„Það er auðvitað mjög óheppilegt að náinn ættingi [Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra] hafi verið í þessum kaupendahópi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir á fundi með stjórnskipunarnefnd Alþingis um Íslandsbankasöluna.
Þarna var hún reyndar nýkomin úr viðtali við Fréttablaðið þar sem hún lýsti sérstakri ánægju með samstarf sitt og Bjarna sem byggðist á heiðarleika og trausti.
Svo hélt hún áfram fyrir þingnefndinni:
„Og það auðvitað vekur kannski spurningar, vegna þess að við búum í mjög litlu samfélagi, sem við höfðum bara einfaldlega ekki séð fyrir, að þarna gætu slík náin tengsl verið upp á borðum, í þessum kaupendalista.“
Þessi orð eru mjög til marks um vaxandi trú Katrínar Jakobsdóttur á því að það sé nóg fyrir hana að segja bara eitthvað, bara að opna munninn og segja EITTHVAÐ, hvað sem er, bara eitthvað sem rennur þokkalega, og þá muni allt falla í ljúfa löð.
Umkringd já-fólki
Sú tilhneiging er löngu orðin óþægilega áberandi í fari hennar og máli, það eru mörg ár síðan, en stafar líklega af því að hún hefur raðað í kringum sig já-fólki sem dáist að hverju orði hennar, og segir henni gang í gang hvað hún sé frábær, og hefur engan veginn bein í nefinu til að segja henni að furðu oft þá sé það sem hún segir helstil innihaldslítið ... ja, að ég segi ekki bara hreinasta bull.
Því hvað var hún í rauninni að segja?
Við lifum í litlu samfélagi.
Þess vegna (???!) höfðum við (hvaða „við“?) ekki séð fyrir að náin tengsl gætu verið milli manna.
Hvaða þvaður er þetta?
Að við lifum í litlu samfélagi hefði EINMITT átt að valda því að „við“ hefðum augun opin fyrir „nánum tengslum“.
Tala nú ekki um þegar Bjarni Benediktsson er einhvers staðar nálægur.
Kolli kinkað í kór
Ég get upplýst Katrínu Jakobsdóttur um það — úr því hún virðist því miður ekki hafa haft hugmyndaflug til þess — að þegar kaupendalisti í Íslandsbankasölunni var birtur, þá var fyrsta nafnið sem hver einasti blaðamaður leitaði að ... já, Benedikt Sveinsson.
Og auðvitað fundu þeir hann strax.
En Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra til fimm ára, náinn samverkamaður og vinur Bjarna Benediktssonar, hún hafði „einfaldlega ekki séð það fyrir“.
En brosir svo bara fyrir þingnefndinni og segir eitthvað prat og við eigum öll að kinka kolli í kór og éta hvert upp eftir öðru: Nei, auðvitað gat hún engan veginn séð þetta fyrir, nei, auðvitað ekki, nei, engan veginn, ekki hún Katrín okkar, hver gat sosum séð þetta fyrir í okkar litla samfélagi? Hann Bjarni okkar, og hann Benedikt? Haaaa?
Er Katrín virkilega hæf til að vera forsætisráðherra ef svona er komið?
Þú toppa sjáfann þig í hverri færslu og í öllum bænum haltu áfram sem endra nær.
Maður klípur sig í handlegginn til þess að aðthuga hvort þetta sé draumur eða veruleiki.
Ég hélt að sirkus Geira Smart væri löngu liðinn!!!
Aulahrollurinn sem fer um mann við að hlusta á þessa þvælu er orðin pínlegur.