Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Sársauki flókinnar arfleifðar

List­fræð­ing­ur­inn Mar­grét Elísa­bet Ólafs­dótt­ir rýn­ir í sýn­ing­una Að rekja brot í Gerð­arsafni.

Sársauki flókinnar arfleifðar
Myndlist

Að rekja brot

Gefðu umsögn

Hvað köllum við norræna myndlist? Og hvaða merkingu hefur þjóðerni myndlistarfólks á tímum fólksflutninga, fjölmenningar og flókinnar arfleifðar? Þessar spurningar koma upp í hugann þegar gengið er í gegnum sýninguna Að rekja brot  í Gerðarsafni í Kópavogi. Nöfn myndlistarfólksins eru ónorræn og við fyrstu sýn er aðeins hægt að tengja nafn sýningarstjórans, Daríu Sól Andrews, við Ísland. Þegar betur er að gáð eiga tveir aðrir íslenskir listamenn aðkomu að sýningunni, Kathy Clark og Hugo Llanes. Þau eru kannski ekki með íslensk vegabréf en Kathy hefur starfað lengi hér á landi og Hugo lærði myndlist við Listaháskóla Íslands og hefur látið að sér kveða í íslensku listalífi. Kathy er bandarísk en á rætur að rekja til Kóreu og Japan en Hugo er frá Mexíkó. Sasha Huber og Abdullah Qureshi koma frá Finnlandi, en eiga rætur að rekja til Sviss og Haítí annars vegar og Lahore hins vegar. Frida Orupabo er fædd í Noregi en á rætur að rekja til Nígeríu. Inuuteq Storch er frá Grænlandi en býr einnig í Kaupmannahöfn. Öll eiga þau það sameiginlegt að fjalla um uppruna sinn og áhrif hans á stöðu sína í heiminum.

„Sprellikarlar“ og brostin hjörtu

Frida Orupabo notar fundnar svart-hvítar ljósmyndir í verk sín, sem hún stækkar upp, klippir út og setur saman með pappírsfestingum þannig að þær minna á sprellikarla. Viðfangsefnið sjálft er ekkert sprell heldur vísar í þær skrípamyndir sem dregnar hafa verið upp af fólki af afrískum uppruna í vestrænum samfélögum. Samsetningin myndanna gefur verkum eins og A Warm Meal (2021) og Leda and the Swan (2021) torkennilegt og framandi yfirbragð sem er um leið óþægilega kunnuglegt og krefur áhorfandann til að horfast í augu við arfleifð nýlendutímans.  

Sasha Huber tekst einnig á við ofbeldi fortíðarinnar og áhrif þess á samtímann í sínum verkum, en hún notar hefti og heftibyssur til að draga upp myndir af ofbeldi í fortíð og nútíð og móta áferð í þrívíðum verkum unnin í tré. Í This is America II (2022) hefur Sasha teiknað hjarta á hvíta bómull sem hefur verið strekkt á skothelt vesti til að minnast Ahmaud „Maud“ Arbery, sem var skotinn til bana þegar hann var úti að hlaupa í hvítum stuttermabol. Það er auðvelt að tengja viðfangsefnið málefnum sem alltof oft rata í fréttir, en það sama á ekki við um hollenska tréklossa sem hafa verið þaktir heftum og virðast ósköp sakleysislegir þar sem þeir standa á stöpli sýningarrýmisins. Undirliggjandi merking verksins afhjúpast í titlinum Free Zwarte Piet (2019) eða Frelsum Svarta Pétur, hörundsdökkan aðstoðarmann – og þræl –hollenska jólasveinsins Sinterklaas. Í verkum Sasha takast á áferðarfalleg ásýnd málmgljáandi heftisins og tilfinning fyrir ofbeldi sem verður nánast líkamlega áþreifanleg þegar verkin eru skoðuð í návígi.

Klisjur og sjálfsemd

Verk Inuuteq Storch og Adullah Qureshi eru unnin í hefðbundnari miðla, sem eru ljósmyndir og málverk. Inuuteq sýnir hversdagslífið á Grænlandi í ljósmyndaröðinni  Keepers of the Ocean (2022) en allar ljósmyndirnar eru teknar eins og skyndimyndir. Myndefnið er hvorki uppstillt né fegrað heldur látlaust um leið og myndirnar bera vitni um næmt auga ljósmyndarans. Allt myndefni hefur sama vægi í meðförum Inuuteq hvort sem það er skellinaðra og þvottasnúrur sem birgja sýn út á sjó, samskipti hunds og manns, snæviþaktir smábátar, vinnufatnaður á snaga, maður að skríða í gegnum rör, sundferð á sólardegi eða par í faðmlögum uppi í sófa. Í verkunum afbyggir Inuuteq allar mögulegar og ómögulegar klisjur um Grænland og Grænlendinga með því að sýna okkur lífið í nútímanum eins og hann sér það.

Málverk Adullah unnin í akrýl og indverskt blek, fela í sér annars konar afbyggingu sem snýr að staðalímyndum karlmennskunnar í múslimskri menningu og áhrif hennar á hugmyndir annarra menningarheima um múslimska karlmenn. Málverkin Chris I (2022) og Would you like to join me in the Sauna? (2022) sýna og ýja að því sem ekki má sjást eða segja frá, en samkynhneigðir múslimskir karlmenn eru krafðir um að lýsa þegar þeir leita skjóls á Vesturlöndum. Adullah tekst á heillandi hátt á við togstreituna milli feluleiks og frelsis með framsetningu á forboðnu myndefni sem vegur salt á milli sýnileika og ósýnileika, afhjúpunar og hulu.

