„Góðan daginn, Ragna, nú er kominn tími til að vakna!“ söng amma hástöfum og klappaði saman höndunum meðan hún gekk upp stigann að svefnherbergi mínu á dimmum vetrarmorgni, einu sinni sem oftar. „Æ, amma, ekki láta svona! Þú veist að ég er svo morgunfúl.“ Það hljóp heldur betur á snærið hjá ömmu: „Þú ert ekki morgunfúl, gæska, heldur ertu búin að ákveða að vera það. Þú getur líka ákveðið að vera bara kát og haga þér eins og manneskja,“ sagði hún í essinu sínu. Ég var algerlega ósammála og kenndi í brjósti um sjálfa mig að þurfa að þola þennan skarkala svona snemma morguns. Þetta reyndist þó dýrmæt lexía sem hefur reynst mér vel. Ég fór á heimavist Menntaskólans á Akureyri skömmu síðar og þá dugði ekki að mæta í morgunmatinn hundfúl. Ég komst að því að það var ekkert svo erfitt að vera morgunhress.
Á gelgjuskeiðinu fékk ég líka þá flugu í höfuðið að nefið á mér væri ekki nógu fallegt. Amma gerði lítið úr því og benti mér á að nef væru til að anda með, ég ætti að þakka fyrir að geta það. Þegar ég kvartaði undan því að mér leiddist sagði hún að fólki sem leiddist gerði það vegna þess að það væri sjálft svo leiðinlegt.
Hvað kenndi þetta mér? Að viðhorf til hlutanna skiptir máli. Kemur kannski ekki alltaf af sjálfu sér en þá nota ég ýmis ráð; hugsa jákvætt, sjá það broslega í hlutunum, stunda íhugun og líkamsrækt. Einfalt, eða hvað? Fyrir einhverjum árum fannst mér óhugsandi að mæta í ræktina snemma á morgnana. Ég ákvað að láta mig samt hafa það því vinnudagurinn bauð ekki upp á annað. Það var spurning um að mæta yfirhöfuð og mæta þá í bítið. Það gengur bara vel ef ég fæ góðan kaffibolla á undan. Finna eitthvað gott við það að vakna eldsnemma í þessum tilgangi, ég tala nú ekki um í vetrarmyrkrinu. Önnur ákvörðun sem ég tók fyrir margt löngu, og þar sem viðhorfið skipti sköpum, var þegar ég hætti að reykja. Ég ákvað að þetta væri einfaldlega of gott og ég yrði að hætta, einmitt vegna þess að ég hreinlega naut þess í botn að reykja. Ég hafði farið á nokkur námskeið þar sem boðskapurinn gekk bara út á að reykingar væru skaðlegar, en gat yfirleitt ekki beðið eftir að tíminn yrði búinn svo ég gæti farið út að fá mér rettu. Svo er það vinnan. Ég heyri stundum fólk segja að það sé ekkert svona 9 til 5 fólk. Ég spyr, er það einhver? Stundum er ekkert annað í boði. Þá er bara að taka því og láta sér líða sem best í vinnunni.
„Lífið færir okkur ýmis viðfangsefni og þau geta verið yfirþyrmandi“
Það er samt mjög auðvelt að gleyma þessum góða boðskap. Ekki halda að ég taki Pollýönnu á allt og svífi hamingjusöm inn í sólarlagið dag hvern. Lífið færir okkur ýmis viðfangsefni og þau geta verið yfirþyrmandi. Það er ekkert mannlegra en að missa sjónar á björtu hliðunum og finnast allt vera erfitt. Tökum sem dæmi síðasta ár hjá okkur hjónunum. Maðurinn minn þurfti að fara í krabbameinsaðgerð, hún tókst vel en hann þurfti sinn tíma til að jafna sig. Hann var ekki fyrr kominn á beinu brautina í þeim efnum þegar hann féll fjóra metra niður á gangstétt. Var að dytta að þakinu eins og gerist og gengur. Hann var allur krambúleraður eftir þetta en slapp samt furðuvel og mun jafna sig á endanum. Þessi atvik urðu til þess að ég fór að leggja saman tvo og tvo og fá út fimm. Fór að hugsa hvers konar endemis óheppni þetta væri. Ekki nóg þetta með eiginmanninn heldur hefði faðir minn látist með sviplegum hætti fyrir tveimur árum. Og svo framvegis. Velti mér upp úr því að nú yrði ekkert eins og áður og lífið heldur verra ef eitthvað væri. Hvað næst!, hugsaði ég. Að hætti Bretadrottningar fór ég að tala um „annus horribilis“. Reyndi að láta það hljóma eins og það væri eitthvað fyndið en undir niðri fór ég að gera ráð fyrir hinu versta. Ég hefði þrátt fyrir allt notið mikillar velgengni, bæði í einkalífi og starfi, og nú væri komið að skuldadögum. Þangað til náin vinkona mín sá í gegnum mig. Hún dró mig afsíðis og sagði mér að það væri eins og ég væri orðin eitthvað bitur, hvað væri eiginlega í gangi? Ég varð furðu lostin! Ég, sem hafði ákveðið snemma í lífinu að vera hress og jákvæð, gat þetta verið?
Ég snerist á punktinum, mig langaði alls ekki að vera þessi bitra því ég hefði nákvæmlega enga ástæðu til þess. Ég fór að pæla hvað ég væri lánsöm. Maðurinn minn hefði fengið tvö líf á árinu, eins og hann sagði sjálfur alveg hæstánægður. Ég ákvað að fylgja fordæmi hans og þakka fyrir það. Þegar upp var staðið var það alls ekkert erfitt og bara miklu betra. Því það, að gera ráð fyrir hinu versta, er ansi lýjandi. Það býr mann ekki undir nein áföll, skyldi maður halda það, þau verða ekkert skárri við það.
Það er sem sagt ekki alltaf einfalt að fylgja heilræði ömmu en það hjálpar að hugsa um hina ágætu klisju hvort glasið sé hálffullt eða hálftómt. Og það er kannski bara barmafullt þegar öllu er á botninn hvolft.
Athugasemdir (2)