Þann 13. mars síðastliðinn voru 40 ár frá því Kvennalistinn var formlega stofnaður en þá um vorið bauð hann í fyrsta sinn fram til Alþingis og fékk þrjár konur kosnar á þing. Vorið áður höfðu komið fram kvennaframboð í Reykjavík og á Akureyri og fengið tvær konur kosnar á báðum stöðum. Kvennaframboðið bauð í síðasta sinn fram til borgarstjórnar og bæjarstjórnar árið 1990 og til Alþingis árið 1995. Kvennaframboðið í Reykjavík varð hluti af Reykjavíkurlistanum og breytingar á flokkakerfinu á landsvísu urðu til þess að meirihluti Kvennalistans gekk til liðs við Samfylkinguna en aðrar við VG eða stóðu utan flokka.
Ég held að óhætt sé að fullyrða að með framboðshreyfingu kvenna hafi orðið algjör vatnaskil í íslenskum stjórnmálum. Fjöldi kvenna á þingi þrefaldaðist í kosningunum 1983 og fór úr 5% í 15% og svo í 20% í kosningunum 1987 enda urðu hinir stjórnmálaflokkarnir að grípa til mótvægisaðgerða til að koma í veg fyrir enn stærri sigur Kvennalistans.
Þessi fjölgun kvenna á Alþingi skipti verulegu máli en stóri sigur kvennaframboðanna fólst samt í því dagskrárvaldi sem þau höfðu bæði innan og utan Alþingis og sveitarstjórna. Þau settu ný mál á dagskrá sem höfðu verið alger jaðarmálefni í pólitískri umræðu en urðu allt í einu hluti af hinum pólitíska meginstraumi og allir sem vildu láta taka sig alvarlega í stjórnmálum urðu að vita eitthvað um. Þetta voru mál eins og leikskólaþjónusta, fæðingarorlof, launajafnrétti, kynferðislegt ofbeldi gegn konum, heimilisofbeldi og réttindi samkynhneigðra. Þar að auki setti Kvennalistinn fram nýjar og róttækar hugmyndir í umhverfismálum og hagstjórn sem voru kenndar við hina hagsýnu húsmóður.
Sem betur fer þykja öll þessi mál sjálfsagður hluti af pólitískri umræðu í dag og svo er fyrir að þakka öllum þeim konum sem ákváðu að efast og þrasa um viðtekna hluti þó að það þýddi að þær þættu bæði leiðinlegar og erfiðar í sölum valdsins. Þetta hafa konur gert í áratugi og aldir og það hefur skilað mikilvægum réttarbótum sem bæði konur og karlar hafa notið góðs af.
Vegna aðgerða kvenna hefur okkur gengið mjög vel á Íslandi – í öllum alþjóðlegum samanburði – að draga úr kynbundnu misrétti á mörgum sviðum s.s. í stjórnmálum, stjórnun, menntun og launamálum en það þýðir samt ekki að feðraveldið hafi liðið undir lok. Órækasti vitnisburðurinn um það er hversu hægt okkur gengur að útrýma kynbundnu ofbeldi gegn konum og börnum.
„Karlar með mikil völd, hvort sem er á heimili eða í samfélagi, hafa tilhneigingu til að truflast – verða vænisjúkir, hefni- og árásargjarnir narsissistar.“
Ég hef unnið að réttindamálum kvenna víðar en á Íslandi og séð með eigin augum hvað feðraveldið getur verið varasamt og beinlínis stórhættulegt þegar saman fara einræðistilburðir og kerfisbundin kvenfyrirlitning. Oft fer þetta tvennt reyndar saman og magnar upp hvort annað.
Vald spillir og algert vald spillir algerlega. Karlar með mikil völd, hvort sem er á heimili eða í samfélagi, hafa tilhneigingu til að truflast – verða vænisjúkir, hefni- og árásargjarnir narsissistar. Verði í rauninni andlega truflaðir af valdinu.
Hvað annað er hægt að segja um þá fjölmörgu karla sem beita sambýliskonur og börn grimmilegu ofbeldi eða karlana sem stjórna þeim valdakerfum þar sem feðraveldið er allsráðandi?
Talibanarnir í Afganistan hafa svipt 20 milljónir stúlkna þeim grundvallarmannréttindum að sækja sér menntun, þeir hafa bannað konum að sýna andlit sitt á almannafæri og takmarkað ferðafrelsi þeirra.
Í Íran ofsækir siðferðislögreglan konur sem ekki vilja hylja sig og sjálfskipaðir siðgæðisverðir eitra fyrir stúlkum í framhaldsskólum sem ekki hlýða siðaboðskap erkiklerkanna. Í Checniu eru konur og karlar sem gerast sek um samkynhneigð leituð uppi, þau pyntuð og jafnvel drepin – ef ekki af yfirvöldum þá af ættingjum – án þess að það hafi nokkur eftirmál.
Og svo er auðvitað Rússland Pútíns þar sem sannarlega fara saman einræðistilburðir og djúpstæð kvenfyrirlitning og brjótast m.a. út í árásarstríði gegn nágrönnum í Úkraínu sem ekki vilja beygja sig undir vald herraþjóðarinnar.
„Eins og öll rótgróin valdakerfi hefur feðraveldið einstaka hæfileika til að viðhalda sér og konur jafnt sem karlar geta stuðlað að viðhaldi þess.“
Feðraveldið byggist á árþúsunda arfi sem ekki verður upprættur svo auðveldlega og er með djúpar rætur í vitund okkar hvers og eins, bæði kvenna og karla. Það býr hið innra með okkur og hefur áhrif á hugsunarhátt okkar og hugmyndir, viðhorf, viðbrögð og tungutak. Það mótar enn öll okkar kerfi, stofnanir, mælikvarða, ferli og samskipti.
Eins og öll rótgróin valdakerfi hefur feðraveldið einstaka hæfileika til að viðhalda sér og konur jafnt sem karlar geta stuðlað að viðhaldi þess. Víða á Vesturlöndum eru konur boðnar velkomnar inn í þetta valdakerfi og okkur jafnvel vísað til borðs í öndvegi ef við högum okkur vel og samkvæmt forskrift kerfisins.
Ég lærði það í Kvennaframboðinu og Kvennalistanum fyrir 40 árum að það skilar okkur ekkert áleiðis að vera prúðar og stilltar og spila samkvæmt reglum karlanna. Við verðum að óhlýðnast til að ná árangri, við verðum að þora að hugsa stofnanir, reglur, samskipti, hugmyndir og tungutak upp á nýtt. Og við verðum að láta um okkur muna. Annars endum við bara sem duglegar vinnukonur í valdakerfi sem byggist á ójafnræði og mismunun.
Í upphafi ætluðu frambjóðendur Kvennalistans sér ekki slímsetu á þingi, skifta átti út á miðju kjörtímabili. Þekktasta verk ISG er lofsöngur hennar um góðærið á síðustu metrunum fyrir hrun.