Persónulegar minningar

Hugo Llanes leikur einnig með mörk hins fígúratífa og abstrakt en á allt annan hátt í myndbandsinnsetningunni  Dulce como amargo: De la Vera Cruz (2023) eða Sætt sem beiskt: frá Vera Cruz.  Eldur á ökrum og svífandi öskufall í húsagarði sem fellur yfir líkama listamannsins eins og svartur snjór hefur dáleiðandi aðdráttarafl. Eldurinn gæti minnt á trúarlega athöfn, merkjasendingar eða slys tengt þurrki en er í raun aðferð notuð við ræktun sykurreyrs í Mexíkó. Ræktunaraðferðin sem hefur mengandi áhrif á allt umhverfið er arfleifð frá nýlendutímanum og þannig táknræn fyrir áhrif nýlendustefnunnar á lönd Rómönsku Ameríku.

Önnur innsetning á sýningunni er verk Kathy Clark, My Mother and the Market in Ikwakuni, Japan (2023), sem byggir á minningum móður listakonunnar sem var stödd á markaði í Hiroshima þegar kjarnorkusprengjan féll á borgina. Tilefnið orkar sterkt á áhorfandann og þá ekki síst sú staðreynd að móðirin, sem er kóresk að uppruna, hélt þessari reynslu leyndri fyrir dætrum sínum, sem eru aldar upp í Bandaríkjunum, áratugum saman. Þetta kemur fram í hljóðupptöku af frásögn móðurinnar og systur listakonunnar sem fylgir verkinu. Innsetningin er sett upp eins og hvíthreinsaður minjagripamarkaður með bakherbergi sem athvarf minninga um alla þá sem létu lífið í sprengingunni. Hún er einnig hús minninga sýningargesta sem er boðið að taka þátt í verkinu og minnast horfinna ástvina. Verkið vekur spurningar um kúgun og skömm um leið og það býður heilun.

Hlutverk sýningarstjórans

Sýningin Að rekja brot  er hugarfóstur sýningarstjórans Daríu Sól Andrews sem er íslensk-bandarísk og menntuð í sýningargerð frá Stokkhólmi. Með vali sínu á verkum og listamönnum varpar hún fram spurningum um samfélagslega knýjandi málefni er snúa að uppgjöri við arfleifð nýlendustefnunnar og áhrif hennar á einstaklinga og samfélög í samtímanum. Daríu Sól hefur tekist einstaklega vel upp með val á verkum og listamönnum sem þrátt fyrir að vera ólík að formi og gerð búa yfir sameiginlegu leiðarstefi. Vandað er til uppsetningar á verkunum, sem fá svigrúm í rýminu og áhorfandinn andrými til að meðtaka þau hvert fyrir sig sem og erindi hvers listamanns. Að rekja brot er fengur inn í flóru myndlistarsýninga á Íslandi, bæði vegna inntaks verkanna, og gæða þeirra og vel heppnaðrar uppsetningar.


Listamenn: Kathy Clark, Sasha Huber, Hugo Llanes, Frida Orupabo, Inuuteq Storch, Abdullah Qureshi
Sýningarstjórn: Daría Sól Andrews
Sýningarstaður: Gerðarsafn, Kópavogi
Sýningartímabil: 2. febrúar – 21. maí 2023
Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mataræði er vanræktur þáttur í svefnvanda
1
Viðtal

Mataræði er van­rækt­ur þátt­ur í svefn­vanda

Góð­ur svefn er seint of­met­inn en vanda­mál tengd svefni eru al­geng á Vest­ur­lönd­um. Tal­ið er að um 30 pró­sent Ís­lend­inga sofi of lít­ið og fái ekki end­ur­nær­andi svefn. Ónóg­ur svefn hef­ur áhrif á dag­legt líf fólks og lífs­gæði. Svefn er flók­ið fyr­ir­bæri og margt sem get­ur haft áhrif á gæði hans, má þar nefna lík­am­lega og and­lega sjúk­dóma, breyt­inga­skeið, álag, kvíða, skort á hreyf­ingu og áhrif sam­fé­lags­miðla á svefn­gæði. Áhrif nær­ing­ar og neyslu ákveð­inna fæðu­teg­unda á svefn hafa hins veg­ar ekki vak­ið at­hygli þar til ný­lega.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Hann sagðist ekki geta meir“
1
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Síðasta tilraun Ingu Sæland
3
ViðtalFormannaviðtöl

Síð­asta til­raun Ingu Sæ­land

Flokk­ur fólks­ins var stofn­að­ur til að út­rýma fá­tækt á Ís­landi, sem Inga Sæ­land, formað­ur flokks­ins, þekk­ir af eig­in raun. Hún boð­ar nýtt hús­næð­is­kerfi með fyr­ir­sjá­an­leika og nið­ur­skurð í öllu því sem heita að­gerð­ir gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Græn­asta land í heimi eigi að nota pen­ing­ana í heil­brigðis­kerfi og aðra inn­viði sem standi á brauð­fót­um.
Svanhildur Hólm með áberandi minnsta reynslu af utanríkismálum
6
Fréttir

Svan­hild­ur Hólm með áber­andi minnsta reynslu af ut­an­rík­is­mál­um

Ljóst er að Svan­hild­ur Hólm, sendi­herra í Banda­ríkj­un­um, sker sig úr hópi koll­ega sinna frá Norð­ur­lönd­un­um hvað varð­ar tak­mark­aða reynslu á vett­vangi ut­an­rík­is­mála. Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd bíð­ur enn svara frá ut­an­rík­is­ráðu­neyt­inu um vinnu­brögð ráð­herra við skip­un á sendi­herr­um í Banda­ríkj­un­um og Ítal­íu.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
3
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
4
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár