Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð. Svo hefst Biblían. Biblían er heimsfræg upprunasaga sem margir menningarheimar styðjast við. Hún er ein margra upprunasagna. Menningarleg afstæðishyggja einkennir túlkun hennar. Margir túlka hana til að skýra tilvist okkar og nota hana sem siðferðislegan áttavita í leit að betra lífi. Aðrir nota hana til að réttlæta fordóma, andfélagslega hegðun, ótímabæra endurkomu og skepnuskap.
Á Íslandi hafa orð og nálægð Guðs oft verið áberandi í vörn þeirra sem hafa meitt aðra. Þeir kasta sér í faðm Drottins og biðja um betri sál. Þeir biðja hins vegar þolendur sína sjaldnast afsökunar og krefjast jafnvel lágmarks refsingar þegar brot þeirra eru sönnuð fyrir lögum og rétti. Þessir menn og samband þeirra við Guð hafa verið mér hugleikin í upphafi árs. Þessir menn eru í daglegu tali nefndir ofbeldismenn af þolendum sínum. Samfélagið lítur hins vegar stundum á þá sem dáðadrengi sem ekkert illt hafa gert. Misskilningur byggður á neyslu og falli góðrar sálar sem er bara veik. Hugsanaskekkja þessi er álíka venjuvædd og lofuð líkt og nýju fötin keisarans og gagnslaus með öllu þegar kemur að framþróun siðferðiskenndar samfélaga. Meðvirknin verður að tröllskessunni sem neitar að brenna.
Þetta eru mennirnir sem upphefja dýrð, orð og biblíuvæddar dyggðir Drottins þegar þeir gerast uppvísir um voðaverk. Þeir henda sér í sporin og hengja sig á eldri menn í föðurlíki. Huggunarorðin hljóma, „Lausnin er í fyrirgefningunni! Ert þú búinn að fyrirgefa sjálfum þér, vinur?“ segir sá reyndi og klappar arftaka sínum á kollinn. Hugræn skekkja kynslóðanna erfist. Raddir sem rausa um ábyrgð tala hátt en verða hljóðar þegar alvarleiki brota þeirra er nefndur eða mögulegar heilsufarsafleiðingar fyrir þolendur þeirra eru ræddar. Margir þeirra fela sig heigulslega undir faðmi Drottins og öskra: „Misskilningur, man ekki eða nei!“ þegar réttlætis er krafist.
Úrvinnsla einmanaleika ofbeldismanna getur verið andfélagsleg
Hvati skrifa minna er voðaverk sem hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlunum undanfarið. Sá sem framdi það heitir Vilhjálmur Freyr Björnsson. Vilhjálmur er maðurinn sem var dæmdur fyrir vændiskaup, frelsissviptingu, alvarlega líkamsárás og kynferðisofbeldi í desember síðastliðinn. Vilhjálmur lítur á Guð sem persónulegan vin sinn og sáluhjálpara. Þrátt fyrir það beitti hann konu sem seldi kynlíf ógeðfelldu ofbeldi. Málið vakti líka athygli vegna þess að nafn hans var afmáð úr dómsskjölum og virtist enginn skilja af hverju. Hugsanlega var það yfirsjón eða hugsanlega var það örvæntingarfull tilraun feðraveldisins til að halda röðum. Baráttan gegn kynbundnu ofbeldi hérlendis reis hins vegar hnakkreist á afturlappirnar og lét höggin dynja þar til nafnið var birt. Það að ögra fáránleikanum eða benda á augljósar siðferðisskekkjur virðist enn vera fullt starf.
Staðreyndir máls voru með þeim hætti að Vilhjálmur keypti vændi af konu. Hann braut þar með lög en hún ekki. Eftir sáðlát krafðist hann endurgreiðslu. Hann ætlaði nefnilega að nota peninginn í tannlækni. Konan neitaði endurgreiðslu og við tók martraðarkennd atburðarás. Hann meinaði henni útgöngu, svipti hana frelsinu í þrjár klukkustundir, nauðgaði henni oft og neyddi til annarra ógeðfelldra kynlífsathafna með hrottalegu ofbeldi. Líkamlegir áverkar konunnar voru alvarlegir. Hann tók konuna kverkataki og sló ítrekað í andlit og líkama. Hún hlaut brot á augntóttargólfi og á vanga, mar og fleiri áverka. Í viðtali við OMEGA sagðist Vilhjálmur hafa verið einmana þetta kvöld.
