Áramótaskaupið lagðist að því er virðist óvenju vel í þjóðina í þetta skiptið og fékk verðskuldað og almennt lof. Lokalagið og skets um plastpokaskömm, með tilheyrandi söng, hittu að því er virðist sérstaklega í mark og brenndu sig inn í heila margra.
Það að koma Skaupinu út og þá sérstaklega þessum tveimur atriðum í því, gekk þó langt í frá átakalaust. Þetta kemur fram í skýrslu leikstjórans, Dóru Jóhannsdóttur, sem send var RÚV viku fyrir jól. Þar lýsir hún því hvernig framleiðendur Skaupsins hafi í raun hætt vinnu við Skaupið óklárað. Ástæðuna segir hún hafa verið viðbrögð þeirra við spurningum um eignarhald á framleiðslufyrirtækinu, athugasemdum um vöruinnsetningar í mynd og krafa hennar um að fá að sjá fjárhagsáætlun, sem þeir hafi neitað.
„Leikstjóri vil vita hvort framleiðendur hafi á einhvern hátt gerst brotlegir gagnvart samning sínum við RÚV með hegðun sinni. Þeir hafi að mörgu leyti hætt að sinna skyldum sínum í verkefninu eftir að fréttin í Stundinni birtist og leikstjóri spurði út í það og annað,“ segir í bréfi Dóru til dagskrárstjóra RÚV sem dagsett er 17. desember.
Einn, tveir Selfoss
Heimildin hefur bréf Dóru til RÚV undir höndum. Þar er því lýst hvernig frétt Stundarinnar um eignarhald Kristjáns Vilhelmssonar, eiganda Samherja, á framleiðslufyrirtækinu, S800, og tengslum þess við fasteignafélagið Sigtún, sem á og reisti nýja miðbæinn á Selfossi, hafi komið Dóru og fleirum í opna skjöldu. Ekki síst í ljósi þess sem á undan hafði gengið þar sem mikil áhersla hafði að sögn verið á að tökur á Skaupinu færu fram í Nýja-miðbænum á Selfossi.
„Pressan að fara á Selfoss var mjög mikil frá fyrsta degi. Ekkert var hlustað á sí endurteknar óskir leikstjóra um að fara ekki þangað í tökur og finna frekar aðrar lausnir á spítalarými til að missa ekki dýrmætan tökutíma í ferðalög. Af einungis 8 tökudögum eru 2-3 tímar í óþarfa ferðalög mjög dýr," segir í bréfi Dóru þar sem vísað er til þess að svar starfsmanna framleiðslufyrirtækisins við neitunum hennar um að taka upp á Selfossi, hafi alltaf verið að að slíkt væri eindregin vilji Sigurjóns Kjartanssonar, yfirframleiðanda Skaupsins og helmingseiganda S800, sem framleiddi Skaupið.
Í samtali við Heimildina segir Sigurjón Kjartansson að ástæðan fyrir því fara hefði þurft á Selfoss í tökur hefði verið sú að nauðsynlegt hefði verið að taka upp atriði sem gerðist á sjúkrahúsi. Að slíku sé ekki hlaupið á höfuðborgarsvæðinu. „Það er mjög vel þekkt að fara þurfi út úr bænum til að taka upp á spítala því það er ill finnanlegt rými til þess annars staðar.“
„Engan veginn, enda sést hann ekki.“
Í samtali við blaðamann Stundarinnar í nóvember síðastliðnum fullyrti Sigurjón að engar útitökur hefðu farið fram á Selfossi. Það er hins vegar ekki rétt því meðal annars var sena þar sem hann sjálfur lék verðbólgudrauginn tekin úti, á Selfossi, með Ölfusárbrúna í baksýn. Sigurjón segir að honum hafi hreinlega yfirsést að nefna það á sínum tíma. „Þetta er smá bútur sem tilheyrir öðrum skets og það sést ekkert að þetta sé á Selfossi.“
Þannig að það var ekki sérstakt markmið í sjálfu sér að Selfoss, bærinn sem slíkur, sæist í Skaupinu?
