Framleiðendur Áramótaskaupsins neituðu að greiða söngvurunum sem tóku upp lagið um konuna sem gleymdi poka fyrir vinnu sína samkvæmt taxta. Það gerðu þeir þrátt fyrir samskipti milli tónlistarstjóra Skaupsins og forsvarsmanna sönghópsins Kyrju, þar sem fram kom að greitt yrði samkvæmt samningum. Samkvæmt taxta hefði átt að greiða söngvurunum rúmar 50 þúsund krónur hverjum en framleiðendurnir hugðust greiða sönghópnum það í heildina. Þá hótuðu framleiðendur Skaupsins því að atriðið yrði tekið úr Skaupinu, héldi sönghópurinn fast við kröfur sínar.
Ljóst virðist að þrátt fyrir mikla og almenna ánægju landans með Áramótaskaupið 2022 hafa ýmsar brotalamir verið í framleiðslunni. Þannig greindi Heimildin frá því að Dóra Jóhannsdóttir, leikstjóri Skaupsins, hefði sent RÚV skýrslu þar sem hún kvartaði yfir óeðlilegri framgöngu framleiðslufyrirtækisins S800 sem framleiddi Skaupið. Framleiðendur þess voru Sigurjón Kjartansson, Eiður Birgisson og Hjörtur Grétarsson. Þá greindi Heimildin einnig frá því að aðeins munaði hársbreidd að Spaugstofan neitaði að taka þátt í Skaupinu, þar sem ekki átti að borga meðlimum fyrir vinnu þeirra.
Tónninn breyttist eftir upptökur
Svipað var uppi á teningunum varðandi sönghópinn Kyrju, sem fenginn var til að syngja hið alþekkta lag Páls Ísólfssonar, Brennið þið vitar, með nýjum texta sem fjallaði um skömm þá sem kona, leikin af Sögu Garðarsdóttur, gerðist uppvís að þegar hún gleymdi að taka með sér innkaupapoka í ferð í matvöruverslun.
„Það var haft samband við okkur og við beðin um að syngja þetta,“ segir Sólveig Sigurðardóttir, sem er hluti af listrænu teymi Kyrju. Kyrja er aðeins skipuð karlsöngvurum en framleiðendur Skaupsins óskuðu eftir að það yrðu einnig kvenraddir í söngnum og sungu því Sólveig og Ragnheiður Sara Grímsdóttir einnig á upptökunni auk þess sem Sólveig útsetti lagið.
Kyrju meðlimir voru á samskiptum við tónlistarstjóra Skaupsins, Ásgeir Orra Ásgeirsson, varðandi verkefnið, þar á meðal greiðslur fyrir það. „Svarið var að það væru til staðar taxtar sem RÚV færi eftir og vísað í kjarasamning FÍH og RÚV. Í þeim er skýrt að greiðslan ætti að vera í kringum 50 þúsund krónur á mann. Svo við gerum þetta. Síðan, þegar búið var að taka upp sönginn, fórum við að spyrjast fyrir um fyrirkomulag á greiðslum, hvort við ættum að rukka í einu lagi sem Kyrja eða hvort við ættum hvert og eitt að senda reikning. Þá kom svarið: Nei, við borgum kór eins og einum einstaklingi,“ segir Sólveig.
Alls tóku tíu manns þátt í upptökunum á laginu, átta söngvarar úr Kyrju og þær Sólveg og Ragnheiður Sara. Hefði því verið greitt eins og framleiðendur Skaupsins ætluðu sér hefði hver söngvari fengið í sinn hlut 5.376 krónur.
Skýrt er í samningi milli RÚV og Félags íslenskra hljómlistarmanna, FÍH, að greiða á hverjum tónlistarmanni sérstaklega en ekki kórum eða hljómsveitum sameiginlega. Þá rímar þessi nálgun alls ekki við þau skilaboð sem fóru á milli Ásgeirs Orra og Kyrju. Þar sagði: „[...]Upphæð pr. mann er 53.758.- kr. Einungis er greitt fyrir þá sem koma fram í atriðinu.“ Þetta er greiðslan fyrir kórinn sem ég réð í síðasta verkefni fyrir RÚV.“
Engin vafi að borga á tónlistarfólki samkvæmt FÍH
Gunnar Hrafnsson, formaður FÍH, var upplýstur um málið af hálfu Kyrju. Hann segir í samtali við Heimildina að enginn vafi sé á því að greiða skuli hverjum flytjanda sérstaklega, samkvæmt kjarasamningi RÚV og FÍH. Þá er meira að segja tilgreint í samningnum að semja skuli sérstaklega um greiðslu fyrir útsetningar á tónlist. Gunnar segir að enginn ágreiningur sé um þetta milli FÍH og RÚV.
