyrja í forundran: vilja Frakkar ekki vinna? Á Íslandi ber nefnilega oft á því, þvert á móti, að menn vilja ekki hætta sínu starfi og fara á eftirlaun, menn kjósa heldur að vera áfram innan um kunningja sína og vinnufélaga, virkir þáttakendur í samfélaginu. En í Frakklandi er staðan orðin önnur, og er rétt að gefa gaum að því.
Það þarf naumast útskýringar við að menn sem hafa unnið erfiðisvinnu alla æfi og eru kannske komnir með bilað bak taki því ekki fagnandi að þurfa nú allt í einu að vinna tvö ár í viðbót. En svo vill til, ofan á annað, að vinnuslysum fer fjölgandi, og bitna ekki síst á verkamönnum sem komnir eru til ára sinna. Vissulega eru til öryggisreglur, en þeim er slælega fylgt, enda ganga yfirvöldin ekki mikið eftir því, á „nýlensku“ samtímans heitir það að þau séu „business friendly“. Menn geta leitt hugann að því hvernig ástandið yrði ef þessum mönnum yrði gert að vinna tvö á í viðbót í ellinni.
Þróunin að undanförnu hefur nú leitt til þess að æ fleiri eru komnir í þann flokk manna sem er kominn að þrotum um sextugt. Einn spriklandi fylgifiskur frjálshyggju er sá að það er orðin lenska, og kennt í alls kyns stjórnunarfræðum, að fara illa með starfsfólk, misþyrma því á allskyns hátt, til að fá úr því sem allra mest afköst og geta svo um leið fækkað launþegum í vinnu til að draga úr „launakostnaði“ sem hagfræðingar kenna að sé að lama efnahagslífið.
Ein aðferðin sem til þess er höfð, og reyndar barnalærdómur stjórnunarfræða, er sú að brjóta niður félagsanda á vinnustöðum með því að etja mönnum út í samkeppi hverjum við annan í anda þess spámanns sem frjálshyggjumenn hafa að sínu leiðarljósi og dýrka eins og múslimar Spámanninn, en það er Darwin. Þetta er til dæmis gert með því að leggja niður einstaklingsbundnar skrifstofur og taka upp í staðinn það sem kallað er á nýlenskunni „open space“, enginn hefur sína eigin skrifstofu heldur verður hver og einn að hlaupa inn í þetta ginnungagap að morgni dags, í kapphlaupi við alla aðra, til að hneppa eitthvert borð fyrir sig. Stundum er þetta fullkomnað á þann hátt að hafa færri borð en starfsmenn, þannig að þeir sem verða undir í samkeppninni þurfa að tylla sitjandanum á einhverja tröppu með tölvuna á hnjánum. Þetta gerir að verkum að enginn hefur lengur sitt persónulega skrifborð, þar sem hann eða hún getur kannske komið fyrir myndum af börnunum (enda slíkt með öllu bannað, hvort sem er). Þeir sem standa sig miður vel í þessari endalausu samkeppni mega vita að þeim muni klukkan glymja næst þegar á dagskrá verður að fækka starfsfólki. Því það er jafnan eitt helsta markmiðið, að hafa sem fæsta starfsmenn og útpíska þá. Afleiðingin er sú að enginn hefur lengur vinnufélaga með sameiginleg hagsmunamál, aðeins darwinska keppinauta – sem þeir vilja vita sem minnst af.
Þessar síversnandi starfsaðstæður hafa einkum verið til umræðu á tveimur sviðum, í heilbrigðiskerfinu og skólakerfinu. Um langt skeið hefur stefnan verið sú að spara sem allra mest á hvorum vettvanginum um sig. Það hefur lengi verið að ætlunin að fækka sjúkrarúmum, þau séu „of mörg í landinu“, og var þeirri stefnu jafnvel haldið til streitu á veirutímunum. Jafnframt hefur hjúkrunarfólki stöðugt verið fækkað og starfsálagið aukið um leið, þannig að svo er komið að neyðarástand ríkir á sjúkrahúsum, ekki síst á bráðamóttökum, þar sem slasaðir menn og fárveikir verða að bíða endalaust uns þeir létta sjálfir álagið með því að deyja drottni sínum. Jafnframt hafa launin jafnt og þétt verið að dragast aftur úr, svo menn flýja burt úr starfinu ef þeir eiga þess nokkurn kost. En aðrir standa í verkföllum og mótmælaaðgerðum.
Í skólakerfinu er ástandið að nokkru leyti með öðrum hætti en ekki betra. Þar hefur stefnan verið sú að fækka kennurum og þá jafnframt fækka kennslustundum eða fjölga í bekkjum, svo það jaðrar við að það sé brot á öryggisreglum. Einnig hefur komist á sá andi, í stíl frjálshyggjunnar, að skólarnir séu eins konar „fyrirtæki“ og nemendur og foreldrar „viðskiptavinir“ þeirra. Því sé það sök kennaranna ef ungviðið fái ekki nógu góðar einkunnir, skólarnir standi þá ekki við sitt í viðskiptunum. Um þetta birti blað eitt tvær teikningar, á hinni fyrri sem merkt var „1962“ voru foredrarnir að skamma son sinn: „Hvað eiga þessar einkunnir að þýða?“ Á hinni seinni sem merkt var „2022“ voru foreldrarnir að skamma kennslukonu: „Hvað eiga þessar einkunnir að þýða?“ en strákurinn stóð hlæjamdi hjá. Yfirleitt leggja foreldrarnir trúnað á allt sem afkvæmin mata þá á um skólann og kennarana, og fyrir bragðið hafa lærimeistararnir foreldrana sífellt yfir sér.
