Gamlársdagur er oftast hefðubundinn í mínu koti. Ég stend í matarstússi og spúsi snýst í kringum mig. Við hlustum á uppgjörið við árið í sjónvarpinu, horfum með öðru auganu. Mamma gerir ís í sínu eldhúsi. Svo koma þau pabbi keyrandi upp brekkuna undir kvöldið, með ísinn.
Þennan gamlársdag hringdi mamma í vandræðum um hádegi, ekki með ísinn heldur með landsstjórnina. Hún var að leita að ráðherrunum. Við lögðum frá okkur sleifarnar og saman gerðum við dauðaleit að áramótasamtali ríkisstjórnarinnar á RÚV. Það er klassískur endir á árinu að hlusta á staffið okkar allra gera upp árið og horfa fram á við. Hlusta og horfa með öðru auganu yfir pottunum og pexa með. Vera hluti af þessari vandamálafjölskyldu á tímamótum. En ekkert fannst. RÚV fór ekki yfir árið með ráðherrum í sjónvarpssal og hefur kannski ekki gert í mörg ár. Hvað veit ég?
En Gísli Marteinn var endursýndur yfir sósugerðinni á meðan við mæðgur fundum út úr því að ráðherrarnir okkar allra yrðu í Kryddsíld á Stöð tvö klukkan tvö í lokaðri dagskrá. Opinberir starfsmenn í vinnu hjá almenningi öllum sátu við að gera upp árið á síðasta degi ársins á lokuðum skemmtifundi með áskrifendum einkafyrirtækis úti í bæ.
Við fengum svakalega höfnunartilfinningu, sérstaklega mamma. Við sem erum báðar áskrifendur að lýðveldinu Íslandi, borgum alltaf áskriftargjöldin þar , en fáum ekki að taka þátt í ársuppgjörinu með hatta og hvellhettur. Niðurstaðan úr þessu langa langa símtali okkar mæðgna á gamlársdag var að ef RÚV sæi ekki sómann í því að gera upp árið og horfa til framtíðar með ráðherraliðinu þá ætti ríkisstjórnin, staffið okkar, að gera það að skilyrði að uppgjör og spjall um okkur öll og stóru áskrifendurna sem við erum, fari fram í opinni dagskrá fyrir alla landsmenn,annars ættu þeir ekki að mæta.
Þar sem við mamma þeyttum ís og hrærðum og bökuðum sætkartöflumús í mangó-kókos fannst okkur að staffið í stjórnarráðinu ætti alltaf að muna hver vinnuveitandinn er og hvar hann er. Þennan gamlársdag var vinnuveitandinn, íslenska þjóðin, að hræra í pottum með endurteknum Gísla Marteini á meðan ríkisstjórnin var í harðlæstu einkapartýi að gera upp þjóðmálin með útvöldum áskrifendum. Sjálfsagt hefur fleirum blöskrað en okkur mömmu því næsta eða þarnæsta dag á nýju ári birtist rammlæsti ríkisstjórnarþátturinn og nú galopinn og glaður. Við, pöpullinn, fengum að horfa þegar allt var yfirstaðið og um garð gengið, fengum að taka þátt í samtalinu þegar það var löngu búið. Það er kannski gömul saga og ný.
En er þetta nokkuð stórmál, tautaði ég við mömmu en hún svaraði með þjósti: Jú, víst, er það stórmál! Það eru litlu kubbarnir sem styrkja lýðræðið. Hvernig við horfum á heiminn og hvernig samtöl við viljum eiga hvert við annað. Þar þjóna fjölmiðlar lykilhlutverki og auðvitað kjörnir fulltrúar. Saman búa þeir til litla forréttindaklúbba og styrkja þá með allskonar svona rugli.
Já, en þeir þarna á einkastöðinni opnuðu samt þáttinn á nýju ári?
Iss, það er of seint. Það er skítaredding og áreiðanlega út af þrýstingi og enginn skammast sín eða biðst innilega afsökunar. Og RÚV á að sjá sóma sinn í að sinna þjóðinni allri en ekki spila gamlan Gísla Martein endalaust yfir okkur. Þótt hann sé yndislegur, bætti hún við, mildari rómi.
Kókosmangósætkartöflumúsin heppnaðist samt mjög vel þarna á gamlársdag og ísinn var æðislegur eins og alltaf. En mikið óskaplega hefðu ráðherrarnir gott af því að sitja í lokuðu einkapartýi með henni mömmu eitt síðdegi.
Athugasemdir (7)