Núvitund er víst fyrir öllu. Það er að koma sér fyrir í bomullarhnoðra augnabliksins og láta það sem á undan er gengið hafa sem minnst áhrif og ekki að pæla um of, helst ekki neitt, í því sem koma skal.
Því verður að halda til haga að handbolti er einstaklega hentug íþrótt fyrir íslenskar aðstæður. Fyrir það fyrsta er völlurinn ekki mjög stór, hann er innandyra sem er gott. Þá er lítið mál að stunda þennan leik þrátt fyrir veður. Svo fremi að þátttakendur og áhorfendur komist á staðinn þó.
Talandi um völlinn nú er loksins kominn skriður á að láta verða að byggingu hallar sem á að hýsa handboltaleiki og fleiri íþróttir auk fleiri viðburða. Kannski verður höllin nógu stór til að rúma JÚRÓVÍSÍÓN! Grín! Við erum ekki að fara að vinna þá keppni.
Þetta er hið besta mál þar sem Laugardalshöllin er löngu orðin of lítil og stenst ekki þær kröfur sem gerðar eru núna um aðbúnað íþróttafólks, stuðningsfólks, fjölmiðlafólks og annars fólks sem leggur leið sína í höllina. Þessu á að kippa í liðinn hinn snarasta en það er tvennt þó... það fyrra er spurningin stóra um hver á að borga hvað og svo er víst fyrirliggjandi kostnaðaráætlun fyrir bygginguna ekki alveg skotheld.
En það sem er einna skondnast er hvað mikill meirihluti landsmanna gerir sér alltaf of miklar væntingar um gengi liðsins. En það kemur alltaf annað mót eftir það síðasta.
Blús um miðjan vetur
Miðsvetrarblúsinn leikur okkur sem hér búum grátt. Sannkallað veðravíti hefur ríkt á landinu síðan 15. desember á síðasta ári og þó að tíðin sé í bili ekki lengur eins slæm og hún var eru vegir enn lokaðir, flugsamgöngur í lamasessi og happafleyið Baldur frestar ferðum. Það er hugsanlega hið besta mál þar sem umrædd ferja er líklegast ekki í standi til að takast á við mikið öldurót og vind. Já, best að binda hann Baldur vel við bryggjupolla og hugsanlega fjárfesta í annarri ferju og nýrri.
Undanfarnar vikur hafa líka verið mjög kaldar, óvenju kaldar. Þessi vetur verður hugsanlega kallaður frostaveturinn mikli, hinn síðari. Menn kýttu mikið og hressilega vegna þess að snjónum sem kyngdi niður var ekki rutt nógu hratt af umferðaræðunum þegar við upphaf leiðindatíðarinnar aðfaranótt 16. desember. Flugsamgöngur og bara alveg allar aðrar samgöngur fóru úr skorðum. Margt miður gott kom á daginn en einna helst það að sveitarfélög, borgin og ríkið voru ekki alveg tilbúin í svona hark.
Ekki voru nógu mörg tæki til reiðu, þegar að var gáð og málið skoðað og sum þeirra tækja sem þó voru til hentuðu víst afleitlega til að ryðja hringtorgin sem eru á hverju horni. Eða þið skiljið.
Ég verð að segja að ég kann einstaklega vel við hringtorg. Það er frábært að geta snúið við á næsta hringtorgi ef eitthvað gleymist heima. Ef ekið er aðeins of langt og ekki farin rétt leið er alltaf hringtorg innan seilingar til að komast til baka og setja réttan kúrs. En það er ekkert grín að reyna að komast um þau þegar ófær eru og engin tæki til að ryðja þau. Þá mega þau fara til fjandans fyrir mér.
Nú er úti veður vont
Veður er ekki sér íslenskt fyrirbrigði þó að stundum mætti halda það. Hversu mörgum sjálfdauðum samskiptum hefur verið bjargað með því að ræða veðrið. Það gerist í ófá skipti og við grípum öll til þess að ræða veður þegar önnur umræðuefni þrýtur.
Um jólin fengu íbúar í hluta Bandaríkjanna og Kanada heldur betur að kenna í því. Frosthörkur, fannfergi og vindur dembdist yfir og ofan úr háloftunum eins og hendi væri veifað. Fjöldi fólks varð strandglópar og komst ekkert vegna slæmrar færðar.
