Pétur Krogh Ólafsson stóð frammi fyrir vanda. Hann myndi brátt missa vinnuna. „Brátt“ er reyndar afstætt orð, rétt eins og „strax“. Pétur sá fram á að missa vinnuna eftir rúmt ár, en er ekki ráð nema í tíma sé tekið. Svo Pétur útvegaði sér nýja vinnu þegar í stað, svo hann þyrfti ekki að bíða í óvissu þetta síðasta ár í gömlu vinnunni sinni.
Hann sá í hendi sér nýtt djobb sem hann langaði til að gegna og sjá – fyrr en varði var Pétur kominn í nýja starfið.
Og Pétur, sem var aðstoðarmaður Dags B. Eggertssonar, er þess vegna núna orðinn þróunar- og viðskiptastjóri Veitna, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur.
Þetta var nú gott. Varla vildum við að Pétur þyrfti að vera í óvissu um lífsviðurværi sitt og framtíð yfirleitt?
Nei, það vildum við ekki.
Ekki fyrst Pétur var aðstoðarmaður borgarstjórans.
Sómamaður?
Það skal tekið skýrt fram að ég hef ekkert á móti Pétri Krogh Ólafssyni. Þangað til fyrir nokkrum dögum vissi ég raunar ekki af tilvist hans en ég efast ekkert um að hann sé sómamaður hinn mesti og muni gegna starfi þróunar- og viðskiptastjóra Veitna með heiðri og sóma.
Það er bara ekki málið.
Málið er að fjöldi annars fólks hefði getað hugsað sér að verða þróunar- og viðskiptastjóri Veitna. Sumt hefur meira að segja lagt á sig langt nám einmitt í þeim tilgangi að geta gegnt slíku starfi af kostgæfni en er ekki sagnfræðingur og bókmenntafræðingur eins og Pétur.
Hvað með öll hin?
Vel að merkja: Ég hef ekkert á móti sagnfræðingum og bókmenntafræðingum. Ég held að sú menntun geti vel nýst í miklu fjölbreyttari störfum en liggja virðist í augum uppi. Auk þess hefur Pétur náttúrlega öðlast margþætta reynslu af alls konar stjórnsýslu og þróun og jafnvel viðskiptum sem aðstoðarmaður borgarstjóra síðan 2013.
Svo Pétur getur vel orðið góður þróunar- og viðskiptastjóri, ég ítreka það og meina hvert orð.
En öll hin, sem hefðu viljað fá að sækja um stöðuna og auglýsa menntun sína og hæfileika í einmitt svona djobb – þau sitja heima með sárt ennið.
Af hverju?
Þægileg innivinna?
Við skulum ekki tala neina tæpitungu um það.
Pétur var settur í þetta starf án auglýsingar af því Dagur, húsbóndi hans, mun láta af störfum sem borgarstjóri eftir ár og með þessu var Dagur að launa dyggum og eflaust duglegum aðstoðarmanni í tæpan áratug með vel launuðu og þægilegu og öruggu djobbi á vegum borgarinnar, á vegum okkar allra, þó gegnum milliliðinn Veitur sé.
Því ekki vildum við að Pétur þyrfti að þola óvissu um framtíð sína, var það nokkuð?
Nei, onei, ekki fyrst hann hefur verið í pólitík.
Því auðvitað hefði hann aldrei fengið svona starf án auglýsingar nema af því Dagur reddaði þessu. Verum ekkert að þykjast trúa öðru.
Var tekin ákvörðun?
Á sama tíma og borgin kemur aðstoðarmanni borgarstjóra í vel launað starf án auglýsingar – en þetta heitir spilling, hvort sem það er Sjálfstæðisflokkurinn eða Samfylkingin sem hagar sér svona – þá er verið að leggja niður athvarf fólks með geðraskanir, Vin, til þess að spara peninga.
Ég hef spurt nokkra borgarfulltrúa út í hina hörmulegu ákvörðun um að slá Vin af og þeir réttlæta ákvörðun sína með ýmsum en þó sambærilegum hætti.
Því það voru ÞEIR – borgarfulltrúarnir – sem ákváðu þetta og samþykktu. Þetta var ekki bara ákvörðun sem VAR TEKIN, en svo eru hlutirnir gjarnan orðaðir þegar um eitthvað óþægilegt er að ræða.
Blóðsugur á borgarkerfinu
Borgarfulltrúarnir segja sem svo að kostnaðurinn við Vin hafi verið ansi hár miðað við hve margir (eða fáir) mættu í athvarfið. Og Reykjavík geti ekki endalaust haldið úti þjónustu fyrir fólk svo víða að, meðan EKKERT kemur frá nágrannasveitarfélögunum. Og það verði teknar upp samræður við Geðhjálp um hvernig megi leysa úr vanda þess fólks sem hefur átt athvarf sitt og varnarþing í Vin.
Svona eitthvað.
Þetta eru allt sjónarmið út af fyrir sig, ekki síst hvað snertir hina hræsnisfullu Sjálfstæðismenn nágrannasveitarfélaganna sem liggja eins og blóðsugur á félagskerfi Reykjavíkur þegar þeim þykir henta.
En samt.
Samt er það óhæfa, þykir mér, að kippa fótunum undan þeim viðkvæma hóp sem sótt hefur í Vin og ætla SVO að fara að taka upp viðræður um hvað eigi að gera við fólkið.
Pétur er seif
Þetta fólk mun á næstunni þurfa að þola óvissu og ugg varðandi framtíð sína.
En ekki Pétur þróunar- og viðskiptastjóri. Hann er seif.
Kannski er það einmitt svipuð upphæð sem sparast með því að blása af Vin og það sem hann fær í laun í nýju vinnunni sinni? Hvað veit ég?
Mergurinn málsins er þessi:
Það á ekki að auka á óvissu fólks eins og þess sem sækir Vin með því að senda það út á gaddinn og kannski verður svo seinna gert eitthvað.
Og það á ekki að troða pólitískum pótintátum í vel launuð störf á vegum hins opinbera í þakkarskyni fyrir pólitíska þjónustu. Það hefur kannski lengi tíðkast – og mun eflaust tíðkast enn um sinn.
Svíður illilega
Við skulum taka eftir því þegar æ fleiri aðstoðarmenn og pólitískir trúnaðarmenn núverandi ráðherra fara að birtast í nýjum djobbum á vegum hins opinbera á næstunni – án auglýsingar auðvitað – af því ríkisstjórnarflokkarnir vita að þessi stjórn á ekki mörg ár eftir ólifuð.
Og það þarf að launa aðstoðarfólkinu.
Þetta mun gerast á næstu misserum, sanniði til. En ég játa að mér svíður illilega að sjá það gerast í Samfylkingunni sem ég vonaði og vona enn að ætli að taka upp skárri hætti en hina gömlu spillingu fyrir pólitíska trúnaðarmenn.
Og hugsi frekar um þá sem tæpast standa og þurfa á Vin að halda.
Athugasemdir (2)