Mikil ánægja var með Áramótaskaupið 2022, að því er fram kemur í nýrri könnun Maskínu. Þar kemur fram að 66,2 prósent svarenda hafi fundist Skaupið mjög gott og 22,9 prósent frekar gott. 2,6 prósent svarenda fannst það frekar slakt og 2,4 mjög slakt.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/DA9pVe3Sf3Gl_730x400_EAmXynZ2.png)
Maskína hefur síðastliðin 12 ár spurt Íslendinga út í Áramótaskaupið. Fram kemur á vefsíðu Maskínu að í ár hafi þeir ekki verið ánægðari á þessum 12 árum sem sýni sig bæði í því aldrei hafi fleiri sagt skaupið vera gott og aldrei færri þótt það slakt.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/YXft-II-dOKm_730x662_aqs31v1B.png)
Ánægja landsmanna sveiflast mikið á milli ára þegar kemur að Skaupinu en árin 2013, 2020 og 2022 eru í sérflokki þar sem hlutfall ánægðra var yfir 80 prósent, þá var hlutfall þeirra sem þótti skaupið slakt þessu þrjú sömu ár í algjöru lágmarki eða á bilinu 5 til 9 prósent.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 949, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Könnunin fór fram dagana 13. til 18. janúar 2022.
Ólga í kringum framleiðsluna
Heimildin greindi frá því um miðjan janúar að leikstjóri Skaupsins, Dóra Jóhannsdóttir, hefði kvartað til RÚV undan framgöngu framleiðslufyrirtækisins sem gerði Áramótaskaupið. Þrýstingur um að taka Skaupið í nýja miðbænum á Selfossi, duldar auglýsingar og falin fjárhagsáætlun hefði orðið til þess að upp úr sauð. Reynt hefði verið að afmá Ölfusárbrú út úr senu, eftir að Sigurjón Kjartansson sagði rangt frá um að engar útitökur hefðu farið fram á Selfossi.
Jafnframt greindi Heimildin frá því fyrir viku síðan að söngvarar sem tóku upp lagið í poka atriði Áramótaskaupsins hefðu verið snuðaðir um greiðslu fyrir. Í stað þess að greiða hverjum og einum rúmar 50 þúsund krónur eins og kjarasamningar gera ráð fyrir hugðust framleiðendur greiða hverjum söngvara rúmar 5.000 krónur. Þegar farið var fram á að greitt yrði samkvæmt taxta hótuðu framleiðendur að taka atriðið út úr Skaupinu.
Athugasemdir