Mikið var um rafmagnsleysi sem gerði það að verkum að ekki var hægt að hita híbýli fólks. Fjöldahjálparstöðvum var komið upp sem bjargaði mörgum en aðrir komust hvorki lönd né strönd vegna ófærðar. Talið er að að minnsta kosti 18 hafi látist vegna þessa veðravítis.
Örugglega hefur verið skeggrætt í kjölfar þessara hamfara hvort viðbragðsáætlanir hafi haldið eða brugðist þar vestra. Hér heima sögðu ráðherrar, borgarstjóri, verðandi borgarstjóri og fleiri allt sem segja þurfti um ástandið. Þetta var jú einhverju að kenna og aðallega veðrinu þó skilst mér.
Það er alltaf gott að geta kennt veðrinu um sér í lagi hér á Íslandi. En það gerir svosem ekkert til þegar hægt er að skella sér í sólina á Tenerife í tvær vikur eða svo. Fá sól í kroppinn, sulla í sundlaugum, dusta gulan sandinn af handklæðunum og fá sér fyrsta bjórinn rétt um hádegi. Áfengið úr honum gufar upp vegna hitans hvort sem er.. eða er það ekki?
Á meðan sólin skín á réttláta jafnt sem rangláta á sólarströndum er margt að gerast í hinum stóra heimi og reyndar í þessum míkrókosmos sem Ísland er. Sáttasemjari ríkisins gafst upp við að ná sáttum í kjaradeilu verkalýðsfélagsins Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Hann gerði Eflingu að hvetja félags fólk sitt til að kjósa um og svo einfaldlega að skrifa undir samninginn sem hin verkalýðsfélögin samþykktu fyrir nokkrum vikum.
Enn er ekki útséð um hvernig þessari deilu lyktar en tvennt er víst. Það fyrra er að harkan í deilunni er mikil. Annað er að þau sem standa í ströngu við að leiða stéttarfélagið Eflingu annarsvegar og hinsvegar Samtök atvinnulífsins eru í eldlínunni. Reynt er á báða bóga að koma höggum á þau og þeirra persónur. Stundum gleymist aðalatriðið sem er að réttur verkalýðsfélaga til að boða til verkfalla að því gefnu að það sé með samþykki félagsfólks þeirra og öðrum reglum sé fylgt. Þetta eru réttindi sem lengi var barist var fyrir og eru alls ekki sjálf gefin.
Út af stendur að félagsfólk Eflingar eru þau lægstlaunuðust á vinnumarkaði hér á landi. Það sem þau fá greitt nægir ekki til framfærslu í Reykjavík og því án efa ekki auðvelt að láta enda ná saman hjá því fólki sem lægst hefur launin annars staðar á landinu.
En kannski er þeim sem hafa þó þokkaleg laun slétt sama um hvort það fólk fái mannsæmandi laun, sem sinnir verkunum sem enginn verður var við að eru unnin, oft og tíðum.
Römm er sú taug... eða hvað?
Skammt er síðan nýjar tölur um búsetu Íslendinga voru birtar en þar kemur fram að ríflega 49.000 búa annarsstaðar en hér heima. Flest brottfluttra búa í Danmörku, þá í Noregi og svo Svíþjóð eða um 30.000 samtals. Í Bandaríkjunum búa um 6.500 og slangur í öðrum ríkjum. Löndum okkar búsettum erlendishefur, samkvæmt úttekt RÚV, fjölgað um rúmlega 5.000 á síðastliðnu ári.
Það er fróðlegt að geta þess hér að innflytjendur á Íslandi voru þann 1. júlí 2020 50.700 eða 14,0% mannfjöldans. Sem er sjónarmun fleira fólk en Íslendingar sem búa í útlöndum. Alveg má velta því fyrir sér hvort þetta sé ekki hið besta mál.
Ég meina að það sé hreint ljómandi að við sem þjóð sækjum reynslu og þekkingu annað og þau sem hingað koma til að búa með okkur miðli af sinni reynslu og menningu. Mig minnir að ég hafi séð í orðabók fyrir margt löngu að þau séu talin heimsk sem ekkert þekkja annað en sitt nánasta umhverfi.
Hvorki er gott né eftirsóknarvert að vera heimskur, en ég þori ekki að fullyrða hvort dvöl á Tene fylli á þann reynslu- og þekkingarbrunn sem þarf til að sporna við heimsku. En að því er ég best veit er það hið besta mál að búa með Baunum, suppa með Svíum og tjallinn er skemmtilega tjúll eins og sagði í Ástríki hér um árið.
