Ef hlustað er á þau orð sem blærinn ber með sér má finna nokkurn stuðning við Pútín og hernað hans í Úkraínu, eða að minnsta kosti velvild í garð hans. Með einni undantekningu, sem vikið verður að síðar, fer hann þó ekki hátt, hann birtist í hálfkveðnum vísum, eða ummælum stjórnmálamanna sem vilja ekki láta nafns síns getið. Menn vitna til dæmis í forna vináttu Frakka og Rússa gegnum tíðina, sem ekki megi „spilla“; að sumra áliti kemur aðild Frakka að Nató í veg fyrir að þeir geti haldið uppi „sjálfstæðri stefnu“ í utanríkismálum; fáeinir segja jafnvel að vegna Natós kunni þeir að flækjast inn í „styrjaldir sem komi þeim ekki við“, og til eru þeir, yst á hægri væng stjórnmálanna, sem vilja að Frakkar gangi úr Nató hið snarasta.
Einn sagði í blaðagrein að þar sem styrjöldin væri í æ meira máli að verða að „stríði milli Rússa og Natós“, væri hann hættur að fylgja Úkraínumönnum að máli. Svo heyrist sagt að „fyrr eða síðar“ hljóti stríðsaðilar að „setjast niður við sama borðið“ og semja um einhverja „málamiðlun“, og þá koma lokaorðin sem heyrast í hvíslingum: „Með því að ganga til stuðnings við Úkraínumenn – og stuðla þannig að því að styrjöldin dragist á langinn, til ills fyrir báða aðila, spilla Frakkar einungis fyrir því að þeir geti sjálfir tekið forystu í friðarumræðunum.“
Þetta viðhorf birtist líka í undarlegum tvískinnungi hjá Macron forseta. Hann lýsir yfir stuðningi við Úkraínumenn, enda senda Frakkar þeim hergögn í nokkuð stórum stíl, en hann hefur líka verið í símasambandi við Pútín og kemur svo stundum með yfirlýsingar sem vekja furðu: „Það má ekki niðurlægja Pútín“, „Rússar verða að fá tryggingu fyrir sínu öryggi“. Þetta blasir við svo skýrt að franska stórblaðið „Le Monde“ birti nýlega opnugrein, undir fyrirsögninni „Einfarinn Macron“, um það hvað forsetinn væri eiginlega að fara, og var niðurstaðan sú að hann vildi sigur Úkraínumanna en án þess þó að Rússar töpuðu.
Þetta virðast vera allfurðulegir loftfimleikar, en þeir fá sína skýringu í víðara samhengi, semsé ef litið er á þá útfrá tilvistarkreppu sem Frakkar hafa nú lengi verið í og hægt er að draga saman í eina setningu: „Eru Frakkar ennþá stórveldi?“ Sögubækur herma ótvírætt að fram að síðari heimsstyrjöld hafi Frakkar verið stórveldi með sitt nýlenduríki sem var hið næststærsta í víðri veröld, umsvif sín hér og hvar um heimskringluna og stöðu sína í Evópu eftir sigurinn gegn Þjóðverjum í fyrri heimsstyrjöldinni. En eftir það, eru þeir enn í tölu stórvelda? Þessari spurningu svaraði vikurit eitt kaldranalega með annarri spurningu sem spyrillinn taldi greinilega að útkljáði málið: „Ef verið væri að setja á fót Öryggisráð nú á dögum, myndi þá nokkrum detta í hug að fela Frökkum eitt af fastasætunum?“
Þessi spurning um að vera eða vera ekki stórveldi er meginatriði fyrir sönglist hverrar einstakrar þjóðar í hinum mikla kór heimsbyggðarinnar – út frá sjónarmiði stórveldanna sjálfra. Stórveldi hefur nefnilega sína eigin stefnu í öllum málum, hún grundvallast ekki á neinu nema þess eigin stórveldishagsmunum og tekur ekki tillit til neins annars. Stórveldi getur aldrei bundið sig með því að vera í föstu bandalagi við einn eða neinn, það á að geta stutt sig við hvern sem er eftir sínum stundlegu hagsmunum, hafa umsvifalaust víxl á bandamönnum, og geta jafnan haft lokaorðið. Stefna stórveldis er fyrst og fremst „realpólitík“ í sínu æðsta veldi, hún þekkir til að mynda ekkert siðferði, hún byggist á rökum valdsins einum saman.
