Helgi Seljan er rannsóknarblaðamaður ársins og Sunna Valgerðardóttir er blaðamaður ársins. Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands voru veitt fyrr í kvöld.
Verðlaun eru veitt í fjórum flokkum, fyrir viðtal ársins, umfjöllun ársins, rannsóknarblaðamennsku ársins og blaðamaður ársins.
Verðlaunin hlaut Helgi fyrir fréttaskýringar Stundarinnar um Alexander Moshensky, kjörræðismann Íslands í Belarús, og náin tengsl hans við Alexander Lukashenko, einræðisherra landsins. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars: „Rannsókn Helga leiddi meðal annars í ljós að íslensk stjórnvöld áttu mikil samskipti við fulltrúa Evrópuríkja eftir að Moshensky leitaði liðsinnis þeirra vegna boðaðra refsiaðgerða gegn honum en Moshensky er umfangsmikill kaupandi íslenskra sjávarafurða. Í kjölfar fréttaskýringanna var mál Moshenskys tekið upp í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og utanríkisráðherra kallaður fyrir nefndina.“
Er þetta í fjórða sinn sem Helgi fær blaðamannaverðlaun, en um var að ræða tíundu tilnefninguna.
Viðtal ársins átti Lillý Valgerður Pétursdóttir, á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgunnar, fyrir viðtal við Arnar Þór Ómarsson og Petru Bergrúnu Axelsdóttur, íbúa á Þórshöfn um aðdraganda andláts dóttur þeirra.
Þá átti Þorsteinn J. Vilhjálmsson umfjöllun ársins um kennarann og útvarpsmanninn Skeggja Ásbjarnarson og ofbeldi hans gegn börnum Laugarnesskóla. Umfjöllunin birtist sem útvarpsþáttaröð á Rás 1.
Loks var Sunna Valgerðardóttir verðlaunuð sem blaðamaður ársins, fyrir fréttaskýringar á miðlum Sýnar og RÚV, þá sérstaklega fyrir umfjöllun um trúarofbeldi innan sértrúarsafnaða og aðra hópa sem fást við andleg málefni og afleiðingar þess, sem og umfjöllun um ópíóðafíkn. Að auki var tiltekið í rökstuðningi dómnefndar efnistök í þættinum Þetta helst á Rás 1 væru fjölþætt og nýstárleg.
Athugasemdir (8)