Fyrir hálfum mánuði birtust á vefsíðu og í sjónvarps- og útvarpsfréttum danska útvarpsins, DR, fréttir um bágt ástand danska hersins. Sumt í þeim fréttum var ekki nýtt af nálinni en annað hafði ekki verið í hámæli.
Mesta athygli vakti hve margir velja að hætta hermennskunni. Árið 2022 hættu tæplega tvö þúsund manns í hernum, þá eru ekki meðtaldir þeir sem hættu vegna aldurs. Ástandið er verst í landhernum, þar vantar fjórða hvern mann, í flotanum er ástandið svipað. Herinn er ekki fús að upplýsa hvenær sé fullmannað en í umfjöllun danska útvarpsins kom fram að því fari fjarri að hægt sé að fullmanna samtímis öll herskip flotans. Að mati sérfræðinga sem útvarpið ræddi við þyrfti að fjölga um fimmtung í flotanum til að fullmannað teldist.
Af hverju er ástandið svona?
Eins og stundum þegar stórt er spurt er svarið einfalt: Gríðarmikill niðurskurður árum saman, reyndar áratugum saman. Eftir lok síðari heimsstyrjaldar tóku þjóðir Evrópu hægt og rólega að rétta úr kútnum, staðráðnar í að hildarleikurinn, sem lauk með uppgjöf Þjóðverja 1945, skyldi aldrei endurtaka sig. Meðal stjórnmálamanna og almennings ríkti skilningur á nauðsyn þess að byggja upp öflugar varnir og herbúnað.
Á árum kalda stríðsins, allt fram til 1990, lögðu margar þjóðir í mikinn viðbúnað, til að bregðast við kjarnorkuvánni, eins og það var gjarnan orðað. Þegar því lauk um 1990 töldu margar þjóðir sig vera komnar á lygnan friðarsjó og í kjölfarið var farið að draga úr fjárveitingum til hermála. Danir, eins og margar þjóðir, töldu fjármunum betur varið til annarra verkefna en hernaðaruppbyggingar og þá hófst niðurskurðartímabil sem segja má að staðið hafi fram á allra síðustu ár. Afleiðingarnar blasa nú við: skortur á mannafla, tækjakosturinn að stórum hluta gamall og úreltur og húsakostur hersins ber merki áratuga viðhaldsleysis, margar byggingar ónothæfar vegna leka og myglu. Forsvarsmenn hersins hafa árum saman talað fyrir daufum eyrum stjórnmálamanna.
Tveggja prósenta markmiðið árið 2014
Í byrjun september árið 2014 hittust leiðtogar Nato-ríkjanna í bænum Newport í Wales. Fyrr á því sama ári höfðu Rússar ráðist inn í Úkraínu og lagt undir sig Krímskagann. Leiðtogar Nato óttuðust að Rússar myndu ekki láta þar við sitja heldur hyggja á frekari landvinninga, eins og nú hefur komið á daginn. Og hvernig væru Nato-ríkin í stakk búin til að takast á við ógnina úr austri var spurningin sem brann á vörum leiðtoganna. Svarið var að því færi fjarri að í þeim efnum væri allt eins og best yrði á kosið.
2%
Anders Fogh Rasmussen, sem um þetta leyti var að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Nato, ítrekaði það sem hann hafði margoft sagt varðandi framlög ríkjanna til hermála: Þau væru alltof lítil og sífellt yrði erfiðara að snúa taflinu við, það myndi koma í bakið á löndunum ef ekki yrði brugðist við. Á þessum fundi í Wales urðu leiðtogarnir sammála um að stefna að auknum fjárveitingum til varnarmála og miða árlega við 2 prósent af vergri þjóðarframleiðslu hvers lands. Skuldbundu sig sem sagt ekki. Tveggja prósenta viðmiðið hafði reyndar oft verið nefnt áður.
Ákvarðanir til fjögurra ára í senn
Danir hafa haft þann háttinn á varðandi fjárveitingar til varnar- og öryggismála að gera samkomulag á þinginu, iðulega til fjögurra ára í senn. Oftast hefur verið um að ræða svonefnt breitt samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þótt sumir í hópi þingmanna hafi gegnum árin iðulega talað mikið og lengi um nauðsyn aukinna fjárveitinga til hersins breytti það litlu og 2 prósenta markmiðið víðs fjarri árum saman.
