Ný stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) var kjörin á aðalfundi samtakanna í dag. Auk formannsins, Ólafs Marteinssonar, eru nítján manns í stjórninni. Vísir greinir frá.
Þrjár konur bættust við í hóp stjórnarmanna en Anna Guðmundsdóttir, fjármálastjóri Gjögurs hf., Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis hf. og Linda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Bacco Seaproducts ehf. eru þær konur sem komnar eru í stjórnina.
Klemens Hjartar, meðeigandi hjá McKinsey & Co, sagði á ársfundi SFS í fyrra að kynjahallinn í stjórn sjávarútvegs myndi koma í bakið á greininni.
„Þetta er algjörlega forkastanlegt“
Kjarninn greindi frá því í fyrra að Klemens hefði í erindi sem hann hélt á ársfundi SFS gagnrýnt samtökin fyrir að engin kona væri í stjórn.
„Það sló mig svolítið þegar ég kom hérna í dag og frétti að nú væri komin ný stjórn SFS. Það er 19 manna stjórn og þar eru núll konur í stjórninni. Iðnaður sem ætlar að halla sér fram og breyta heiminum, búa til aðgreinanleika, getur ekki hagað sér svoleiðis. Þetta er algjörlega forkastanlegt og það liggur mér á hjarta, af því að nú vinn ég við að ráðgefa fyrirtækjum út um allan heim, þetta er ekki hægt. Þetta á eftir að koma í bakið á ykkur,“ sagði hann.
Klemens sagðist vona að atvinnugreinin fari að skilja að þetta gangi virkilega ekki. „Ef þetta gerðist einhvers staðar annars staðar í venjulegu fyrirtæki sem er með þennan metnað sem hægt er að hafa hér, þá væri það bara alls ekki ásættanlegt.“
Athugasemdir