„Ég er með þér, sama hvað,“ skrifaði Tony Blair til vinar síns George W. Bush árið 2002. Um það leyti voru þeir að leggja á ráðin um að ráðast inn í Írak til að steypa einræðisherranum Saddam Hussein af stóli. En af hverju? Og á hverju byggðu fullyrðingar þeirra tveggja um að Saddam hefði yfir gjöreyðingarvopnum að ráða?
Það er meðal spurninga sem breski fjölmiðlamaðurinn David Dimbleby spyr í hlaðvarpsþáttaröðinni The Fault Line: Bush, Blair and Iraq. Í þáttaröðinni ræðir Dimbleby og teymi hans við forsætisráðherra, aðra stjórnmálamenn, njósnara og vopnaeftirlitsmenn til að varpa ljósi á hæpnar forsendur stríðsins.
Þættirnir eru nokkuð mismunandi að lengd og eru allt frá tæpum 35 mínútum og upp í rúmar 55 mínútur. Þeir eru þó af miklum gæðum, vel framleiddir og reynsla Dimbleby af fjölmiðlun skín í gegnum frásögnina.
Frásögnin snýst fyrst og fremst að þeim átján mánuðum sem liðu á milli hryðjuverkaárásanna 11. september 2001 í Bandaríkjunum og innrásarinnar árið 2003 í Írak; þeim tíma þegar Bush Bandaríkjaforseti og Blair, forsætisráðherra Bretlands, virtust verða annað og meira en bara kollegar hvor sínum megin Atlantsála.
Athugasemdir