Dómsuppsaga verður í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í máli Arnars Þórs Ingólfssonar, blaðamanns á Heimildinni, og Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra á Heimildinni, gegn Páli Vilhjálmssyni framhaldsskólakennara. Arnar og Þórður störfuðu áður á Kjarnanum og stefndu Páli fyrir ærumeiðandi aðdróttanir.
Páll, sem heldur úti bloggsíðu á mbl.is, sagði blaðamennina „eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans“ í tengslum við umfjöllun þeirra um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja.
Kjarninn, sem nú er hluti af Heimildinni, birti fréttir sínar um „skæruliðadeildina“ í maí árið 2021. Þar var fjallað um óeðlilega hagsmunagæslu hóps fólks sem tengdist Samherja með einum eða öðrum hætti. Reyndi það til dæmis að hafa áhrif á formannskjör í stéttarfélagi blaðamanna og kjör á lista Sjálfstæðisflokksins í heimakjördæmi fyrirtækisins.
Páll Vilhjálmsson skrifaði fjölmargar bloggfærslur um málið, þar sem hann m.a. sakaði blaðamennina tvo um að hafa komið að því að stela síma Páls skipstjóra og byrla fyrir honum.
Páli var boðið að draga aðdróttanir sínar til baka. Því hafnaði hann og var í kjölfarið stefnt og ómerkingar krafist á tvennum ummælum Páls:
Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Júlíusson, blaðamenn á Kjarnanum, [...] eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans.
og
Saksóknari mun gefa út ákæru á hendur blaðamönnum RSK-miðla, líklega í september.
Fyrirvari um hagsmuni: Í fréttinni er fjallað um atburði sem tengjast Heimildinni og starfsmönnum fjölmiðilsins beint.
Athugasemdir