Þegar liðnir voru ellefu mánuðir af síðasta ári tilkynnti franska veðurstofan að hvernig sem viðraði í desember yrði 2022 heitasta árið í Frakklandi síðan mælingar hófust. Þetta kom fáum á óvart, því síðan um vorið hafði veðrið gengið á með ósköpum. Fyrsta hitabylgjan skall á þegar í maí, sem er vitanlega óvenju snemma, og síðan töldu menn þrjár hitabylgjur, hverja á eftir annarri, yfir sumarmánuðina júní, júlí og ágúst. Strax um miðjan júní komst hitinn yfir 40 stig á einum stað í Suður-Frakklandi, og hafði það aldrei áður gerst svo snemma sumars. Sumir kynnu reyndar að efast um þessa tölu á hitabylgjum sumarsins, því varla var hægt að finna mikil skil milli þeirra, aldrei kom neitt kuldakast sem markaði skýrt að einni þeirra væri lokið, hitinn féll aðeins niður í það stig sem er venjulegt á meðalheitu sumri. Því var hægt að upplifa sumarið sem eina stanslausa hitabylgju með smávegis sveiflum, aldrei var neitt raunverulegt skjól fyrir brennandi sólinni.
Á þessum tíma voru flest met slegin. Hitinn komst upp í 43 stig í Arcachon á vesturströndinni, 42,9 stig í Biarritz og 42 stig í Nantes. Í norðurhéruðum Bretagne fór hitinn yfir 40 stig og hafði það aldrei áður gerst. Á tímabilinu frá maí til ágúst var hitaaukningin +3,8 miðað við meðaltal áranna 1960 til 1990. Þessum hitum fylgdu aukin dauðsföll, og var talið að um 10.000 hafi látist vegna þeirra. Sumir nefna þó enn hærri tölu.
Þetta var næstheitasta sumarið í Frakklandi síðan 2003, ósællar minningar, þegar mun fleiri létu lífið, en hitunum var ekki lokið. Þegar líður á haustið fara Frakkar að búast við því sem þeir kalla „allraheilagramessuveður“, en það er afskaplega kalt og hráslagalegt. En að þessu sinni kom ekkert „allraheilagramessuveður“, þvert á móti kom fimmta hitabylgja ársins í október, var þetta heitasta haust síðan mælingar hófust og færði árinu metið.
Þegar orðið risaeldar fékk merkingu
Þessum hitum fylgdu einnig fádæma þurrkar, sem hófust þegar í mars og snertu einkum austur- og suðvesturhluta Frakklands, en þeirra gætti þó yfir allt landið. Í lok ágúst var kominn haustlitur á gróður þeirra vegna. Landbúnaðurinn varð fyrir miklum skakkaföllum, en svo vofði yfir annar háski sem skaut sumum skelk í bringu: þessir hitar og þurrkar í sameiningu kynnu að valda því að hörgull yrði á vatni til að kæla ofnana í kjarnorkuverum, og hvað myndi gerast þá? Sem betur fer sluppu menn við skrekkinn.
Ofan á þetta kom svo að hitabylgjunum fylgdu meiri skógareldar en dæmi eru um, og snertu þeir einkum vesturhluta landsins, en einnig héröð sem höfðu að mestu verið laus við slík fyrirbæri til þessa, svo sem Júrafjöll. Voru þeir svo miklir að suma daga voru tíu þúsund slökkviliðsmenn að starfi í einu, og bjuggu Frakkar til nýtt orð um þessi miklu bál, sennilega þó að erlendri fyrirmynd: „mégafeux“, sem sé „risaeldar“. Talið er að 62.000 hektarar af gróðurlendi hafi rokið upp í andrúmsloftið.
