Tap Icelandair Group á síðasta ári nam 5,8 milljónum bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 826 milljóna króna sé miðað við gengi dollara gagnvart krónu á síðasta degi nýliðins árs (USD = 142,5 kr.).
Afkoma félagsins var mun betri en árið 2021, er félagið tapaði 105 milljónum dala, jafnvirði 13,7 milljarða króna á árslokagengi þess árs. Rekstrarafkoma félagsins fyrir fjármagnsliði og skattgreiðslur (EBIT) var jákvæð um 2,6 milljarða króna á síðasta ári.
Flugfélagið birti uppgjör sitt síðdegis í gær og lýsir árinu 2022 sem ári viðsnúnings, en kórónuveirufaraldurinn lék félagið eins og önnur flugfélög grátt. Rekstur Icelandair hafði þó einnig verið þungur fyrir faraldurinn og flugfélagið hafði tapað fé á hverju ári síðan 2018. Uppsafnað tap félagsins síðan þá nemur samtals um 80 milljörðum króna, miðað við árslokagengi hvers árs, og þar af nam tapið rúmum 50 milljörðum árið 2020.
Uppgjör Icelandair virðist hafa farið ágætlega í fjárfesta, en á öðrum tímanum í dag hafði gengi hlutabréfa í félaginu hækkað um rúm 3,3 prósent innan dagsins í um 2 milljarða króna viðskiptum.
„Við höfum náð vopnum okkar“
Á síðasta ári flutti Icelandair 3,6 milljónir farþega, 2,2 milljónum fleiri en árið 2021, og horfa stjórnendur félagsins björtum augum á árið 2023, en flugáætlun félagsins hefur aldrei verið jafn umfangsmikil með flugframboð til 54 áfangastaða.
„Sterk tekjumyndum með met farþegatekjum á seinni hluta ársins og stórbætt EBIT hlutfall sýnir að viðskiptalíkan félagsins hefur enn og aftur sannað gildi sitt. Við höfum náð vopnum okkar og höldum ótrauð áfram, sterkari en nokkru sinni fyrr, með stærstu flugáætlun í sögu félagsins á þessu ári þegar kemur að tíðni og fjölda áfangastaða,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra félagsins í tilkynningu.
Gengur á gjafabréfastaflann
Í uppgjöri Icelandair kemur fram að við áramót hafi félagið verið búið að selja flugmiða í ferðir sem ekki enn höfðu verið farnar fyrir alls 212,3 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 30 milljarða íslenskra króna.
Kórónuveirufaraldurinn hafði í för með sér umfangsmikla útgáfu inneigna af hálfu flugfélagsins, en sá stafli hefur rúmlega helmingast frá árslokum 2021. Á þeim tímapunkti áttu viðskiptavinir Icelandair alls 83,7 milljónir dala í inneignum hjá félaginu án þess að vera búnir að bóka sér flug, en við árslok 2022 var upphæðin komin niður í 41,1 milljón dala, jafnvirði 5,8 milljarða króna.
Eigið fé Icelandair Group í lok árs nam 273,4 milljónum dollara, eða 33,8 milljörðum króna.
Meta tjón af lokun Reykjanesbrautar á milljarð
Fram kemur í yfirlýsingu Boga Nils forstjóra, sem fylgdi uppgjörstilkynningu félagsins, að Icelandair meti tjón sitt af skítviðrinu sem gekk yfir í desembermánuði og leiddi m.a. til lokunar Reykjanesbrautar, á sama tíma og Keflavíkurflugvöllur var opinn, á um einn milljarð króna.
Bogi Nils segir að tjónið megi að langmestu leyti rekja til lokunar akvegarins og segir í því ljósi „ánægjulegt og mikilvægt að innviðaráðherra hafi sett af stað vinnu til að tryggja að slíkt ástand muni ekki skapast aftur við sambærilegar veðuraðstæður“.
Forstjórinn segir ljóst að rekstrarumhverfi flugfélagsins verði „áfram krefjandi með verðbólguþrýstingi og hækkun launakostnaðar“ en að stjórnendur félagsins séu „sannfærð um að eftirspurn verði áfram mikil eftir ferðalögum og að mikil tækifæri séu fyrir Ísland sem áfangastað“ eins og þegar sjáist merki í „sterku bókunarflæði“ næstu misserin.
Athugasemdir