Þekkingarleitandi Íslendingar, eða það sem sumir vilja kalla landflótta, eru semsagt alls um 13,2% af mannfjöldanum og er að finna í um það bil 100 af 193 ríkjum heims.
Ofsafengin löggæsla
Enn einu sinni hefur komið upp mál vegna ofbeldis lögreglumanna í Bandaríkjunum. Svörtum manni var misþyrmt svo illa í atlögu lögreglumanna í Memphisborg, að hann dó þremur dögum á sjúkrahúsi.
Stjórnmálaleiðtogar hlaupa upp til handa og fóta og fordæma þessar aðfarir lögreglumannanna. Óttinn er sá að upp úr sjóði enn og aftur og óeirðir munu blossa upp. Enn er ekki vitað fyrir víst hvað Tyre Nichols á að hafa sér til saka unnið en eitt er víst að hann átti alls ekki að fá þá meðhöndlun sem hann fékk.
Lögreglumennirnir fimm voru allir reknir á stundinni, hafa allir verið ákærðir og yfirvöld birtu upptökur af atburðinum frá ýmsum sjónarhornum. Öðrum lögreglumönnum, tengdum handtökunni var sagt upp, og ekki sér enn fyrir endann á því. Slökkvilið borgarinnar lét bráðaliða og ökumann sjúkrabíls taka pokann sinn því sýnt þótti að þeir sinntu helsærðum manninum ekki af þeirri kostgæfni sem þeim ber.
Mikil reiði og sorg ríkir þar vestra og til að setja málið í samhengi við við atburði má benda á að voru rafbyssum var beitt gegn Tyre Nichols. Fyrir mig var skelfilegt að sjá aðferðirnar og ég hlakka ekki til að heyra frásagnir og fréttir eftir Reykjavíkurnætur þegar þessum vopnum verður beitt gegn almennum borgurum, í boði dómsmálaráðherra.
Og nú út í geim
Gennadiy Borisov, áhugamaður um stjörnufræði uppgötvaði fyrir örskömmu loftstein á fleygiferð um himinhvolfið. Borisov gerir sínar rannsóknir í Nauchnyi á Krímskaga. Skaganum sem Rússar tókur herskildi frá Úkraínu árið 2014. Það er átta árum áður en þeir réðust inn í Úkraínu.
Loftsteinninn sem telst á stærð við litla rútu, flaug yfir suður odda Suður-Ameríku í um 3.600 KM hæð þegar hann var næstur jörðu þann 27. janúar um klukkan 00:30GMT. Þetta hljómaði allt mjög vísindalega.
Borisov stundar sínar rannsóknir í Nauchnyi á Krímskaga. Skaganum sem Rússar tókur herskildi frá Úkraínu árið 2014. Það er átta árum áður en þeir réðust inn í Úkraínu.
Vísindamönnum þykir steinninn hafa verið óþægilega nálægt jörðu enda eru sum gervitungl á fjarlægari sporbaug en það. En hér sannast hið fornkveðna, að allt er gott sem endar vel, loftsteinninn þaut semsagt framhjá án þess að skaða okkur nokkuð. Við skulum öll hvetja Gennadiy vin okkar Borisov til dáða svo hann geti látið okkur vita með lengri fyrirvara næst þegar að hamfarahnullungur utan úr geymi stefni til Jarðarinnar.
Við sluppum með skrekkinn en samsæriskenningasmiðir heimsins eru örugglega í óða önn að klambra saman hressilegri kenningu um alheimssamsæri hvað varðar lofsteininn. Hugsanlega horfði Gennadiy upp á réttum tíma.
Fjöldamargar kvikmyndir koma upp í hugann svona rétt eftir að við öll sem búum hér á Jörðinni sleppum með skrekkinn. Við sem hversdags berumst á banaspjótum, rænum hvert annað við hvert tækifæri og gefum engin grið þegar okkur finnst við þurfa að verja hagsmuni okkar. Hugsanlega er ég draumóramaður en ég verð alltaf undrandi þegar atburðir sem þessir gerast. Ætti svona lagað ekki að efla samkennd jarðarbúa og kærleika þeirra á milli? Mér finnst að það ætti að vera en er bara því miður ekki.
En hvað um það, nú er ég búinn að ákveða hvað gera skal við tíuþúsundkallinn sem er í rassvasanum. Nei, ekki ætla ég að borga skuldir.
Athugasemdir