Einmanaleiki er algeng og sammennsk tilfinning og hún er sjaldnast hættuleg öðrum en þeim sem hana þolir þá stundina. Tjáning og úrvinnsla þessarar tilfinningar hjá Vilhjálmi þetta kvöld er hins vegar til marks um skaðlegan mannkostaskort, og þá sérstaklega skertan tilfinningaþroska, skort á samkennd, stjórnlausa hvatvísi og hættulega ofbeldishneigð. Að sjúkdómsvæða skepnuskap er engu samfélagi til framdráttar.
Eru mannkostaskertir ofbeldismenn í felum hjá Guði?
Ofbeldismenn hafa oft hátt undir sauðargærunni. Sumir þeirra vitna hátt og snjallt í ritningar og túlka orð Drottins á þann hátt að það gefur röklausum geðþóttaskoðunum þeirra byr undir báða vængi. Þeir réttlæta alla frávikshegðun með miskunn eða vilja Drottins. Þessa aðferð hafa margir af hættulegustu mönnum mannkynssögunnar beitt í valdasókn sinni. Sumir þessara manna stofna trúfélög og gera sig að æðstapresti. Sumir sitja um þá sem eru jaðarsettir og þrá að tilheyra og móta þannig hina örvæntingarfullu að sinni heimsmynd. Sumir þeirra skrifa bækur um fortíð sína og glæpi án þess að gefa þolendum sínum gaum. Hrottaleg andfélagsleg hegðun selur, líka á Íslandi.
Baldur Freyr Einarsson reyndi að selja bók um ofbeldishegðun sína og upprisu í fyrra. Baldur Freyr starfaði áður sem handrukkari og fíkniefnasali og svo rak hann vændishús í Reykjavík. Í dag er hann predikari í lítilli kirkju og vinnur við ráðgjöf til reikulla sála. Árið 2002 var hann dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa átt þátt í að verða manni að bana og átti bókin að vera uppgjör hans og lofkall til Drottins. Móðir hins myrta sagði bókina hafa komið aftan að sér. Bókin hafi farið á skjön við staðreyndir, svert æru hins myrta og verið skrifuð í óþökk aðstandenda. Lýsti móðirin að bókarskrif Baldurs og opinbert tilkall hans til fyrirgefningar frá öllum áttum hafi komið sér aftur á byrjunarreit í sorgarferlinu. Það er auðséð að þörfin til að skína skært alla leið til Drottins er oft á skjön við þjáningar þolenda.
Sterk siðferðisleg sjálfsvitund á að vera sífellt og virkt ferli sem krefur einstaklinga um endurtekna gagnrýna hugsun og persónulega ábyrgð. Mannkostir eru eiginleikar sem fólk telur að það búi sjálfkrafa yfir og þurfi ekki að leggja neina rækt við. Sannleikurinn gæti ekki verið fjarri lagi. Manneskjan er í dag hrokafull með eindæmum. Við teljum okkur trú um að við séum alltaf góð og gild og erum uppteknari af því að benda á illgresi annarra fremur en að rækta eigin garð. Mannkostir eru eiginleikar sem prýða góða manneskju og mannkostaskortur er skerðing sem einkennir slappa, slæma eða vonda manneskju. Sterk tilfinningavitund er undirstaða mannkosta og því er mikilvægi mannkostamenntunar forsenda siðferðisþroska. Mannkostamenntun inniheldur þrautseigju, sjálfsaga og þolgæði og enn fremur siðferðislegar dyggðir á borð við góðvild, réttlætiskennd, hluttekningu, umhyggju, þakklæti og mikilvægi tilfinningalegra og siðferðislegra innlita í eigin vitund. Auðséð er út frá hegðun bæði Vilhjálms og Baldurs að við þurfum að líta á mannkosti sem lærða hegðun en ekki sjálfsögð og sjálfgefin persónuleikaeinkenni.
