Saksóknari í Lúxemborg, sem hefur haft hið svokallaða Lindsor-mál til rannsóknar árum saman, hefur að mestu lokið vinnu við gerð ákæru í málinu og mun í nánustu framtíð senda hana til dómstóla þar í landi.
Þetta segir Henri Eippers, talsmaður dómsmálaráðuneytisins í Lúxemborg, í svari við fyrirspurn Heimildarinnar.
Það þýðir þó ekki endilega að réttað verði í málinu, enda réttarkerfið í Lúxemborg ólíkt því sem Íslendingar eiga að venjast. Ákæra saksóknara er send til svokallaðs „council chamber“ héraðsdómsstigs Lúxemborgar sem mun taka ákvörðun um hvort að málið fái efnismeðferð eða verði vísað frá. Sakborningar í málinu munu á þeim tímapunkti fá tækifæri til að setja fram varnir í málinu. Auk þess er hægt að áfrýja niðurstöðu dómstólsins til sérstaks áfrýjunardómstóls, sem hefur lokavald í málinu.
Rannsóknardómari lauk rannsókn sinni á málinu árið 2020 og vísaði niðurstöðum sínum til saksóknara 24. júlí það ár.
Athugasemdir