Það er árið 1973. Stúlkan á myndinni er nýútskrifuð Verzlunarskólamær, nítján ára og á von á barni í haust. Hún og kærastinn ætla að gifta sig á næsta ári og eiga allt lífið fram undan. Æskuárin hafa liðið hratt, flestir dagar góðir, ekki allir þó, því lífið er súrsæt blanda.
Í bernskuminningunni er útivera snar þáttur, leikir á sólbjörtum kvöldum jafnt og snjóköldum. Göngutúr eftir hitaveitustokknum með vinkonunum, tala um nýjustu hljómplöturnar og stráka, auðvitað. Svo er það brennó á malargötunni, teygjutvist og snú snú. Ætlar hún aldrei að verða fullorðin? Eða inni, systir mín, mamma, pabbi, dúkkulísur, legó, baka, lesa, hlæja, kýta, hvíla.
Á sumrin sumarbústaður, skátaútilegur, skógrækt, vinna í sjoppu. Skreppa í sveitina að heimsækja ættingja og vini. Á vetrum skóli og tónlistarnám, sagt að þannig læri maður sjálfsaga, skátafundir, að ógleymdum rólegheitastundum á bókasafninu í hverfinu. Lærdómsríkt að lesa blíðar og stríðar sögur sem magna ímyndunaraflið. Þögnin ríkir og hvetur unglinginn til umhugsunar um lífið og tilgang þess.
Sumarið ´71 er stúlkan í Svíþjóð við leik og störf. Sumarið´72 er hún gangastúlka á Kleppsspítala og eyðir helgunum með kærastanum, það er bíó, böll, útilegur, kelerísbíltúrar í Öskjuhlíð, hitta vini og taka þátt í fjölskyldulífinu hjá hvort öðru. Árið 1976 eru skötuhjúin harðgift og foreldrar tveggja dásamlegra drengja. Seinna bætist nýr sólargeisli í fjölskylduna, lítil systir. Í stórum dráttum er lífið gott.
Einhvern veginn svona var það á seinni hluta síðustu aldar hjá dæmigerðri vísitölufjölskyldu. Ég var eiginkona, móðir, dóttir, systir, tengdadóttir, frænka og vinkona, vann við skrifstofustörf. En alltaf var hann á bak við eyrað, draumurinn um að miðla tónlist, og draumar geta ræst.
Lífið hefur kennt mér að eina leiðin til að ná árangri er ástundun. Hann pabbi minn hafði alltaf málshætti, brot úr Hávamálum og orðatiltæki á hraðbergi. Þegar ég hugsa um þessa speki, sem mér fannst stundum dálítið þreytandi, sé ég æ betur hvað orðin eru innihaldsrík, til dæmis málshátturinn: „Fáir eru smiðir í fyrsta sinn.“ Myndrænn, lýsandi.
„Æfingin skapar meistarann“, sögðu foreldrar mínir þegar ég var alveg að gefast upp á stöðugum heimaæfingum í freistandi vorsólinni. Um þennan málshátt þarf ekki mörg orð. Þarna verð ég að bæta inn í að við sem störfum við kennslu höfum hann í hávegum og á hann auðvitað að minnsta kosti jafn vel við heima og í skólanum.
Þegar svo líf mitt, barnanna, fjölskyldu og vina breyttist á einu augabragði og heimurinn eins og hann var áður hrundi, sagði hann pabbi minn: „Það sem verður að vera, viljugur skal hver bera.“ Meira að segja sagði hún mamma mín það líka. Ekki nóg með það, heldur sagði annar spekingur við mig: „Þú átt eftir að læra mikið af þessari reynslu og komast til meiri þroska.“ En mér fannst hún nú ekki þess lærdóms og þroska virði. Eigi að síður mun það rétt vera.
„Smátt og smátt lærði ég, buguð og brotin, að það eina sem við höfum vald á er hvernig við bregðumst við aðstæðum í lífinu.“
En áfram og upp, það er eina leiðin, ég vildi ekki vera leiksoppur örlaganna. Smátt og smátt lærði ég, buguð og brotin, að það eina sem við höfum vald á er hvernig við bregðumst við aðstæðum í lífinu. Ótrúlegt en satt; tíminn græðir sárin, öll él birtir upp um síðir. Ný, falleg reynsla getur komið inn í lífið og gert okkur meðvituð um að það er svo margt að þakka. „Dagurinn í dag er allt sem við eigum“ er góð klisja enn, þótt gömul sé. Rétt er einnig að „ber er hver að baki nema sér bróður eigi“, það bakland sem við höfum þegar á bjátar, vinátta og umhyggja er ómetanlegt.
Undanfarið hef ég verið að velta fyrir mér lífi formæðra minna. Stjúplangamma mín varð ekkja 1902, þá barnshafandi, þegar hún missti bæði eiginmann sinn og móður í sama sjóslysinu. Árið eftir komu hreppstjórinn og presturinn að máli við hana og báðu hana að koma sem ráðskonu til nágranna hennar en kona hans, langamma mín, var þá nýlátin frá fjórum ungum börnum. Unga ekkjan sagðist fara til bóndans ef hann kvæntist henni, ekki sem ráðskona, og það varð úr. Samtals áttu þau og ólu upp þrettán börn. Barnabarn hennar segir að hún hafi verið greind og glæsileg, yndislegasta manneskja sem hann hafi átt samleið með.
Eiginmaður annarrar langömmu minnar varð úti í kaupstaðarferð rétt fyrir jólin 1895. Yngsta barnið af fjórum var skírt í líkkistu föður síns. Vetrarmaður hjálpaði ekkjunni og áður en hann hvarf af braut áttu þau von á barni saman. Hún barðist áfram við bústörfin, harðdugleg, söngelsk og ljóðelsk. Árið 1899 giftist hún langafa mínum, fyrsta barn þeirra dó við fæðingu. En samtals eignuðust þau og ólu upp tíu börn.
Ég sé í anda aldamótakynslóðina 1900 segja við sín börn orðin sem foreldrar mínir endurtóku við mig um aldamótin 2000: „Það sem verður að vera, viljugur skal hver bera.“ Áfram og upp!
Nú er árið 2023 og fimmtíu ár liðin síðan ég var nítján. Á hverjum degi læri ég af afkomendum mínum að vera þakklátari, glaðari, víðsýnni, umburðarlyndari, kærleiksríkari. Lífið hefur kennt mér að allt speglast. Er þá ekki leiðin til fallegra samskipta sú að ástunda jákvæð samskipti með heilbrigðri festu og smá kæruleysi? Mér finnst gott að vera eftirlaunaþegi, hafa tíma til gæðastunda með börnum og öldruðum foreldrum, tíma til að vera ástfangin, hitta fólk sem mér þykir vænt um, hangsa lengi í heita pottinum, spjalla yfir kaffibolla. Eða sitja bara úti og eiga hljóða stund, barn jarðar að hlusta eftir hjartslætti móður jarðar og horfa á Esjuna sem hefur fylgt mér alla ævi, þögul, traustvekjandi, síbreytileg.
Að mörgu leyti finnst mér lífið hafa kennt mér að hver sé sinnar gæfu smiður, að ekki áföllin sjálf heldur hvernig við tökumst á við þau, með góðra manna hjálp, auðvitað, skipti höfuðmáli. Að rækta jákvætt hugarfar, því allt sem er ræktað dafnar, líka illgresið. Vegna þess að lífið, það er aðeins lag og vísa í ljósi tímans, eða dropi í hafið, sumars blíðum vængjatökum vafið, vetrarstjörnum, kossum elds og ísa.
Athugasemdir (3)