Í prentútgáfu Heimildarinnar sem út kom 24. febrúar sl. er birt frétt eftir Inga Frey Vilhjálmsson sem ber yfirskriftina „Hluthafarnir taka 56 milljarða úr Símanum eftir ríkisstyrki upp á 1,5 milljarða“. Yfirskriftin er vissulega sláandi og mjög í anda þeirrar fréttamennsku sem blaðamaður þessi aðhyllist. Hið áhugaverða er að meginmál fréttarinnar fjallar síðan um að staðhæfingin í fyrirsögninni er röng. Það er þó með öllu óvíst að lesendum Heimildarinnar hafi dugað athygli til lestursins alls og því nauðsynlegt að svara þessum skrifum sem bæði eru röng og rætin.
Í fyrsta lagi gengu þeir ríkisstyrkir sem um ræðir alls ekki til Símans heldur voru þeir veittir framleiðslufyrirtækjum sem Síminn á í viðskiptum við. Þessi viðskipti ganga þannig fyrir sig að Síminn, eins og fleiri íslenskar efnisveitur, kaupir sýningarrétt að innlendu sjónvarpsefni en framleiðslufyrirtækin eiga allan höfundarrétt og sölurétt á öðrum markaðssvæðum um ókomna tíð. Alþingi hefur síðan samþykkt lög sem styðja við íslenska kvikmyndagerð, bæði með beinum styrkjum og endurgreiðslu kostnaðar, en sá stuðningur rennur alltaf til framleiðslufyrirtækjanna. Síminn hefur ekkert með það að segja að einhverjir þættir í aðfangakeðju fyrirtækisins séu styrktir af opinberu fé, hvort sem það á við um framleiðslu sjónvarpsefnis, menntun starfsfólks í dýrum háskólum, vegna lambakjötsins í mötuneytinu eða snjómoksturs í Ármúlanum.
Í öðru lagi er fyrirsögnin villandi á þann máta að þar er slegið upp greiðslu til hluthafa á einu ári og borin saman við 5 ára tímabil styrkja til framleiðslufyrirtækjanna. Í meginmáli textans kemur reyndar fram að greiðslan kemur til af algerlega ótengdu máli, þ.e. vegna sölu á Mílu. Blaðamaður stillir þessu viljandi upp á villandi máta í þeim eina tilgangi virðist vera að sverta orðspor Símans.
Í þriðja lagi er rétt að benda á að Síminn er eina stóra fjölmiðlafyrirtækið sem nýtur engra ríkisstyrkja sem ætlaðir eru einkareknum fjölmiðlum. Þessu er öfugt farið með fyrirrennara Heimildarinnar, Kjarnann og Stundina. Þessi staðreynd er því miður ekki nógu krassandi til að rata í fyrirsagnir Heimildarinnar.
Hvers vegna Ingi Freyr Vilhjálmsson og forsvarsmenn Heimildarinnar lúta svo lágt að nýta opinbert fé til að rógbera kollega sína í einkarekinni fjölmiðlun er mér hulið.
Höfundur er framkvæmdastjóri miðla Símans.
Athugasemdir (1)