Lestur Fréttablaðsins hélt áfram að falla í síðasta mánuði og mælist nú 14,5 prósent. Lesturinn hrundi í janúarmánuði þegar hann fór úr 28,2 prósent í 15,7 prósent í kjölfar þess að Torg, útgáfufélag blaðsins, ákvað að hætta að dreifa blaðinu í hús. Nú er það aðgengilegt á ýmsum stöðum á borð við stórmarkaði og bensínstöðvar auk þess sem hægt er að lesa Fréttablaðið í stafrænni útgáfu.
Lestur blaðsins er enn minni hjá aldurshópnum 18 til 49 ára. Þar mælist hann nú 7,7 prósent en var 17,4 prósent í desember.
Morgunblaðið, sem er áskriftarblað en er dreift endurgjaldslaust í aldreifingu á fimmtudögum, hefur bætt við sig lestri samhliða þessari þróun. Frá því í desember hefur lestur blaðsins í heild farið úr 17,8 prósent í 19,1 prósent og hjá fullorðnum undir fimmtugu hefur hann aukist úr 8,2 í 8,7 prósent á tveimur mánuðum.
Lestur Heimildarinnar, sem kemur út á tveggja vikna fresti, eykst milli mánaða. Hann fer úr 8,5 í 8,7 prósent. Lestur blaðsins hjá aldurshópnum 18-49 ára stendur í stað milli mánaða í 6,3 prósentum.
Boðaði aukinn lestur í febrúar
Sú þróun sem orðið hefur á lestri Fréttablaðsins er ekki í takti við þær væntingar sem útgáfufélag blaðsins hafði til breytinganna. Í frétt sem birtist í Fréttablaðinu í upphafi ársins var tilkynnt um breytta dreifingu og þar haft eftir Jóni Þórissyni, forstjóra Torgs, að ekki væri búist við því að lestur blaðsins kæmi til með að dragast saman.
Þegar það gerðist í fyrstu mælingu eftir breytingarnar sagði Jón, í samtali við vef DV sem einnig er í eigu Torgs, að það væri „villandi að birta meðaltalslestur blaðsins allan janúar á meðan breytingin gekk yfir, en miklu raunhæfara að skoða tölurnar fyrir seinni hluta mánaðarins þegar breytingin var um garð gengin.“ Í febrúar mætti búast við að lestur Fréttablaðsins myndi aukast til muna.
Það gerðist ekki. Þess í stað dróst hann áfram saman.
Náðu um tíma yfirburðarstöðu
Með þeirri dreifingu sem áður var, þar sem blaðið kom inn um lúgu fjölda fólks á hverjum morgni, náði Fréttablaðið yfirburðastöðu á prentmarkaði á Íslandi. Vorið 2007 sögðust til að mynda 65,2 prósent landsmanna lesa Fréttablaðið.
Síðan hefur fjarað jafnt og þétt undan lestrinum vegna ýmissa ástæðna. Tæknibylting samhliða snjallvæðingu og stafrænum framförum hefur skilað breyttri neysluhegðun, enda leiðir lesenda og áhorfenda til að nálgast fréttir allt aðrar í dag en þær voru fyrir 15 árum síðan.
Lestur Fréttablaðsins hefur dregist hratt saman samhliða þessum breytingum. Hann fór undir 50 prósent 2015, undir 40 prósent fyrir tæpum þremur árum undir 30 prósent í fyrra og í síðustu mælingu fyrir breytingarnar á dreifikerfinu stóð hann í 28,2 prósentum. Nú er hann svo kominn undir 15 prósent.
Samdrátturinn er enn meiri hjá yngri hluta þjóðarinnar, fullorðnum einstaklingum undir 50 ára sem alla jafna eru taldir mikilvægustu skotmörk auglýsenda. Hjá þeim hópi hefur lesturinn farið úr 64 prósent í 7,7 prósent á um tólf árum.
Mikill taprekstur
Fréttablaðið er í eigu útgáfufélagsins Torgs og er flaggskip þess félags. Félagið rekur einnig vefmiðlana dv.is, eyjan.is, pressan.is, 433.is, hringbraut.is, frettabladid.is og sjónvarpsstöðina Hringbraut.
Útgáfudögum Fréttablaðsins var fækkað úr sex í fimm á viku á árinu 2020 þegar hætt var með mánudagsútgáfu blaðsins.
Torg er í eigu tveggja félaga, Hofgarða ehf. og HFB-77 ehf. Eigandi fyrrnefnda félagsins er fjárfestirinn Helgi Magnússon og hann á 82 prósent í því síðarnefnda. Helgi er auk þess stjórnarformaður Torgs. Aðrir eigendur þess eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, áðurnefndur Jón Þórisson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins og núverandi framkvæmdastjóri Torgs, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi. Hlutur annarra en Helga er hverfandi.
Hópurinn keypti Torg í tveimur skrefum á árinu 2019. Kaupverðið var trúnaðarmál en í ársreikningi HFB-77 ehf. fyrir árið 2019 má sjá að það félag keypti hlutabréf fyrir 592,5 milljónir króna á því ári. Torg var og er eina þekkta eign félagsins.
Tap af reglulegri starfsemi fjölmiðlafyrirtækisins Torgs var 325,7 milljónir króna á árinu 2021,, samkvæmt ársreikningi félagsins. Heildartapið var 252,5 milljónir króna en þar munar mestu um að tekjuskattsinneign vegna taps ársins var bókfærð sem tekjur upp á 73 milljónir króna. Uppsafnað skattalegt tap nýtist ekki nema að fyrirtæki skila hagnaði.
Á árunum 2019 og 2020 var milljarðs króna tap af reglulegri starfsemi fyrirtækisins. Samanlagt hefur því verið rúmlega 1,3 milljarða króna tap af henni á þremur árum. Heildartap, þegar búið er að taka tillit til þeirrar tekjuskattsinneignar sem skapaðist vegna tapsins á þessum árum, var tæplega 1,1 milljarður króna.
Athugasemdir