Vissulega hefur Katrín Jakobsdóttir ekki verið minn uppáhaldspólitíkus síðustu fimm árin.
Eigi að síður verð ég að viðurkenna að ég hálfvorkenni henni fyrir þann fautaskap sem Bjarni Benediktsson hefur nú sýnt henni með yfirlýsingu sinni um stuðning við vaxtahækkun Seðlabankans.
Því já, með þessari yfirlýsingu sýndi hann Katrínu sérstakan fautaskap og raunar fyrirlitningu.
Lítum á hvað gerðist.
Kjarasamningar standa fyrir dyrum.
Vegna verðbólgu og ýmissa örðugleika annarra er ljóst að þeir geta orðið mjög erfiðir.
Rétt í þann mund að samningalotur eru að hefjast hækkar Seðlabankinn vexti.
Það má deila um réttmæti þess, en öllum mátti samt vera ljóst að á þessum tímapunkti var vaxtahækkunin sem blaut tuska framan í launþega.
Meira að segja Samtök atvinnulífsins áttuðu sig á því.
Þá stígur Katrín fram, heldur fund með hinum margfrægu aðilum vinnumarkaðarins og virðist á þeim fundi hafa verið upp á sitt besta sem velmeinandi mannasættir.
Hún leysti náttúrlega engin mál þar eða þá, en gaf til kynna að hún væri tilbúin til að gera sitt af hverju og hefði góðan skilning á því hvað launþegasamtökunum hefði orðið illa við ákvörðun Seðlabankans.
Og aðilar fóru umtalsvert léttari á brún af fundi hennar.
Þeim fannst þeir greinilega hafa mætt vini í stað.
En hvað gerist þá?
Bjarni Benediktsson, samverkamaður Katrínar í ríkisstjórn til fimm ára, leggur beinlínis lykkju á leið sína til þess að eyðileggja allt sáttastarf hennar.
Hann lýsir sem sé sérstökum stuðningi við vaxtahækkun Seðlabankans.
Viðbrögðin við þeirri yfirlýsingu voru svo algjörlega fyrirsjáanleg.
Það snjóar þegar yfir fyrirhugaða samninga og raunar er hluta viðræðna umsvifalaust slitið.
Katrín stendur eftir sem ómerkingur.
Já, ómerkingur.
Ríkisstjórn hennar, sem átti að verða sáttaafl, opinberast nú sem verkfæri atvinnurekenda gegn launafólki.
Eina ferðina enn.
Athugið að það var algjör óþarfi fyrir Bjarna að gera þetta.
Ekkert kallaði á að hann stykki til og lýsti sérstökum viðbrögðum við ákvörðun Seðlabankans.
Hann hefði sem hægast getað leyft Katrínu að eiga sviðið og reyna að leggja drög að sáttum.
En nei — hann stökk fram, einmitt til þess að skemma allt.
Bæði fyrir launþegum og ekki síður fyrir Katrínu.
Alveg að óþörfu, því ég ítreka:
Hann hefði alveg getað sleppt þessu.
Hann segir núna að það hafi nauðsynlegt og rétt að segja sannleikann.
Bjarni Benediktsson og sannleikurinn — hahaha!
En þetta sýnir hvað það þýðir að vinna með Sjálfstæðisflokknum þessi árin.
Flokkurinn lætur kannski líklega um skeið, svo fyrr eða síðar kemur eitthvað svona.
Þetta kennir fólki kannski að leggja ekki lag sitt við tröll í þjónustu auðmanna.
Það er að vísu of seint fyrir Katrínu Jakobsdóttur, því miður.
Hún mun láta þennan fautaskap Bjarna yfir sig ganga, eins og hingað til.
Því miður.
Athugasemdir (1)