„Engan veginn, enda sést hann ekki.“
Selfossáherslan vakti ekki áhyggjur RÚV
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarps, segir við Heimildina að RÚV hafi ekki verið sérstaklega upplýst um meintan þrýsting um að tökur færi fram á Selfossi, og í raun hafi RÚV ekki sérstaka skoðun á slíku. Val á tökustöðum sé eitthvað sem fari fram á milli framleiðenda og leikstjóra og RÚV hafi ekkert um það að segja. „Við lítum á þetta sem listrænt úrlausnarefni þeirra á milli og þekkjum ekki hvað býr þar að baki, annað þá en praktísk úrlausnarefni.“
„Annars fór ekki fram neitt samtal sérstaklega um hvar Skaupið yrði tekið upp“
Vakti það einhverjar áhyggjur á RÚV þegar greint var frá eignarhaldi á framleiðslufyrirtækinu, staðsettu á Selfossi og beintengdu nýjum miðbæ Selfoss, að það væri með einhverjum hætti verið að ota bænum áfram og nota til þess Áramótaskaupið?
„Nei, þarna á í hlut framleiðslufyrirtæki sem staðsett er á Selfossi. Rétt eins og framleiðslufyrirtæki sem staðsett eru á höfuðborgarsvæðinu hafa tilhneigingu til að framleiða sitt efni á höfuðborgarsvæðinu þá þarf ekki að koma á óvart að það vilji framleiða sitt efni á Selfossi. Annars fór ekki fram neitt samtal sérstaklega um hvar Skaupið yrði tekið upp. Það er eitt af því sem við rýnum við lokayfirferð, hvort sem er Skaupsins eða annars efnis sem framleitt er fyrir okkur, hvort eitthvað sé óvenjulegt við val á tökustöðum.“
Og það var ekki hægt að greina slíkt?
„Nei, við gátum ekki séð að svo væri.“
Sama krónutala ár eftir ár í Skaupið
Dóra segir ennfremur í bréfinu til forsvarsmanna RÚV að þessi áhersla á að verja dýrmætum tíma í flutning tökuliðs og leikara á Selfoss, hafi verið enn furðulegri í ljósi þess að á sama tíma hafi framleiðslufyrirtækið sniðið leikstjóra óvenju þröngan stakk þegar kom að tökudögum. Það er einungis átta dagar í stað ellefu eins og verið hefði undanfarin ár. Þá hafi verið skorið töluvert niður víða við framleiðslu Skaupsins, sem skapað hafi tilheyrandi erfiðleika.
Spurður hvort rétt sé að mikið hafi verið skorið niður við framleiðslu Áramótaskaupsins í fyrra segir Sigurjón að það sé rétt. „Að sjálfsögðu var skorið niður af því að allt hefur hækkað svo mikið síðan að síðasta Skaup var framleitt. Við vorum með mjög lítið budget, budget á Skaupinu hefur ekki hækkað síðan að ég held 2016, það hefur verið sama krónutala síðan þá.“
Skarphéðinn staðfestir að framlag RÚV hafi verið hið sama til áramótaskaupsins 2022 og var árið áður, að krónutölu. Hann segir enn fremur að RÚV hafi ekki verið ljóst að framleiðandi hefði fækkað tökudögum og skorið niður í framleiðslu Skaupsins frá því sem verið hafði. „Við gerum samning við framleiðslufyrirtæki og það ábyrgist að skila til okkar Skaupi sem uppfyllir þær kröfur sem við gerum.“
RÚV fann ekki vísbendingar um spons
Dóra nefnir einnig í skýrslu sinni til RÚV að starfsmenn framleiðslufyrirtækisins og leikstjórinn hafi deilt um ítrekaðar tilraunir framleiðendanna til að reyna að koma duldum auglýsingum inn í Skaupið. Svokölluðu sponsi. Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið er vöruinnsetning bönnuð í efni sem sýnt er og framleitt fyrir RÚV. Engu að síður virðist sem tiltekin vörumerki hafi átt að fá sinn sess í áramótaskaupinu vegna samninga framleiðenda við þau.
„Þetta er ekki spons, það er líka ekki leyft“
Spurður, neitar Sigurjón því staðfastlega. „Nei, það var ekkert svoleiðis. Öll skaup hafa verið unnin þannig að það er kannski gerður samstarfssamningur við ákveðna aðila, gegn einhverjum afslætti. Þetta er ekki spons, það er líka ekki leyft.“
Voru þá slíkir samningar gerðir núna?
„Það voru einhverjir afslættir hér og þar.“
En fólu þessir samningar í sér að vörur viðkomandi fyrirtækja kæmu fram í Skaupinu?
„Engan veginn. Það er þakkarlisti í lokin og ef menn skoða þetta með þessum gleraugum þá sjá menn ekki að einhverju sérstöku brandi umfram önnur hafi verið ýtt þarna að. Þetta er auðvitað alltaf ákveðið matsatriði, ef þú ferð í leikið efni til að mynda sem gerist í sjoppu þá er allt þar fullt af vörum sem koma í mynd. Það eru þarna senur sem gerast í mathöll hjá okkur. Þú veist ekkert hvað er samkvæmt svona samningi eða ekki og þetta kemur hvort eð er allt fram í þakkarlistanum.“
En bíddu, þegar þú segir að fólk viti ekki hvort eitthvað sé í mynd samkvæmt samningi eða ekki, má þá skilja þig svo að eitthvað hafi birst í mynd í Skaupinu vegna þess að gerðir hefðu verið slíkir samningar?
