Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, mun hætta sem dagskrárstjóri Rásar eitt 1. mars. Þetta tilkynnti hann á morgunfundi með starfsmönnum rásarinnar í morgun. Mun Þröstur starfa á Rás 1 út mánuðinn en Þórunn Elísabet Bogadóttir mun taka við hans helstu verkefnum.
Þröstur var ráðinn dagskrárstjóri Rásar 1 í apríl árið 2014 og hefur gustað nokkuð um hann í störfum. Í desember 2018 greindi Vísir frá því að vinnustaðasálfræðingur hafi verið kallaður til að fara yfir samskipti starfsmanna á Rás 1. Ástæðan mun hafa verið óánægja sem birtist í vinnustaðakönnun RÚV meðal starfsmanna Rásar 1. Var haft eftir ónefndum starfsmönnum rásarinnar í frétt Vísis að vandinn sneri aðeins að einum manni, Þresti.
Árlegt mat starfsmanna RÚV á frammistöðu stjórnenda var lagt fyrir í lok síðasta árs og hefur það verið til kynningar innan deilda fyrirtækisins að undanförnu. Ekki var þó búið að kynna starfsmönnum Rásar 1 matið í gær. Þegar Þröstur tilkynnti að hann myndi láta af störfum sagðist hann lengi hafa verið að velta fyrir sér að hætta.
Hvorki náðist í Þröst né í Stefán Eiríksson útvarpsstjóra við vinnslu fréttarinnar.
Uppfært 13:46: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var sagt að Þröstur hefði lýst því að niðurstöður starfsmats hefðu vegið inn í ákvörðun hans um að hætta. Þetta mun ekki vera rétt og er því leiðrétt.
Athugasemdir (3)