Eins og að líkum lætur voru þessar hitabylgjur, þurrkar og skógareldar ein helstu tíðindi ársins, sem var þó auðugt af tíðindum, og urðu einnig til þess að menn fóru að beina augunum út fyrir ramma „sexhyrningsins“, eins og Frakkar nefna stundum land sitt. Og þá sáu þeir sams konar sjónarspil, annars staðar í Evrópu, í Bandaríkjunum, Pakistan – þar sem hitinn komst upp í fimmtíu stig – og reyndar hvert sem litið var. Því er nú svo að sjá að þetta síðasta ár muni valda tímamótum, nú hljóðni raddir „efahyggjumanna“, almenningur fari að gera sér grein fyrir ástandinu og jafnframt krefjast þess að til einhverra ráða verði gripið. En þá blasir við mönnum að til þessa hafi valdhafar landsins lítið gert annað en halda ræður og skrifa undir samþykktir sem svo er ekki staðið við. Þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar halda gróðurhúsalofttegundirnar áfram að rjúka upp í andrúmsloftið sem aldrei fyrr.
Þegar Macron kom af fjöllum
Til dæmis um þetta má kannske nefna að einu sinni lýsti Macron Frakklandsforseti því yfir að nú skyldi til skarar skríða, hann skipaði með brauki og bramli nefnd 150 manna, sem voru valdir með nokkurs konar hlutkesti, skyldu þeir skoða ástandið, fara yfir skýrslur vísindamanna og gera tillögur um aðgerðir. Til starfans fengu þeir eitt ár og lofaði Macron að tillögur þeirra yrðu lagðar óbreyttar fyrir þing, eða jafnvel settar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ýmsir gagnrýndu þetta og töldu óþarfa, nú þegar væri ljóst hvað nauðsynlegt væri að gera. En hinir 150 tóku til óspilltra mála svikalaust, og á tilsettum tíma settu þeir fram sínar tillögur, álíka margar og nefndarmenn. En þá var annað upp á teningnum, Macron ýtti strax til hliðar fjölmörgum tillögum, lagði svo aðrar fyrir þingið en oftast í svo breyttri mynd að þær voru gagnslausar. Ein þeirra var til dæmis sú að ekki skyldi flogið milli borga í Frakklandi ef hægt væri að komast milli þeirra í bíl eða lest á minna en fjórum klukkustundum. Þetta stytti hann niður í tvo tíma, sem er álíka og leiðin frá París til Lyon en á svo stuttri fjarlægð er ólíklegt að nokkur stigi upp í flugvél, – ef hún væri á annað borð fáanleg. Þetta staðfesti það sem ýmsir höfðu sagt þegar í byrjun: nefndin var ekki annað en átylla til að láta hendur síga í heilt ár, aðferð til að vinna tíma, til þess í lokin að humma málið fram af sér.
„Nefndin var ekki annað en átylla til að láta hendur síga ó heilt ár, aðferð til að vinna tíma, til þess í lokin að humma málið fram af sér“
Menn geta velt því fyrir sér hvað Macron gangi til, fylgir hann þeim sem studdu hann til forsetaembættis og vilja að ekkert verði gert sem kynni að skaða þeirra einkahagsmuni, eða skilur hann einfaldlega ekki hvað er í húfi? Kannske er svarið að finna í orðum sem hann missti út úr sér fyrir skömmu. Hann var að tala um hitabylgjurnar síðasta sumar og allt sem þeim fylgdi, og sagði þá:
„Hver gat séð þetta fyrir?“
Það varð mikill hvellur og úr öllum áttum hljómuðu sömu raddirnar: eftir rannsóknir vísindamanna, ráðstefnur þeirra og skýrslur átti hver og einn að geta séð þetta fyrir. Menn þyrftu að vera meira en meðaltregir til að gera það ekki.
Þegar Grænland átti að afsanna loftslagsbreytingar
Um framhaldið er óljóst, en ég hef einn veðurvita til að fylgjast með ástandinu. Það er heimspekingurinn Luc Ferry, fyrrverandi mentamálaráðherra, sem skrifar vikulega grein í dagblaðið „Le Figaro“. Hann var frá upphafi harður andstæðingur kenninga um hættulegar loftslagsbreytingar, skrifaði mikið um þær, og í greinum hans endurspegluðust rök þessara „neitenda“ og sveiflur röksemdanna gegnum tíðina.