Dýrð sé Guði í upphæðum, en er iðrun á jörð?
Hin upphafða en á sama tíma skaðlega dyggð, sem eignuð er guðhræddu fólki og felst í takmarkalausum skilningi og fyrirgefningu allra synda, á rætur sínar að rekja meðal annars til feðraveldishugmynda og úreltra trúarlegra siðgæðishugmynda sem í dag eru í engu samræmi við alvarleika og afleiðingar ofbeldisverka. Kröfur um fyrirgefningu á forsendum gerenda og Guðs þeirra, eru móðgun við þolendur ofbeldis og þau sem þá styðja. Það situr betur með flestum að þeir sem gerast uppvísir um voðaverk í anda Vilhjálms eða Baldurs gangi í fulla ábyrgð, gerist hljóðlátir í iðrun sinni og borgi það sem þeim er gert að borga án múðurs. Svo var ekki staðreyndin í tilviki þeirra stallbræðra.
Þolandi Vilhjálms fór fram á sex milljóna króna í miskabætur. Hann viðurkenndi bótaskyldu en krafðist þess að bætur yrðu stórlega lækkaðar. Vilhjálmur viðurkenndi einnig glæp sinn einungis að hluta. Hann viðurkenndi vændiskaup og ákveðið ofbeldi, en krafðist sýknu af ákæru vegna frelsissviptingar, alvarlegrar líkamsárásar og nauðgunar. Hann fór fram á að honum yrði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Í máli Baldurs segir móðir hins myrta að Baldur hafi haft samband við sig og reynt að fá afslátt af miskabótunum sem hann var dæmdur til að greiða í Hæstarétti.
Lokaorð
Við notum Grýlu á ódælu börnin okkar en ofbeldismönnum mætum við með kærleiksríku og skilningsríku hjarta Drottins og glás af fyrirgefningu. Við ætlumst til að börn skilji að það eru afleiðingar af slæmri hegðun en þegar kemur að grófum ofbeldisverkum fullorðinna manna þá virðist guðskraftur birtast fyrirvaralaust og mætir ótrúverðugu iðrunarópi aumingja með útbreiddan faðminn. Ég hef lítið út á Drottin sjálfan að setja en set spurningarmerki við hversu fljót við erum að fela okkur bak við áætlaðan skilning hans og þolinmæði fyrir skepnuskap. Drottni hefur ekki alltaf verið lýst sem svo, það er meðvirku foreldri ofbeldismanna alheimsins. Einu sinni var hann refsandi og reiður Guð. Í fyrsta kafla Sefanía í Gamla testamentinu stendur: „Ég mun gereyða öllu af yfirborði jarðar,“ segir Drottinn. Hann talar þar líka um að hafa sérstaka óbeit á þeim sem beita svikum og ofbeldi í samskiptum. Sá Guð hafði fælingarmátt. Víti til varnaðar. Hroðalegur Guð. Menn á borð við Vilhjálm og Baldur væru eflaust hræddir við þann Guð.
Ég velti því fyrir mér hvort kristindómur á Íslandi sé að breytast í hagsmunasamtök fyrir einmana og hættulega ofbeldismenn. Mér er títt hugsað til guða gamalla tíma og annarra upprunasagna og hvort endurkoma þeirra í einhverri mynd gæti greitt götu þolenda í átt sinni að sanngirni og sátt við samfélagið. Ég hvet fólk til að hafa varann á gagnvart einstaklingum sem reyna að afmá ofbeldishegðun sína út frá nýfundnum persónulegum vinskap sínum við Guð. Þeim sem segjast ætla að helga líf sitt þjónustu og tala hátt máli dýrðar þess sem aldrei segir orð. Ef Guð er til, þá er ég viss um það að hann er ekki sáttur og viljugur til endalausrar syndaaflausnar í sínu nafni. Ég er viss um að honum sé ofboðið og, í einhverjum tilvika, að hann hyggi á hefndir. Lof sé Drottni.
Athugasemdir