Eftir 1945 vildu margir franskir stjórnmálamenn halda dauðahaldi í drauminn um að Frakkar væru enn stórveldi, og leiddi það til afdrifaríkra mistaka, ekki síst styrjaldarinnar í Alsír. Sú harka sem í hana færðist spratt upp úr þeirri hugmynd að Alsír væri hluti af Frakklandi, semsé að Frakkland og Alsír væru eitt og sama landið. Þetta átti sína skýringu: Frakkland eitt og sér er stórt land í Evrópu, meðal annarra stórra landa en ekkert umfram það, en að viðbættu Alsír er það mun stærra en nokkurt land Vestur-Evrópu og syngur því í öðrum kór. Þetta orðuðu einstaka Frakkar svo, þegar Bandaríkjamenn gagnrýndu þennan stríðsrekstur handan Miðjarðarhafs: „Þið skiljið þetta ekki, Alsír er okkar Kalifornía.“
De Gaulle batt enda á styrjöldina, því honum var ljóst að Serkir í Alsír gætu aldrei orðið neinir Indíánar í franskri Kaliforníu, en hann hélt stórveldisstefnunni áfram ekki síður en fyrirrennarar hans á valdastóli. Hans eigin sterki persónuleiki gerði honum þetta hægar fyrir, hann sagði að Frakkar væru kálfar, en hins vegar leit hann svo á að Frakkland væri „sérstök hugmynd“ og þeirri hugmynd ætlaði hann að halda á lofti, svikalaust, hún holdgerðist í rauninni í honum sjálfum, ekki síst þegar hann hélt ræður. Til þess tók hann upp gamlan þráð í stórveldispólitík Frakka, að halla sér að Sovétríkjunum til að fá þannig mótvægi gegn Engilsöxum sem hann leit á að væru franska stórveldinu skeinuhættastir. Það var reyndar til marks um þetta samhengi nútímans og fyrri tíma í augum de Gaulle að hann þekkti engin Sovétríki, hann sagði alltaf „Rússland“. Jafnframt gekk hann að hálfu leyti úr Nató með því að taka franska herinn út úr sameiginlegri herstjórn bandalagsins, hann sýndi Aröbum samúð í deilum þeirra við Ísraelsmenn, og sýndi málefnum „þriðja heimsins“ góðan skilning. Þannig reis stjarna hans nokkuð hátt í heimsmálunum. Hann kom því til dæmis til leiðar að umræður um frið í Víetnam fóru fram í París.
Innanlands átti de Gaulle tvenns konar andstæðinga, allólíka, annars vegar eindregna fylgismenn Natós, sem nefndir voru „Atlantistar“, og hins vegar kommúnista, en þar sem bæði hann og kommúnistar höfðu sameiginlegan andstæðing, semsé „Atlantistana“, var hvorugum þeirra hinn aðilinn eins leiður og þeir létu. Leiðtogar Sovétríkjanna báðu franska komúnista þess lengstra orða bak við tjöldin að gera ekkert til að draga úr slagkrafti de Gaulle, – kommúnistar studdu hann dyggilega í maí ´68, þótt það færi ekki hátt. Þannig gat franski forsetinn á vissan hátt staðið uppi í hárinu á Engilsöxum, en í þeirra augum var hann þó fyrst og fremst hvimleiður eins og broddfluga en ekki beinlínis skaðlegur. Dæmi um þetta uppistand kom þegar de Gaulle var staddur í Kvíbekk í opinberri heimsókn í Kanada, og hrópaði þá upp í ræðu frammi fyrir þúsundum frönskumælandi Kanadamanna: „Lifi frjálst Kvíbekk“. Engilsaxar gengu af göflunum, í Kanada og annars staðar og de Gaulle neyddist til að stytta heimsóknina og snúa aftur, án þess þó að skammast sín fyrir eitt eða neitt. Sagt er að einhverjar skuggsælar leyniþjónustur hafi þá dreift þeim orðrómi að franski forsetinn væri nú búinn að glata glórunni.