„Nei, ekkert. Þú sérð þakkarlistann, þar birtast einhverjir sem við gerðum samninga við. Það er eina birtingin.“
Spurður hvort að RÚV hafi kannað sérstaklega, í ljósi bréfs Dóru, hvort finna mætti spons, eða vöruinnsetningar, í Skaupinu svarar Skarphéðinn Guðmundsson því til að það hafi að sjálfsögðu verið gert. „Þegar við fáum einhvern grun um slíkt bregðumst við við því. Við könnuðum það því sérstaklega.“
Og hver var niðurstaðan af þeirri könnun?
„Að svo væri ekki. Framleiðendur fullyrtu að svo væri ekki og þegar við skoðuðum Skaupið var ekkert sem benti til þess sérstaklega.“
Hefur RÚV vitneskju um að slíkt hafi þá verið klippt út í eftirvinnslu?
„Nei, RÚV hefur ekki vitneskju um að neitt hafi verið klippt út til að fjarlægja vöruinnsetningu. Vinnulag okkar er að skoða endanlega útgáfu og sé ekkert sem bendir til vöruinnsetninga í lokaafurð, þá uppfyllir efnið kröfur okkar. Það er fast ákvæði í samningum RÚV við alla framleiðendur að öll vöruinnsetning óheimil og á ábyrgð framleiðenda að engin slík sé staðar.“
Skorið á samskipti og Dóra sögð erfið
Í bréfinu segir Dóra að þegar henni varð ljóst að eigendur Nýja-miðbæjarins á Selfossi væri eigendur framleiðslufyrirtækisins með Sigurjóni, eftir að Stundin birti fréttir um eignarhaldið á S800, hafi hún áttað sig á „Selfoss-pressunni“ og farið fram á skýringar á því, vöruinnsetningum og hvers vegna hún hefði ekki fengið að sjá fjárhagsáætlun Skaupsins, eins og sögð er venjan í slíkum verkefnum. Viðbrögð starfsmanna framleiðslufyrirtækisins hafi komið henni í opna skjöldu.
„Leikstjóri upplifir að framleiðslan hafi hagað sér mjög óeðlilega gagnvart henni“
„Framleiðandi og aðstoðarleikstjóri hætta samskiptum við leikstjóra þrátt fyrir að tökur á lokalagi og pikkup tökur væru eftir,“ skrifar Dóra í bréfi sínu og lýsir því að skýringin sem hún hafi fengið, frá Sigurjóni, hafi verið sú að umræddir menn hafi lýst því að svo erfitt væri að vinna með henni. Það hefði hann sjálfur þó ekki upplifað, hefur Dóra eftir Sigurjóni. „Leikstjóri upplifir að framleiðslan hafi hagað sér mjög óeðlilega gagnvart henni og hafi ætlað að koma sér undan að þurfa að svara óþægilegum spurningum hennar með því að mála hana upp sem erfiða í samskiptum á seinustu metrum verkefnisins,“ skrifar Dóra enn fremur.
Heimildin innti Sigurjón eftir þessu og spurði hvers vegna hann, sem yfirframleiðandi, hefði látið það viðgangast að framleiðandi og aðstoðarleikstjóri hefðu klippt á samskipti við Dóru, leikstjóra Skaupsins, þegar enn átti eftir að taka senur. „Ég ætla ekki að svara fyrir þá. Þetta voru bara erfið samskipti sem þau áttu,“ segir Sigurjón.
En áttir þú í erfiðleikum með að eiga í samskiptum við Dóru, nú eða þá?
„Nei nei, ég var bara þarna að reyna að láta þetta allt saman ganga upp.“
En hafðir þú ekki áhyggjur af þessari stöðu? Þarna átti eftir að taka mikilvægan þátt í Skaupinu, lokalagið, auk annars. Var það ekki áhyggjuefni að svona væri komið?
