Stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi hafa reynst veikburða og brotakennd og vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar á síðustu árum.
Þetta er á meðal helstu niðurstaða skýrslu ríkisendurskoðanda um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit. Þar kemur einnig fram að breytingum á lögum um fiskeldi sem var ætlað að stuðla að vexti og viðgangi greinarinnar í sátt við bæði samfélag og umhverfi var ekki fylgt eftir með því að styrkja stjórnsýslu og eftirlit þeirra stofnana sem mæðir mest á.
Ríkisendurskoðandi telur þær breytingar sem gerðar voru á lögum um fiskeldi árin 2014 og 2019 hafi að takmörkuðu leyti náð markmiðum sínum. „Hvorki hefur skapast aukin sátt um greinina né hafa eldissvæði eða heimildir til að nýta þann lífmassa sem talið er óhætt að ala á tilteknum hafsvæðum verið úthlutað með útboði af hálfu matvælaráðherra,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar. Við úttekt Ríkisendurskoðunar kom raunar í ljós að hvorki hagsmunaaðilar, viðkomandi ráðuneyti né þær stofnanir sem koma að stjórnsýslu sjókvíaeldis eru fyllilega sátt við stöðu mála og þann ramma sem stjórnsýslu og skipulagi sjókvíaeldis hefur verið markaður.
Samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum sem vinna gegn því að auðlindin skili hámarks ávinningi fyrir ríkissjóð hefur fest sig í sessi án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda. Verðmætum í formi eldissvæða og lífmassa hefur verið úthlutað til lengri tíma án endurgjalds og dæmi eru um að uppbygging sjókvíaeldis skarist á við aðra mikilvæga nýtingu strandsvæða, svo sem siglingaleiðir, helgunarsvæði fjarskipta- og raforkustrengja og við hvíta ljósgeira siglingavita.
Tæpt ár er síðan matvælaráðuneytið óskaði eftir að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á stjórnsýslu fiskeldis. Ráðuneytið hafði unnið að sjálfstæðri greiningu á regluverki fiskeldis en taldi mikilvægt að stjórnsýsla þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og undirstofnana þess, Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar, yrði skoðuð sérstaklega.
Nefndarmenn í áfalli eftir kynningu skýrslunnar
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi kynnti niðurstöður skýrslunnar á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar og þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við Vísi eftir fund nefndarinnar að hún væri í áfalli eftir kynningu ríkisendurskoðanda.
Ríkisendurskoðandi leggur fram 23 ábendingar um úrbætur. Þær snúa meðal annars að ákvörðun og útboði eldissvæða, burðarþolsmati þar sem skýra þarf framkvæmd, endurskoðun leyfisveitinga sjókvíaeldis, aukið samstarf stofnana í aðdraganda leyfisveitingar, samræmi við endurskiðun og breytingar á rekstrar- og starfsleyfum, mótvægisaðgerðir og vöktun vegna stroks og að tryggja verði markvissa beitingu þvingunarúrræða, sekta og niðurfellingu rekstrarleyfa.
Eftirlit Matvælastofnunar verði eflt
Ríkisendurskoðandi fer einnig fram á að eftirlit Matvælastofnunar verði eflt. „Tryggja verður að skipulag eftirlitsins og geta stofnunarinnar haldi í við vöxt og þróun greinarinnar,“ segir í ábendingu ríkisendurskoðanda sem segir takmarkað svigrúm sérgreinadýralæknis fisksjúkdóma til að sinna eftirlitsskyldum vera sérstakt áhyggjuefni í því sambandi. „Auk þess þarf að gera stofnuninni kleift að sinna óundirbúnu eftirliti og leggja áherslu á eftirlit með skráningum, upplýsingagjöf og innra eftirliti fyrirtækjanna.“
Þá hvetur Ríkisendurskoðun jafnframt matvælaráðuneyti til að skoða fýsileika þess að auka eftirlitsheimildir Matvælastofnunar hvað snýr að eftirliti með þjónustuaðilum sjókvíaeldis.
Athugasemdir (2)