Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra játaði í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær að mögulega hefðu stjórnvöld ekki verið nægilega snemma í uppbyggingarferli nýs Landspítala þegar kemur að stöku byggingum og stöku deildum.
Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, sagði í fyrirspurn sinni að innviðir geðdeildarinnar á Hringbraut þörfnuðust bráðnauðsynlegra umbóta. Húsnæðiskosturinn væri ekki aðeins óviðunandi heldur hefði sameining deilda fækkað leguplássum, bæði þar og á Kleppi.
Hún spurði ráðherrann meðal annars hvort hann hefði áform um að útvega nýtt húsnæði fyrir nýja geðdeild. „Eða gleymdist bara algjörlega að gera ráð fyrir geðheilbrigðismálum í þeirri endurskoðun sem á sér stað í heilbrigðiskerfinu og í uppbyggingu nýs Landspítala?“
Ráðherrann svaraði og sagði að það hefði staðið til bóta og að verið væri búið að efla mjög það heildarskipulag sem heldur utan um skoðun á stöðu eldri bygginga. Það væri rétt sem Lenya Rún segði að ekki væri boðlegt og ekki raunhæft ástand bygginga – hvorki á Kleppi né við Hringbraut fyrir að vera með þessa starfsemi. „Það sem ég gerði var að ég var með mjög öflugan starfshóp sem var í miklu notendasamráði um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Hluti af þeim starfshópi hélt áfram til að vinna út frá þessari skýrslu og skoða húsnæðismálin og ætlar að leggja til hvað er skynsamlegast að gera.“ Hann sagði þetta mjög brýnt og mikilvægt mál.
Athugasemdir