„Jú absalút. Enda unnum við bara öll að þessu, að klára tökur og það tókst.“
RÚV á hliðarlínunni
Skarphéðinn segir að RÚV hafi verið upplýst um að samskipti leikstjóra og framleiðenda væru erfið, og raunar svo erfið að á þau hefði verið klippt áður en Skaupið var tilbúið. RÚV hafi verið sett inn í málið af Dóru og hafi virkað sem milliliður milli hennar og framleiðenda við að miðla málum. Slíkt væri ekki óþekkt. Spurður hvort RÚV hefði þá stigið inn í framleiðsluna á Skaupinu, þar á meðal varðandi tökur á lokalaginu, svarar Skarphéðinn því ekki beint. „Við fylgjumst alltaf með á hliðarlínunni og við reynum alltaf að bregðast við og leggja svona framleiðslu lið eftir þörfum.“
Með hvaða hætti var það gert við vinnslu þessa áramótaskaups?
„Það hefur alltaf loðað við Skaupið að það hefur verið ákveðinn vilji framleiðenda að vinna ákveðna þætti þess hér í húsi. Eins og með lokaatriðið þá hefur það gerst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að það hefur verið framleitt í stúdíóinu okkar, enda það eitt af örfáum stúdíóum á landinu sem eru nothæf í slíkt.“
Oddfellow og Mæðrastyrksnefnd hagnast
Í bréfi Dóru kemur fram að vegna þessarar stöðu hafi hún, og Saga Garðarsdóttir handritshöfundur, þurft að taka á sig mikla aukavinnu við skipulagningu, meðal annars við tökur á atriðinu um konuna sem gleymir poka og einnig lokalagsins. Þá hafi Dóra þurft að biðja RÚV um að greiða útgjöld Bríetar, aðal stjörnu lokalagsins, vegna búninga, sökum þess að þær greiðslur komu ekki frá framleiðendum. Flytjendur hafi einnig ekki fengið greitt fyrir sína vinnu.
Sigurjón segir hins vegar að þetta sé algjör misskilningur. „Það var algjörlega búið að ræða þessi mál við þá sem að þessu komu og semja um þessi mál. Ég get ekkert svarað fyrir hennar upplifun af þessu. Það var þannig að þeir sem komu fram í lokalaginu gáfu vinnu sína til góðgerðarmála. Þetta var ákveðin lausn sem við fundum, að við myndum styrkja Mæðrastyrksnefnd um ákveðna summu. Það voru margir þjóðþekktir einstaklingar sem komu þarna fram og öllum var kynnt þetta rækilega.“
Hefur sá styrkur verið veittur?
„Já, allt í allt var þetta 580 þúsund. 500 þúsund voru veittar í stuðning við Mæðrastyrksnefnd og 80 þúsund var veitt til Oddfellow, að beiðni leikara. Þessir styrkir hafa þegar verið greiddir.“
RÚV þurfti að greiða fyrir búninga utan samningsins
Heimildin spurði Skarphéðinn hvort RÚV hefði neyðst til að greiða eitthvað umfram samning sinn við framleiðslufyrirtækið S800. Skarphéðinn sagði að svo hefði verið en það væru ekki teljandi fjárhæðir.
Geturðu nefnt einhver dæmi þess?
„Ekkert í smáatriðum, þetta voru engar verulegar fjárhæðir, bara eitthvað sem fallið hefur til og er þá samþykkt af okkur að standa undir þeim kostnaði.“
Var það þá gert að beiðni leikstjóra, Dóru?
„Leikstjóra, já.“
Er það rétt að RÚV hafi þurft að greiða fyrir búninga eða búning fyrir flytjanda lokalagsins?
„Já, við komum að því. Við brugðumst við með skömmum fyrirvara og féllumst á að afgreiða það, enda eins og ég segi, þá var um óverulegar fjárhæðir að ræða. Til þess að láta allt ganga upp þarf stundum að bregðast hratt við.“
Segir framlag Sigurjóns hafa verið lítið
Í bréfi Dóru lýsir hún því að samskipti hennar við Sigurjón, yfirframleiðanda, hefðu verið stopul, hann hafi svarað henni bæði seint og illa. Sigurjón segir að það sé ekki sín upplifun, hann hafi reynt að svara Dóru eftir bestu getu og hafi oft verið að svara sömu spurningunum oftar en einu sinni.
