Drífa Snædal fyrrverandi forseti ASÍ segir að með ákvörðun sinni að leggja fram miðlunartillögu sé ríkissáttasemjari heldur betur að teygja á heimildum sínum.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu hennar í dag en Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA) í morgun. Tillagan felur í sér að allir félagsmenn Eflingar á almennum vinnumarkaði munu greiða atkvæði um kjarasamning sambærilegan þeim sem önnur félög Starfsgreinasambandsins hafa þegar undirritað við SA.
„Það er véfengjanlegt að hann hafi þessar heimildir án samráðs við deiluaðila en heimildir Eflingar til að semja fyrir sitt fólk og undirbúa verkfallsaðgerðir eru óvéfengdar. Sama hvað fólki kann að finnast um framgöngu samninganefndar Eflingar.
Með þessu er ríkissáttasemjari að nýta til hins ýtrasta sínar valdheimildir og jafnvel aðeins umfram það og þetta er stórhættulegt fordæmi fyrir deilur á hinum íslenska vinnumarkaði. Þegar einu sinni er búið að taka svona ákvörðun er hætt við að hún verði tekin aftur og aftur og aftur. Það er nánast ómögulegt fyrir félagsmenn að fella slíka miðlunartillögu, það þarf töluvert meiri kosningaþátttöku til að fella tillöguna en náðst hefur hingað til í almennum atkvæðagreiðslum,“ skrifar hún.
Verður varla til að efla samtal um bætt vinnubrögð í samningagerð
Drífa telur að ef þetta sé það sem koma skal á íslenskum vinnumarkaði sé verið að draga úr möguleikum og heimildum einstakra stéttarfélaga til að ráða sínum málum sjálf og beita því eina vopni sem launafólk býr yfir – að leggja niður störf.
„Ég óttast að ríkissáttasemjari hafi ekki hugsað þetta til enda. Hætt er við að deilan fari í enn meiri hnút og traust til embættis ríkissáttasemjara minnki hjá launafólki á Íslandi. Það er hins vegar mín skoðun að félagar í Eflingu hefðu átt að fá að greiða atkvæði um það tilboð sem lá á borðinu en það á að gerast á félagslegum grunni en ekki með valdboði ríkissáttasemjara. Með þeirri stöðu sem nú er komin er hætt við að launafólk upplifi einmitt það, valdboð að ofan í stað félagslegra lausna innan síns félags.
Það er ljóst að stjórnvöld og atvinnurekendur hafa látið sig dreyma um auknar valdheimildir ríkissáttasemjara en það hefur verið í andstöðu við verkalýðshreyfinguna. Að ríkissáttasemjari taki sér þetta vald núna verður varla til að efla samtal um bætt vinnubrögð í samningagerð og getur haft alvarlegar afleiðingar á samskipti á vinnumarkaði til lengri tíma,“ skrifar hún að lokum.
Vísar fullyrðingum um ólögmæti tillögunnar á bug
Fram kemur í frétt RÚV í dag að ríkissáttasemjari vísi fullyrðingum um ólögmæti miðlunartillögu hans í kjaradeilu Eflingar og SA á bug. Hann segir deiluaðila ekki hafa íhlutunarrétt eða neitunarvald um tillöguna. Þá segir hann af og frá að verið sé að þröngva samningi SA upp á félagsmenn Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagði í samtali við fréttastofu RÚV í dag að hún teldi ríkissáttasemjara hafa farið gegn lögum með tillögu sinni. Ekkert samráð hefði verið haft við Eflingu. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA sagði það rétt deiluaðila að fá að leiða málið til lykta.
Nú hefur það gerst að ríkissáttasemjari stígur fram eins og gamaldags einræðisherra og tekur einn ákvörðum hvað er verkafólki fyrir bestu.
Hann ákveður að Efling verkalýðsfélag geri sér að góðu kjarasamning sem áður hefur verið gerður og félagið hefur á örfáum samningafundum hafnað.
Hann krefst þess að allir félagar í Eflingu greiði atkvæði um þennan samning og tekur þannig undir kröfur samtaka atvinnurekenda að öllu leiti.
Nú hefur þessi aðili sem starfar sem sáttasemjari lagt fram það sem hann kallar miðlunartillögu. En hún er samhljóða samningi samtaka atvinnurekenda við SGS.
Þegar núverandi útþynnta útgáfa á vinnulöggjöfinni er skoðuð kemur hvergi fram hvert eðli slíkra miðlunar-tillagna skuli vera.
Almennur skilningur væri málamiðlunartillaga sem tillaga sátta er ekki. Einnig hitt sem er staðreynd að ekki var fullreynt um að samningar næðust ekki.
Ég birti hér 27. Grein laganna:
[27. gr.
,,Ef samningaumleitanir sáttasemjara bera ekki árangur er honum heimilt að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu. Miðlunartillögu skal leggja fyrir félög eða félagasambönd launafólks og atvinnurekenda eða einstakan atvinnurekanda, eigi hann í vinnudeilu, til samþykkis eða synjunar. Sáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber fram miðlunartillögu.
Ef ágreiningur snertir aðeins ákveðna félagsdeild eða starfsgrein innan félags eða félagasambands eða tiltekið fyrirtæki getur sáttasemjari ákveðið að atkvæðagreiðsla taki eingöngu til deildarinnar eða starfsgreinarinnar eða fyrirtækisins."
Sáttasemjara ber að ráðgast við aðila áður en hann ber upp miðlunartillögu eins og skýrt kemur hér fram í þessari lagagrein. það hefur hann ekki gert.
Hvergi er útlistað í lögunum og væntanlega ekki heldur í reglugerð hvað miðlunartillaga verður að bera í sér.
Síðan er hin staðreyndin sem er, ef þessi gjörningur nær fram að ganga væri búið að skerða mjög samningafrelsi verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni.
Það er mjög alvarleg staða sem ASÍ verður að taka alvarlega.