Þennan sama leik hafa ýmsir eftirmenn de Gaulle reynt að leika, með misjöfnum árangri þó. En nú er eins og Macron forseti og þeir sem eru sama sinnis og hann sækist eftir að komast í sama hlutverkið. Þau orð sem vindurinn ber með sér, og hrjóta Macron af munni, benda til að þeir sækist eftir þeirri lykilaðstöðu að geta miðlað málum milli stríðsaðila. Kannske dreymir Macron um að sitja í eins konar dómarasæti með Pútín öðrum megin og Zelenskí og Nató hinum megin, hvessa brýnnar og draga línurnar, þannig þó að Pútín sé ekki „niðurlægður“ og fái fulla tryggingu fyrir sínu „öryggi“. Macron gæti þanið brjóstkassann, Frakkar væru sterki maðurinn í Evrópu og vissir að halda sínu sæti í Öryggisráðinu.
En þessir draumórar eru gersamlega út í hött. Macron er engan veginn í þeirri stöðu að geta fengið eitthvert aðalhlutverk í því leikriti sem er kannske fram undan á fjölunum og kannske ekki, þar eru aðrir meiri sviðsstjörnur. Og eins og glöggt má sjá með því að bera saman myndir, þá eru föt de Gaulle allt of stór fyrir hann, – hann yrði hlægilegur á sviðinu.
En svo kemur annað til og ræður enn meiru: stórveldisbrölt af þessu tagi er nú eins og vofa aftan úr grárri forneskju, sem enginn vildi vekja upp. Til marks um það má hafa, að yfirlýsingar Macrons um að halda hlífiskildi yfir Pútín vöktu samstundis hörð mótmæli alls staðar meðal Frakka svo hann neyddist umsvifalaust til að draga í land, og þótt mörgum finnist jákvætt að Macron skuli halda opinni einhverri samtalsleið við Kremlbóndann finnst þeim að Pútín hafi ekki gert annað en draga hann fram og aftur á asnaeyrunum. Menn hafa ekki gleymt því að örfáum dögum fyrir innrásina kom Macron með þau miklu tíðindi, höfð beint eftir Pútín, að Rússar ætluðu alls ekki að ráðast inn í Úkraínu, herliðið við landamærin væri bara í æfingum og myndi brátt verða flutt til baka. Pútín fylgdi í fótspor Stalíns, en það var Macron sem var kallaður Jósef.
Frá fyrsta degi hafa Frakkar fengið ítarlegar fréttir af styrjöldinni í Úkraínu, allir fjölmiðlar hafa fréttaritara víðs vegar í landinu, þeir lýsa stöðunni að staðaldri og hafa viðtöl við aragrúa manna. Menn hafa fylgst með loftárásum Rússa á óbreytta borgara og innviði Úkraínu, og séð vegsummmerki um stríðsglæpi þeirra í landinu. Orð valdhafa, bæði í Úkraínu og Rússlandi, eru tíunduð, og áróðri Rússa eru gerð góð skil, – það er reyndar verst fyrir þá sjálfa. Rödd þeirra Úkraínumanna sem sakna Sovétríkjanna og eru að meira eða minna leyti fylgismenn árásarmannanna heyrist líka. Menn hafa því getað fylgst með atburðum frá mörgum hliðum.
Fáum getur dulist að það eru Rússar sem eru árásaraðilinn, það voru þeir sem fóru með her inn í landið að tilefnislausu til þess að leggja það undir sig, – í samræmi við þau orð Pútíns að upplausn Sovétríkjanna væri mesti harmleikur tuttugustu aldar. Með því að „miðla málum“, forðast að „niðurlægja Pútín“ og vilja „tryggja öryggi Rússa“ væru menn einungis að verðlauna árásarmanninn, – og lítilsvirða fórnarlömb hans.
Viðhorf Frakka til Natós hefur breyst um leið. Í byrjun stríðsins voru menn á Vesturlöndum, bæði Frakkar og aðrir, tregir til að veita Úkraínumönnum mikinn stuðning, því flestir bjuggust við að þeir yrðu að láta snarlega í minni pokann, en hetjuleg mótspyrna þeirra gerbreytti ástandinu og þá fékk Nató alveg nýtt hlutverk. Það var stofnað á sínum tíma til að verjast ágengni „kommúnista“ í Austur-Evrópu, en þegar þessi „kommúnismi“ hrundi missti Nató glæpinn, – andstæðingurinn var horfinn út í veður og vind. Eftir þessi umskipti heyrði bandalagið sögunni til, og þá mælti Macron forseti hin sögufrægu orð: „Nató er heiladautt.“ Mörgum fannst forsetinn taka stórt upp í sig, en voru annars ekki ósammála. En nú var Nató skyndilega komið í nýja og óvænta stöðu, það var í fararbroddi í stuðningnum við Úkraínumenn, í félagi við valdhafa í Vestur- og Austur-Evrópu. Margir segja nú að ef Eystrasaltsmenn hefðu ekki gengið í Nató, eins og þeir sóttust fast eftir, hefði árásarstefna Rússa fyrst bitnað á þeim, þeir voru auðgleyptari biti, og það hefur löngum verið ósk Rússa að fá aðgang að Eystrasalti.