Dóra segir enn fremur í bréfinu að Sigurjón hafi gefið lítið af sér við samningu Skaupsins, sem hann hafi þó verið meðhöfundur að. Hann hafi mætt á fáa höfundafundi og lítið sem ekkert skrifað. Sigurjón kannast ekki við þetta. „Ég vísa þessu nú til föðurhúsanna. Ég var reyndar alveg búin að upplýsa leikstjóra um það, strax í byrjun þegar hún leitaði til mín um að vera í höfundahópnum, að ég myndi ekki vera mjög mikið viðstaddur, þar sem ég var í ýmsu öðru líka. Það eru líka töluvert miklar annir tengdar því að framleiða Skaupið. Þannig að ég var alveg búinn að veifa því strax í byrjun. Hins vegar get ég ekki sagt að ég hafi lagt eitthvað minna af mörkum heldur en aðrir. Það er alltaf dálítið afstætt líka, fólk á þetta mikið í einum skets og einhver annar í öðrum. En mér finnst leiðinlegt að heyra að Dóra sé að halda þessu fram.“
„Mér finnst mjög leiðinlegt að Dóra sé að fara niður þennan veg“
Eins og greint er frá að framan óskaði Dóra eftir svörum um hvort framleiðslufyrirtækið, S800, hefði gerst brotlegt við samning sinn við RÚV, með hegðun sinni. Þegar Heimildin innti Skarphéðinn eftir því hvort RÚV telji að framleiðendur Skaupsins hafi uppfyllt þann samning sem gerður var svarar hann: „Við getum alveg staðfest það að þessi framleiðandi skilaði til okkar afskaplega vel heppnuðu Skaupi, það sem við höfum greint er að það sé samdóma álit þjóðarinnar. Það er það sem við semjum við framleiðanda um. Það sem síðan á sér stað milli framleiðenda, leikstjóra og annarra sem koma að gerð Skaupsins, það er þeirra á milli.“
Mun þetta hafa einhver áhrif á frekara samstarf RÚV við framleiðslufyrirtækið, eða hvort gerðar verði breytingar á framleiðslu næsta Skaups?
„Við drögum alltaf ákveðinn lærdóm af þeim verkefnum sem við tökum þátt í. Það er ýmislegt sem kemur upp við svona framleiðslu og við drögum okkar lærdóm af þessu, sem og öðru. Við vegum og metum allt samstarf og okkar viðskipti út frá hverju verkefni fyrir sig og hvaða mat við leggjum á hvernig til hefur tekist og hvernig samstarfið tókst.“
Þannig að það er ekki hægt að slá neinu föstu um það?
„Nei, alls ekki.“
Þegar Sigurjón var spurður hvernig það slægi hann að heyra lýsingar Dóru á framleiðsluferli Skaupsins, og samskiptunum, svaraði hann því til að honum þætti það leiðinlegt. „Mér finnst mjög leiðinlegt að Dóra sé að fara niður þennan veg, mér þykir það miður. Ég sé ekki betur en að við höfum gert alveg frábært Skaup svo að þetta slær mig ekkert sérstaklega vel.
Rétt er að hnykkja á því Dóra var ráðinn sem leikstjóri Áramótaskaupsins af RÚV og bar því í raun skylda til að upplýsa þá vinnuveitendur sína um stöðu mála, bæði á meðan á framleiðsluferlinu stóð og eins eftir að framleiðslunni var lokið, með því að skila skýrslunni til RÚV.
Spurður hvort hann teldi að með þessu væri tekið fyrir frekara samstarf hans og Dóru í framtíðinni vildi Sigurjón engu svara um það. „Það eina sem ég vil segja er að mér þótti Dóra standa sig mjög vel sem leikstjóri á þessu Skaupi og hún gerði frábært Skaup.“
Samstarfið vonbrigði
Dóra sagðist í samtali við Heimildina ekki vilja tjá sig um bréfið, þar sem það væri trúnaðarmál. Hún kvaðst fyrst og fremst þakklát þeim sem lögðu allt í að gera gott Skaup og þakklát fyrir viðtökur. „Framleiðslan olli mér miklum vonbrigðum en ég er reynslunni ríkari eftir þetta ferli. Framleiðslan hafði ekki áhrif á efnistökin sem betur fer, en ef við Saga [Garðarsdóttir] hefðum ekki tekið á okkur ábyrgð sem framleiðslan vildi ekki taka á sig fyrir Poka-sketsinn og Lokalagið, þá hefðu þau atriði ekki verið með,“ sagði Dóra og kvaðst aðspurð ekki sjá fyrir sér að eiga frekara samstarf við fyrirtækið.
„Framleiðslan olli mér miklum vonbrigðum“
„Leikarar og crew brunnu fyrir þessu verkefni og margir lögðu á sig meira en þau fengu borgað fyrir og það er þeim öllum að þakka að við gátum við gert þetta Skaup undir þeim kringumstæðum sem framleiðslan bauð upp á,“ sagði Dóra ennfremur og bætti við að aðalatriðið væri lokaafurðin, sem hún og samstarfsfólk hennar séu stolt af.
Athugasemdir (4)