Stjórn Kviku banka hefur í dag óskað eftir því við stjórn Íslandsbanka að hefja samrunaviðræður milli félaganna. Stjórn Kviku væntir þess að fá afstöðu frá stjórn Íslandsbanka á næstu dögum.
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands segir að stjórn fyrrnefnda bankans telji að samruni félaganna skapi fjárhagslega sterkt fjármálafyrirtæki með dreifðan tekjugrunn. „Í sameinuðu félagi væri mögulegt að veita viðskiptavinum aukna þjónustu og leiða til meiri samkeppni á fjármálamarkaði, meðal annars með fjártæknilausnum, auk þess sem sameinað félag yrði áhugaverður fjárfestingakostur.“
Þar segir ennfremur að ekki þyki ástæða að ákveða á þessari stundu hvor bankanna yrði yfirtökufélagið eða hvort og að hvaða marki dótturfélög bankanna myndu sameinast en það færi eftir heildarmati á viðskiptalegum, skattalegum og samkeppnislegum sjónarmiðum sem myndi eiga sér stað ef formlegar viðræður hefjast.
Báðir bankarnir eru skráðir á hlutabréfamarkað, en Íslandsbanki er miklu stærri en Kvika banki. Markaðsvirði hans er 234 milljarðar króna á meðan að markaðsvirði Kviku banka er um 89 milljarðar króna. Íslenska ríkið er langstærsti eigandi Íslandsbanka með 42,5 prósent eignarhlut. Gert er ráð fyrir því í fjárlögum að sá hlutur verði seldur í ár en það verður þó ekki endanlega ákveðið fyrr en niðurstaða í rannsókn Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á síðasta söluferli í bankanum liggur fyrir.
Rannsókn á þátttöku starfsmanna í útboði
Rannsókn fjármálaeftirlitsins snýr að meintum lögbrotum Íslandsbanka, og fyrst og fremst um þátttöku starfsmanna bankans og tengdra aðila í útboði á bréfum í Íslandsbanka. Um lokað útboð var að ræða og einungis svokallaðir þeir sem skilgreindir voru sem fagfjárfestar áttu að fá að taka þátt. Alls urðu kaupendur á endanum 207 talsins. Ekki er talið að aðrir söluráðgjafar en Íslandsbanki hafi gerst brotlegir við lög og reglur.
Bankinn fékk frummat fjármálaeftirlitsins í málinu afhent fyrir áramót. Þann 9. janúar sendi Íslandsbanki tilkynningu til Kauphallar Íslands um að hann hefði óskað einhliða eftir viðræðum við eftirlitið um að ljúka málinu með sátt.
Af þeim 207 voru átta starfsmenn Íslandsbanka, sem var söluráðgjafi í ferlinu, eða makar þeirra. Bankinn hélt því fram í fjölmiðlum í apríl í fyrra að allir starfsmennirnir væru skilgreindir sem fagfjárfestar, sem var forsenda fyrir því að fá að kaupa. Við rannsókn fjármálaeftirlitsins hefur komið fram að Íslandsbanki hafi sjálfur skilgreint að minnsta kosti hluta þessara starfsmanna sem fagfjárfesta. Hann hefur þó ekki viljað svara því hversu margir fjárfestar fengu flokkun sem fagfjárfestar á þeim klukkutímum sem söluferlið stóð yfir.
Heimildin greindi frá því í lok síðustu viku að samkvæmt upplýsingum hennar sé það ekki möguleg fjársekt, eða upphæð hennar, sem Íslandsbanki hræðist mest í málinu heldur að fjármálaeftirlitið muni birta ítarlega skýrslu eða greinargerð með rannsóknarniðurstöðum sínum.
Athugasemdir