Þrátt fyrir að Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra skrifaði undir „viljayfirlýsinguna“ í Wales breytti það litlu, árið eftir var niðurskurðarhnífurinn enn á lofti í danska þinginu og framlögin til hersins skorin niður um 2,6 milljarða danskra króna og þá námu framlögin um það bil 1,2 prósentum af vergri þjóðarframleiðslu, óralangt frá áðurnefndum 2 prósentum.
Eftir kosningarnar í Danmörku 2015 urðu stjórnarskipti, Lars Løkke Rasmussen varð forsætisráðherra í minnihlutastjórn Venstre. Síðar bættust Íhaldsflokkurinn og Frjálsræðisbandalagið í stjórnina.
Í ársbyrjun 2018 gerðu stjórnarflokkarnir, ásamt sósíaldemókrötum, Radikale Venstre og Danska Þjóðarflokknum sex ára samkomulag um framlög til varnarmála, sem nú skyldu aukin í 1,3 prósent af vergri þjóðarframleiðslu. Eftir mikinn þrýsting frá Bandaríkjunum samþykkti danska þingið að auka framlögin þannig að 2023 næmi upphæðin 1,5 prósentum af þjóðarframleiðslunni. Skref í áttina að markmiðinu í yfirlýsingunni frá Nato-fundinum 2014.
Samkomulag til næstu fjögurra ára
Samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar átti að hefja vinnu við gerð samkomulags um varnarmál í byrjun þessa árs. Ýmislegt hefur orðið til að seinka því og vinnan er ekki hafin. Í viðtali við dagblaðið Berlingske fyrir nokkrum dögum sagði settur varnarmálaráðherra, Troels Lund Poulsen, að beðið væri eftir gögnum. Hann ítrekaði samkomulag ríkisstjórnarflokkanna um aukin framlög til öryggis- og varnarmála á næstu árum en sagði að niðurskurður liðinna áratuga hefndi sín nú.
Margt aðkallandi en starfsmannamálin brýnust
Skömmu eftir síðustu áramót birtist í veftímaritinu OLFI grein eftir Hans Peter Michaelsen hernaðarsérfræðing. Í greininni fjallar hann um þann vanda sem danski herinn stendur frammi fyrir og ráða verður bót á. Hann segir að líkt og með Róm forðum verði áratuga fjársvelti og niðurskurður ekki bætt á einum degi. Hann nefnir tíu atriði, sem öll séu mikilvæg en númer eitt séu starfsmannamálin og þann vanda sé brýnast að leysa.
Allt starfsfólk hersins, segir Hans Peter Michelsen, vinni undir miklu álagi. Álagið valdi því að yngra fólk í hernum gefist upp og hætti. Launin séu alltof lág og gera þurfi mögulegt að greiða aukalega fyrir ýmiss konar aukavinnu sem sé ólaunuð í dag. Þótt einhvern tímann hafi verið litið á hermennskuna sem ævistarf þá sé það ekki þannig lengur. Þess vegna þurfi að grípa til ráðstafana til að draga úr fráfallinu, eins og hann orðar það. Hann nefnir líka að fólk sem ræður sig í herþjónustu, um eða innan við tvítugt, vilji stoppa stutt við. Ástæðan sé sú að hermennskan seinki hugsanlegu framhaldsnámi. Ein hugmynd sem fram hefur komið og ýmsir þingmenn hafa lýst sig fylgjandi er að þegar einstaklingur hefur gegnt hermennsku í tiltekinn árafjölda, kannski fjögur til sex ár, fái viðkomandi laun til að stunda framhaldsnám. Einnig hefur komið fram sú hugmynd að hermennskan gefi tiltekinn einingafjölda sem viðkomandi njóti svo góðs af þegar kemur að framhaldsnámi.
Í áðurnefndri grein nefnir Hans Peter Michelsen margt annað sem gera þurfi til að efla herinn. Tækja- og húsakostur hersins sé alls óviðunandi, samkvæmt reglum Nato skal herinn ráða yfir vopnum og vistum sem dugi til mánaðar átaka, slíkt sé ekki reyndin núna.
En, undirstaðan sé fólkið. Þess vegna þurfi að leggja megináherslu á að gera hermennskuna aðlaðandi og sjá til þess að ungt fólk vilji leggja starfið fyrir sig.
Athugasemdir (1)