Greiningardeild ríkislögreglustjóra hafði samband við Aðalstein Leifsson ríkissáttasemjara fyrir skömmu og upplýstu hann um að talið væri líklegt að ógn steðjaði að öryggi hans. Þetta staðfestir Aðalsteinn í samtali við Heimildina en lagði áherslu á að ekki hafi verið um að ræða upplýsingar um beina hótun gegn honum eða fjölskyldu hans og ekki væri því ástæða fyrir hann að óttast um öryggi sitt eða heimilisfólks síns.
„Greiningardeildin hafði samband við mig og þar var rætt um að ég hugaði að öryggiskerfi á heimili mínu. Ég vil að það komi skýrt fram að ekki var um að ræða viðbragð eða upplýsingar um beina hótun í minn garð eða fjölskyldu minnar. Ég hef ekki ástæðu til að efast um öryggi heimilisins eftir þetta samtal en geri hins vegar eðlilegar ráðstafanir í samræmi við þær leiðbeiningar sem ég fékk,“ sagði Aðalsteinn í samtali við Heimildina.
Áður hafði verið greint frá því að búið væri að ráða öryggisvörð til starfa á skrifstofum Ríkissáttasemjara. Það mun hafa verið gert eftir að starfsmenn embættisins urðu fyrir áreiti.
Ekki að ásaka einn eða neinn
Aðalsteinn segist leggja áherslu á að hann sé ekki að ásaka einn eða neinn þeirra sem deiluaðila sem nú takast á í kjaraviðræðum um að eiga aðild eða bera ábyrgð á því að nú skuli hafa verið hert á öryggisráðstöfunum, hjá embættinu og honum persónulega. Harkan í deilunni og orðræðan á samfélagsmiðlum og víðar, hefur þó ekki farið framhjá honum.
„Jú ég hef auðvitað orðið var mjög harða orðræðu sem hefur auðvitað verið óþægileg fyrir mig en ekki síður mína nánustu. Ég held hins vegar að nú sé verkefnið að landa þessum deilum. Það er mitt hlutverk. Hins vegar velti ég því upp hvort við ættum kannski mögulega að setjast aðeins yfir það, þegar þessu verkefni lýkur, að skoða hvort og hvernig umræða þróaðist í tengslum við þessara kjaraviðræður og hvort það sé eitthvað sem við kærum okkur um að verði vaninn.“
Greiningardeildin vill ekki tjá sig
Í samtali við Heimildina sagði Runólfur Þórhallsson, yfirmaður greiningardeildar, aðspurður um til hvaða aðgerða embætti ríkislögreglustjóra hefði gripið vegna mats deildarinnar á öryggisógn í garð Aðalsteins að hann vildi ekki tjá sig um málið yfir höfuð. „Við höfum ekki hingað til tjáð okkur um öryggisráðstafanir gagnvart einstaklingum, og munum ekki gera það á næstunni.“ Þegar Runólfur var spurður enn frekar um hvers eðlis sú ógn sem talin væri steðja að Aðalsteini væri gaf hann sama svar, að embættið myndi ekki tjá sig frekar um málið.
Morgunblaðið greindi frá því 2. febrúar síðastliðinn að það hefði heimildir fyrir því að öryggisgæsla í húsnæði ríkissáttasemjara hefði verið aukin, og hefði það, eftir því sem næst yrði komist, verið gert eftir að hatursfull ummæli og jafnvel ógnandi hefðu farið að birtast á samfélagsmiðlum. Spurður hvort embætti ríkislögreglustjóra hefði komið að málum við þá auknu öryggisgæslu svaraði Runólfur: „Svarið sem Morgunblaðið fékk frá okkur var að lögregla hefði ekki komið að neinni útfærslu á öryggisráðstöfunum í starfsstöðvum ríkissáttasemjara.“
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar er ástæða þess að öryggisgæsla var aukin í húsnæði ríkissáttasemjara upplýsingar þær sem greiningardeildin kynnti Aðalsteini um mögulega ógn við öryggi hans. Embætti ríkislögreglustjóra kemur hins vegar ekki að þeirri auknu gæslu.
Ríkissáttasemjari hefur sætt mikilli gagnrýni, einkum af hálfu Eflingarfélaga, eftir að hann lagði fram miðlunartillögu í kjaradeilu stéttarfélagsins og Samtaka atvinnulífsins. Hefur sú gagnrýni bæði komið fram af hálfu forsvarsmanna Eflingar en einnig af hálfu almennra félaga, og þá á samfélagsmiðlum. Efling hefur þannig farið formlega fram á að Aðalsteinn víki sæti í deilunni. Telur stéttarfélagið að ríkissáttasemjari hafi brotið gegn samráðsskyldu og stjórnsýsluframkvæmd með framlagningu miðlunartillögunnar, að hann dragi taum Samtaka atvinnulífsins í deilunni, að samskipti hans við, og tilmæli til, Eflingar hafi verið misvísandi og að málshöfðun embættisins á hendur Eflingu sé fordæmalaus og framganga hans harkaleg.
Það var skotið á bíl borgarstjóra en greiningardeildin svaf enn betur
Það var talað illa um sáttasemjara og greiningardeildin vaknaði upp með andfælum.