Samtök atvinnulífsins hafa frestað boðuðu verkbanni á starfsfólk Eflingar um fjóra sólarhringa. Verkbannið átti að hefjast í hádeginu á fimmtudag en mun taka gildi klukkan fjögur síðdegis á mánudag eftir viku.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá SA, sem vísar þar til þess að boðað hafi verið til fundar hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu samtakanna við Eflingu stéttarfélag. Fundurinn er boðaður til að ráðgast um framlagningu miðlunartillögu í deilunni. Í tilkynningu á vef Eflingar er talað um að SA hafi tilkynnt stéttarfélaginu ákvörðun sína rétt fyrir hádegi í dag.
Verkbannið bíður þess að fara fyrir félagsdóm síðdegis í dag. Alþýðusamband Íslands stefndi SA fyrir dóminn vegna þess að sambandið telur boðað verkbann brjóta í bága við lög. Er þar meðal annars vísað til ójafns vægis atkvæða aðildarfyrirtækja SA í atkvæðagreiðslu um verkbannið auk þess sem forsvarsmenn fyrirtækja utan starfssvæðis Eflingar, sem þar af leiðandi hafa ekki aðild að kjaradeilunni, hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunni.
Athugasemdir