Fyrst sagði Luc Ferry: það eru alls engar loftslagsbreytingar að verða. Þetta er uppspuni fáeinna „vísindamanna“, sem fá að vaða uppi í fjölmiðlum, meðan þeir sem hafa andstæðar skoðanir verða að sæta „þöggun“.
Svo sagði Luc Ferry: það eru að verða loftslagsbreytingar, en þær eru alls ekki af mannavöldum, slíkar breytingar hafa alltaf orðið og eru hættulausar. Líkast til stafa þær af sólblettum. Sönnun fyrir þessu er nafnið „Grænland“, þessi eyja var semsé „græn“ á miðöldum, „og þá voru engir bílar“. Í leiðinni jós hann úr skálum reiði sinnar yfir Gretu Thunberg: „Mönnum væri nær að hlusta á vísindamenn en eltast við ruglið í þessum stelpukrakka.“ En „stelpukrakkinn“ hafði þaullesið skýrslur vísindamanna; það hafði heimspekingurinn augljóslega ekki gert. Þarna var Luc Ferry í slagtogi með menntamálaráðherranum óvinsæla Claude Allegre sem skrifaði þykka bók um „loftslagssvindlið“ og óð úr einni sjónvarpsstöð í útvarpsstöð og þaðan í aðra sjónvarpsstöð til að segja að þeir sem véfengdu kenningarnar um loftslagsbreytingar fengju aldrei að hafa orðið. Þessa bók keypti ég nýlega á bókamarkaði fyrir eina evru.
Loks sagði Luc Ferry: það eru að verða loftslagsbreytingar, og kannske eru þær að einhverju leyti af mannavöldum, en samt er ástæðulaust að óttast þær eða fara að rjúka upp til handa fóta og grípa til einhverra aðgerða sem geri ekki annað en ógagn. Framfarir í vísindum og tækni munu leysa vandann.
Þegar lausnin á að felast í hvítum þökum
Því miður fjölyrti Luc Ferry ekki um það hvernig hægt væri að leysa vandann með vísindum og tækni, en frá því var skilmerkilega greint í vikublaði um svipað leyti. Þar kom í ljós að vísindamenn höfðu snjallræði undir rifi hverju, og má telja upp nokkur þeirra:
Eitt var að blása út í andrúmsloftið aragrúa af smáögnum sem myndu draga úr sólargeislunum og koma í veg fyrir að þeir hituðu jörðina. Gallinn er þó sá að í þennan mikla útblástur þarf mikla orku, og því dugir ráðið ekki eitt sér.
Annað var að mála öll húsþök, götur, torg og þjóðvegi snjóhvít, sömuleiðis fjöll, mela, hraun og eyðimerkur, jafnvel skóga líka, til að endurvarpa hitanum aftur út í geiminn. Það myndi auk þess leysa vandamál atvinnuleysis.
Þriðja snjallræðið, og nátengt hinu fyrra, var að blanda einhverju efni í höf jarðarinnar þannig að sjórinn yrði hvítur og færi líka að endurvarpa hita. Afbrigði af þessari hugmynd var að þekja sjávarflötinn strandanna á milli með litlum og fljótandi kúlum, hvítum á lit og á stærð við tenniskúlur. Þá væri brýnast að byrja á Svarta hafinu.
Fjórða snjallræðið var að setja ný gen í mannskepnuna þannig að hún minnkaði og menn yrðu um það bil einn metri á hæð. Þannig myndi mannkynið þurfa mun minni orku og eyða minna jarðeldsneyti.
Fimmta snjallræðið var að herða á snúningi jarðar þannig að dagurinn yrði sex klukkustundir og nóttin sömuleiðis, því að jörðin hitnar miklu minna í sex tíma sólskini, en til dæmis tólf tíma sólarbirtu.
Þessi tilvonandi framfarastökk í vísindum og tækni hefðu átt að efla allar dáðir heimspekingsins, en kannske hefur hann fengið ofbirtu í augun, það hefði verið snertur af því sem Frakkar kalla „tæknihugljómun“. En hvernig sem því er varið, þá fæ ég ekki betur séð að nú sé hann alveg hættur að tala um loftslagsmál.
Athugasemdir (1)