„Þetta er algjör svívirða“
Hins vegar hafi RÚV vísað frá sér ábyrgð í málum þar sem samið hafi verið við verktaka, framleiðanda, um ákveðin verkefni. Því er Gunnar alveg ósammála. „Ég held því fram að þeir beri keðjuábyrgð, þeir beri ábyrgð á því að fólk fái greitt samkvæmt þessum kjarasamningi. Í samtali mínu við Stefán Eiríksson útvarpsstjóra kom hins vegar fram að það sé skilningur Ríkisútvarpsins að þeir geti samið við hvern sem er um framleiðslu á efni, fyrir ákveðna upphæð, sem eru augljóslega það sem gerðist varðandi Áramótaskaupið. Svo segi þeir bara: Það er síðan þitt mál að díla við hvað þú ætlar að borga fólki og þar með kemur það RÚV ekki frekar við.“
Gunnar segir að nú sé að fara fyrir félagsdóm mál af þessu tagi, fyrir hönd 20 einstaklinga sem hver um sig spiluðu á milli 50 og 60 mínútur af útvarpsefni en fengu aðeins greiddar tíu þúsund krónur hver frá Jazzhátíð Reykjavíkur, í verktakagreiðslu. „Þetta er algjör svívirða,“ segir Gunnar og bætir að hann voni mjög heitt að umrætt mál falli tónlistarmönnum í vil.
Atvinnumenn í söng
Ljóst er, af samskiptum Kyrju og framleiðenda Skaupsins, að upphaflega stóð til að greiða hverjum söngvara eftir taxta kjarasamningsins. Eftir að upp rann fyrir framleiðendum að kostnaðurinn við það næmi rúmri hálfri milljón og þeir hugðust því sleppa úr snörunni, hefði hver söngvari sem fyrr segir fengið í sinn hlut rúmar fimm þúsund krónur, fyrir að hafa útsett, æft og tekið upp lagið, með stuttum fyrirvara og á skömmum tíma. „Það er náttúrulega fáránlegt. Það vinnur enginn annar svona. Við vorum vitanlega ekki sátt við þetta enda vorum við skýr í samskiptum og fengum upplýsingar um að það ætti að greiða eftir samningi,“ segir Sólveig.
„Við vorum búin að vinna vinnuna og fyrir hana hefði átt að borga“
Öll þau sem tóku þátt í atriðinu eru atvinnufólk í músík, segir Sólveig. „Að svo miklu leyti sem það eru atvinnumenn í söng á Íslandi þá er þetta fólk allt atvinnumenn í söng. Ég vinn alfarið við tónlist og ég myndi segja að slíkt hið sama eigi við um alla vega helming hópsins. Við erum öll sprenglærðir og reyndir músíkantar. Þess vegna er alveg hlálegt að segja að ef það hefði verið vitað hvað þetta myndi kosta, þá hefðu bara verið fengnir einn eða tveir söngvarar, sem var það sem var sagt við okkur þegar við fórum að inna eftir greiðslunum. Þetta gerir mjög lítið úr okkar vinnu. Við unnum þetta með mjög litlum fyrirvara, mjög hratt og mjög vel. Það eru svona hlutir sem þú færð þegar þú færð atvinnufólk í vinnu.“
Hrósar samskiptum við Dóru leikstjóra
Það samdist á endanum um að greiðslan var hækkuð upp í 100 þúsund krónur fyrir allan hópinn, fyrir upptökuna, og að greiddar yrðu 100 þúsund krónur fyrir leik söngvaranna í atriðinu sjálfu. Það gerðist þó ekki fyrr en eftir að framleiðendur hótuðu því að atriðið yrði hreinlega ekki með. „Þeir hótuðu því að taka sketsinn úr Skaupinu ef við samþykktum ekki. Það er vitanlega út í hött, því við vorum búin að vinna vinnuna og fyrir hana hefði átt að borga, alveg sama hvort atriðið yrði sýnt eða ekki. Þeir notuðu það sem röksemd að við værum að fá kynningu á okkur með því að vera í Skaupinu. Sú kynning er samt mjög takmörkuð því við erum auðvitað ekki að koma fram í atriðinu undir nafni. Svo var það þannig að í kreditlistanum stóð Kyrja en nöfnin okkar kvennana komu ekki fram, hvorki mitt nafn né nafn Ragnheiðar Söru Grímsdóttur,“ segir Sólveig enn fremur og bætir við að þar sé sannarlega ekki við tónlistarfólkið sjálft að sakast, listi með nöfnum þeirra allra hafi verið sendur á framleiðendur.
Sólveig nefnir sérstaklega að söngvararnir séu á engan hátt ósáttir við Dóru Jóhannsdóttur leikstjóra Skaupsins, óánægja þeirra beinist eingöngu gegn framleiðendum Skaupsins. „Við vitum að Dóra vissi ekki af þessu og við höfum ekkert við hana sakast, hvorki Dóru né Sögu [Garðarsdóttur]. Öll okkar samskipti við þær voru mjög góð, á allan hátt.“
Sólveig segir að eftir því sem fleira hafi komið fram um vinnubrögð framleiðenda við vinnslu Skaupsins sjáist hvernig mynstrið sé. „Það að Dóra hafi ekki fengið að sjá fjárhagsáætlun, það hvernig málum var háttað varðandi lokalagið, það púslast ýmislegt saman. Eftir á að hyggja líka, þegar kom fram að Dóra og Saga hefðu þurft að berjast sérstaklega fyrir því að halda þessum skets inni í Skaupinu, þá vorum við fegin að hafa samþykkt þetta og að atriðið hélst inni í Skaupinu, þeirra vegna.“
Fyrirvari: Einn meðlima sönghópsins Kyrju, Jón Ingi Stefánsson, er starfsmaður Heimildarinnar og í eigendahóp fjölmiðilsins.
Athugasemdir (1)