Sú furðulega staða er komin upp að Rússar virðast meiri ógn við frið í Evrópu eftir að kommúnisminn hrundi en meðan hann réð ríkjum. Þeir sem fóru með völd á þeim tíma voru engir ævintýramenn og vissu nokkurn veginn hvað þeir voru að gera (með einni undantekningu: Kúbuævintýri Krústjofs), en nú er Pútín farinn að skaka atómbombur eins og skiptingur. Um leið reiknar hann út að það taki ekki nema 200 sekúndur að stroka París og London út af kortinu. Sú skoðun virðist útbreiddust nú að það sé tilgangslaust að ætla að semja við þennan strokleðursmeistara stórborganna, öryggi Evrópu verði ekki tryggt nema Úkraínumenn vinni sigur og Pútín víki úr valdastóli. Þannig er staðan á þessari stundu.
Í byrjun var nefnt að Pútín eigi sér stuðningsmenn í Frakklandi sem setji sitt ljós ekki undir mæliker. Þau undarlegu umskipti hafa orðið, að þeir sem aðhyllast samsæriskenningar af öllu hugsanlegu tagi, sjá einhverja Skugga-Sveina bak við flest sem gerist, fordæma bólusetningar gegn veirukófinu, halda að allir venjulegir fjölmiðlar ljúgi að mönnum á kerfisbundinn hátt, sannleikans sé að leita á sérstökum miðlum á netinu, – þessir menn virðast hafa gengið til stuðnings við Pútín in corpore að því er best verður séð og liggja ekki á sínum skoðunum hvorki á netinu né í samtölum við aðra. Það sem einkennir þessa menn er að þeir hika ekki við að halda fram kenningum sem eru í mótsögn hver við aðra.
„Það sem einkennir þessa menn er að þeir hika ekki við að halda fram kenningum sem eru í mótsögn hver við aðra.“
Einn þeirra, góður kunningi minn sem er farinn að hallast æ meira til hægri (af frambjóðendum í forsetakosningunum í vor leist honum best á Zemmour) hélt hrókaræður í mín eyru fyrir skömmu. Hann sagði að Covid-veiran hefði verið búin til á rannsóknarstofu í Kína og sloppið út, kóvídfaraldurinn væri bara venjuleg inflúensa en Bandaríkjamenn hefðu gert menn hrædda með áróðri sínum og skipulagt þennan faraldur til að geta grætt milljarða á því að selja bóluefni. Þessi faraldur hefði verið svo vel skipulagður fyrir fram að áður en hann hófst hefði lyf sem síðan reyndist geta læknað Covid mjög auðveldlega verið tekið út af markaðnum og verið ófáanlegt þegar menn tóku að veikjast. Þá hefði verið farið að knýja á með bólusetningar, en bóluefnið væri gagnlaust og sennilega mjög svo skaðlegt (hann hafði ekki látið bólusetja sig né heldur konu sína og börn). Um leið og hann flutti þessa þulu talaði hann um stríðið í Úkraínu, og hljóp reyndar oft úr einu í annað. Hann hélt því statt og stöðugt fram að allir opinberir fjölmiðlar væru að ljúga að mönnum á kerfisbundinn hátt, þeir hefðu tekið sig saman um það að undirlagi Bandaríkjamanna. Þessa árásarstyrjöld hefði Nató verið að undirbúa í mörg ár og beitt Úkraínumönnum fyrir sig, þessir Úkraínumenn hefðu síðan stundað samfelld hryðjuverk í austurhluta landsins, myrt með köldu blóði ellefu þúsund rússneskumælandi menn, „ellefu þúsund menn!“ og svikið alla samninga. Að lokum hefðu Rússar ekki átt annarra kosta völ en skakka leikinn.
Ég nefndi feimnislega fréttir af stríðsglæpum Rússa á landi Úkraínumanna, því styrjöldin er hvergi háð nema þar.
Kunningi minn yppti öxlum: „Þetta gerist í öllum styrjöldum.“
Athugasemdir (2)