Jón Baldvin Hannibalsson var í dag dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa áreitt Carmen Jóhannsdóttur kynferðislega. Með dómnum í dag er niðurstöðu héraðsdóms frá því í nóvember á síðasta ári snúið en þar var Jón Baldvin sýknaður. Carmen segir dóminn sigur fyrir fjölda annarra kvenna sem Jón Baldvin hafi brotið gegn. „Það þarf að stoppa þennan mann af því hann hættir ekki.“
Jón Baldvin var dæmdur fyrir að hafa hinn 16. júní árið 2018 strokið rass Carmenar utan klæða þar sem hún var gestkomandi á heimili hans í Salobreña á Spáni ásamt móður sinni og fleira fólki. Stundin greindi í byrjun árs 2019 frá framburði Carmenar auk fleiri kvenna sem báru að Jón Baldvin hefði áreitt sig kynferðislega.
Carmen var gestkomandi á heimili Jóns Baldvins og Bryndísar Schram, eiginkonu hans, í júní 2018 ásamt móður sinni, Laufeyju Ósk Arnórsdóttur. Carmen lýsti því í viðtalinu í Stundinni að þegar hún hafi staðið upp við matarborð í húsinu og skenkt í glös á borðinu, „þá bara gerði kallinn sér lítið fyrir og byrjaði að strjúka á mér rassinn. Og ekkert bara rétt aðeins, heldur upp og niður strjúka á mér rassinn.“
„Það þarf að stoppa þennan mann af því hann hættir ekki“
Í samtali við Stundina eftir að dómurinn var upp kveðinn sagðist Carmen mjög glöð með niðurstöðuna, og það væri mikill léttir að geta sett punkt aftan við málið, eftir rúm fjögur ár. „Ég er virkilega ánægð, ég er eiginlega ennþá að melta þetta en já, ég er mjög, mjög ánægð. Þarna er verið að viðurkenna að hann braut á mér og réttlætinu er núna fullnægt.“
Carmen segir að dómurinn sem nú er fallinn yfir Jóni Baldvini sé ekki bara viðurkenning á því áreiti sem hún varð fyrir af hans hendi, dómurinn sé líka sigur fyrir fjölda annarra kvenna sem hafa borið að Jón Baldvin hafi áreitt þær og brotið gegn þeim. „Það gerði þetta allt þess virði, að réttlætið hafi náð fram að ganga. Fórnarlömb hans eru svo mörg og þær konur gátu aldrei gert neitt til að sækja réttlætið sér til handa. Ég er því virkilega glöð fyrir þeirra hönd.“
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Jóns Baldvins, staðfesti í samtali við Stundina að óskað yrði eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar þangað.
Þetta skítseyði lifir á forni frægð sem er ekki sæmandi hvort sem er hér eða annarstaðar.
Sennilega of seint að búast við bata hjá honum eða meðvirkri eiginkonunni