Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að verið sé að skoða hvernig hægt sé að tryggja réttindi leigjenda með einhvers konar útfærslu á leigbremsu. „Ég vænti þess að við fáum áfanganiðurstöður sem við getum komið með hingað inn í þing ef með þarf eins fljótt og þörf er. En við erum á vaktinni.“
Þetta sagði ráðherrann þegar hann var spurður út í aðgerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Logi Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar sagði í fyrirspurn sinni að ríkisstjórnin hefði misst alla stjórn. „Ríkisstjórnin hefur misst stjórn á verðbólgunni og á vöxtunum og var fyrir löngu búin að missa stjórn á stóru velferðarmálunum sem ráða mestu um kjör og efnahag venjulegs fólks á Íslandi. Það er þaðan sem ólgan sem við sjáum nú á vinnumarkaði sprettur, verkföll og bráðum verkbann með alvarlegum afleiðingum fyrir þúsundir heimila og samfélagið allt.“
Honum finnst að ríkisstjórnin geti ekki bent á alla aðra og skorast undan eigin ábyrgð. „Bent á Seðlabankann, bent á vinnumarkaðinn, bent á fólkið í landinu. Nei, ríkisstjórnin ber sjálf ábyrgð á að stjórna þessu landi og reka samfélag okkar svo vel sé.“
Hefur aldeilis ekki skort á loforðaflauminn
Logi sagði að svo vildi til að Framsóknarflokkurinn hefði farið með stjórn húsnæðismála í áratug og að staðan væri ekki beinlínis glæsileg. „En það hefur aldeilis ekki skort á loforðaflauminn frá hæstvirtum innviðaráðherra og félögum hans í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur um bót og betrun í húsnæðismálum. Nú síðast í þessari viku hafa tveir hæstvirtir ráðherrar ríkisstjórnarinnar gefið í skyn að leigubremsa komi til greina.
Við í Samfylkingunni höfum kallað eftir tímabundinni leigubremsu frá því í haust að danskri fyrirmynd. Við höfum kallað eftir þessu mánuðum saman og verið algjörlega samstiga Alþýðusambandi Íslands. Leigubremsa til eins árs væri mjög mikilvægt innlegg í kjaramál á þessum tímapunkti og ég spyr því hæstvirtan innviðaráðherra hvort hann muni hafa forgöngu um slíka lagasetningu um tímabundna leigubremsu, til dæmis að danskri fyrirmynd, eins og við í Samfylkingunni höfum margítrekað lagt til hér.“
Verðbólgan há og illvíg
Sigurður Ingi svaraði og sagði að ekki stæði á ríkisstjórninni að axla sína ábyrgð. „Meðal annars getum við bara bent á það að í gegnum COVID-faraldurinn, það er nú að koma út úttekt á því, þá kemur í ljós að okkur tókst það sem er mjög mikilvægt, að verja mest lægstu tekjuhópana – langmest. Við fórum á síðastliðnu ári í það, vegna þess að verðbólgan var vaxandi, að hækka húsnæðisbætur um tæp 24 prósent; fyrst um 10 prósent í júní og svo aftur um 13,8 prósent, ef ég man rétt, um áramótin og breikkuðum þann hóp sem nýtur þeirra bóta. Við fórum í að hækka vaxtabætur og viðmiðin þar þannig að þau nýtast bæði fleirum og meir þeim sem þann stuðning þurfa að fá.“
Hann sagðist hins vegar vera sammála Loga um að erfitt ástand væri hér á markaðnum. „Verðbólgan er há og illvíg og ég held að það sé engum blöðum um það að fletta að við þurfum öll að takast á við hana. Ég er ekki að kenna neinum um að það sé verðbólga. Það er stríð í Evrópu eins og við vorum að ræða hérna áðan, það geisar verðbólga um allan heim og óvissutímar. Væntingarnar á Íslandi um verðbólgu inn í framtíðina eru allt of háar. Eina leiðin til að snúa því við er að við tökum öll höndum saman, aðilar vinnumarkaðarins, ríkisstjórnin að sjálfsögðu, sem getur haft forgöngu um slíkt, Seðlabankinn og almenningur allur, ekki síst fyrirtækin í landinu sem ráða oft verði á vöru og þjónustu.
Við erum síðan með hópa að störfum, meðal annars um réttindi leigjenda þar sem meðal annars er til skoðunar hvernig við getum tryggt enn frekar þeirra réttindi með einhvers konar útfærslu á því sem háttvirtur þingmaður kallaði leigbremsu eða slíkt. Það er þar til skoðunar. Ég vænti þess að við fáum áfanganiðurstöður sem við getum komið með hingað inn í þing ef með þarf eins fljótt og þörf er. En við erum á vaktinni,“ sagði ráðherrann.
Við blasir neyðarástand eftir nokkra daga
Logi steig aftur í pontu og sagði að ekki væri nóg að vera á vaktinni, það þyrfti að gera eitthvað á vaktinni.
„Það er náttúrlega óboðlegt þegar blasir við alvarlegt ástand vegna verkfalla og hryllilegt ástand fyrir launafólk vegna verkbanna að vera að vísa í einhverja nefnd. Í staðinn fyrir að tala um hvað eigi að gera núna á næstu dögum og næstu klukkutímum er farið í einhverja sagnfræði. Ég bið hæstvirtan innviðaráðherra afsökunar á því þegar ég sagði að það væri ekki nóg að skella skuldinni á Seðlabankann, almenning í landinu og launþegahreyfinguna en gleymdi því sem hann kom svo inn á áðan, að hann kenndi stríðinu í Úkraínu um,“ sagði hann.
Hann telur þetta ekki boðlegt. „Það blasir við neyðarástand eftir nokkra daga. Og ég vil fá að heyra: Ætlar ríkisstjórnin að grípa til aðgerða sem geta losað um þann alvarlega hnút sem er á vinnumarkaðnum eða ætlar hún áfram að koma hingað upp og vísa í einhverjar nefndir sem hafa enga tímafresti?“ spurði hann.
Vill læra af öðrum Evrópuþjóðum
Sigurður Ingi svaraði í annað sinn og sagði að hann heyrði að Logi deildi ekki þeirri skoðun að þetta væri verkefni sem allir og reyndar allir í Evrópu og hinum vestræna heimi væru að glíma við og þyrfti að takast á við það sem slíkt.
„Þegar ég vísaði til þess að við værum á vaktinni þá var ég að vísa til þess. Það voru ekki söguskýringar, ég var bara að rifja það upp fyrir háttvirtum þingmanni að við höfum akkúrat verið að taka tillit til þeirra hópa sem hafa það erfiðast. Við gerðum það á síðasta ári og við ætlum að gera það áfram og núna í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Það var hluti af samkomulagi sem ríkisstjórnin gerði við gerð kjarasamninga fyrr í vetur að koma á laggirnar þeim hópum með þeim aðilum sem leggja áherslu á að við göngum hratt og örugglega til verks.
Það er verið að vinna þannig. Ég held að háttvirtur þingmaður hafi fullan skilning á því, að hann vilji að það sé ekki gert án þess að hlutirnir séu skoðaðir. Það er meðal annars verið að skoða fyrirmyndir frá öðrum Evrópuþjóðum þar sem hlutirnir hafa gengið að mörgu leyti betur á þessu sviði. Við ætlum að læra af þeim og ég er sannfærður um að við munum geta það. Leiðin til að takast á við verðbólguna er að við komum öll að því borði og hættum að kenna hvert öðru um,“ sagði ráðherrann að lokum.
Athugasemdir (1)