Við þetta bætist enn annað sem er alveg sérstakt fyrir skólana, það er stöðugt verið að gera breytingar á kennslu og námskrám, svo kennarar hafa varla við, þeir eru rétt búnir að átta sig á einni breytingunni þegar önnur dynur yfir. Ýmsar „umbætur“ í kennslumálum eru ekki aðeins óskiljanlegar heldur og heimskulegar, til dæmis þegar bannað var að kenna sögu í tímaröð, í staðinn var tekin upp svokölluð „tematísk saga“. Það bann var látið ná til bókmenntakennslu. Þetta var ekki neinum til góðs nema útgefendum námsbóka sem gátu stöðugt gefið út nýjar og nýjar bækur, en það hindraði mjög svo skilning nemenda, og nám þeirra. Eitthvað af þessu gekk til baka fyrir mikil mótmæli. Eins og í sjúkrahúsum hafa laun í skólum mjög dregist aftur úr. Það er því engin furða að þegar kennarar fara að nálgast sextugt eru þeir dauðþreyttir og farnir að bíða eftir starfslokum.
Yfirvöld geta ekki neitað því að heilbrigðiskerfið og menntakerfið séu í ólestri, og það viðurkenna þau með rödd Bakkabræðra, „faðir vor kallar á kútinn“, en hafa enga tilburði til úrbóta. Macron kom reyndar með þá tillögu að hækka laun sumra kennara en gegn því að þeir hinir sömu tækju á sig einhverja aukavinnu, reyndar ekki beinlínis í venjulegri kennslu. Það var eins og skvetta olíu á eldinn.
Flestum er nú ljóst að þarna er nokkurt system í galskapnum, yfirvöldin stefna fyrst og fremst að því að einkavæða sem mest bæði heilbrigðiskerfið og skólana, koma sem flestum til að leita til einkasjúkrahúsa og senda afkvæmin í einkaskóla, því þangað ná „umbæturnar“ síður. Nú hafa jafnvel verið settir á fót einkaháskólar, sem ekki þekktust áður, til að bæta úr því sem miður fer í ríkisháskólum, en þeir eru byggðir upp sem gróðafyrirtæki og segja blöð að þar sé sitt hvað auglýsingar og veruleiki.
Allt er þetta liður í þeirri markvissu stefnu að brjóta niður það velferðarkerfi sem byggt var upp á mörgum áratugum, allt frá því að alþýðufylkingin var við stjórn í Frakklandi á fjórða ártug síðustu aldar. Það skrapp reyndar einu sinni út úr Macron að það væru „geðveikislegir peningar“ („poignon de dingue“ á mjög alþýðlegri frönsku) sem færu í aðstoð við fátæka. Úr þessu vildi hann augljóslega bæta. Það var einfalt að svara Macron með því að benda á ofsagróða alþjóðahringa og ofurauðkýfinga, sem sáralítill skattur er greiddur af: þetta eru í raun og veru „geðveikislegir peningar“ ef einhverjir eru. En slíkt snertir yfirvöldin ekki hið minnsta, fjármálaráðherra sagði: „Ég veit ekki hvað ofsagróði er.“ Það blasir við að markmið yfirvaldanna er að reka Frakkland eins og einkafyrirtæki, fyrirtæki miskunnarlausrar „samkeppni“ fyrir almenning, þar sem hann veit fyrirfram að hann muni tapa að lokum, og fyrirtæki ofsagróða fyrir fáeina útvalda, ofurauðkýfingana (þróunin er reyndar komin svo langt að farið er að tala um „ofur-ofurauðkýfinga“).
Í leiðinni finnur almenningur hvernig þjóðfélagið er sífellt að harðna og verða miskunnarlausara, og mætti nefna um það mörg dæmi. Þessi harka er nú undirliggjandi og stuðlar vafalaust mjög að því að efla mótmælin. Þau eru nú á tveimur sviðum, annars vegar undir forystu verkalýðsfélaga og hins vegar á þinginu, þar sem vinstri menn berjast með hörku gegn áformi Macrons. Bæði stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar eru sammála um að halda þessum sviðum skýrt aðgreindum, og er það skynsamlegt. Verkföll og mótmælagöngur verkalýðsfélaga hafa verið vel skipulögð, farið mjög friðsamlega fram og því verið áhrifarík fyrir almenningsálitið, auk þess hafa þau skotið stjórnvöldum skelk í bringu að því er sum blöð segja. Á þingfundum, sem standa oftsinnis langt fram á nótt, hefur verið endalaust málþóf innan um ærandi hávaða og alls kyns uppákomur, eins og heyrst hefur í útvarpi. Einn þingmaður málaði að sögn ásjónu einhvers andstæðings á blöðru og settist svo á hana. Fúkyrðin ganga á víxl, og við hefur legið að þingmenn færu í hár saman. Það bætir ekki úr skák að á þessum endalausu næturfundum hafa sumir þingmenn drukkið ósleitilega, að því er blöð herma, og hefur það sömu áhrif á Fransmenn og Mörlanda. Svo mikil brögð hafa verið að þessu að upp á því var stungið að hætta sölu á áfengi á veitingastofu þingsins eftir klukkan níu að kvöldi. En það er ekki til neins, sögðu veitingamenn, þeir eru orðnir fullir löngu áður. Sumir eru jafnvel komnir í rommið klukkan fjögur um eftirmiðdaginn.
Athugasemdir (2)