Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur myndi falla ef gengið yrði til kosninga nú, samkvæmt niðurstöðum könnunar Maskínu á fylgi stjórnmálaflokkanna. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja mælist 43,7 prósent í könnuninni. Í alþingiskosningunum 2021 fengu ríkisstjórnarflokkarnir samanlagt 54,4 prósent atkvæða.
Raunar hefur fylgi ríkisstjórnarflokkanna í flestum tilvikum mælst undir 50 prósentum frá kosningnum í septembera 2021 í könnunum Maskínu. Lægst mældist fylgi flokkanna í maí síðastliðnum, 42,3 prósent.
Samfylkingin því sem næst tvöfaldar fylgi sitt frá kosningum
Helstu tíðindi könnunarinnar eru að Samfylkingin tekur mikið stökk uppá við. Flokkurinn mælist nú með 19 prósent stuðning og nartar í hælana á Sjálfstæðisflokknum, sem er eftir sem áður stærstur flokka, nýtur 21,8 prósenta stuðnings. Fylgi Samfylkingarinnar eykst um 4,6 prósentustig frá síðustu könnun sem gerð var í októbermánuði. Fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar örlítið, um eitt prósentustig frá sömu könnun. Sé horft á úrslit kosninganna síðasta haust mælist Samfylkingin nú með 9 prósentustiga meiri stuðning en kom upp úr kjörkössunum á meðan að Sjálfstæðisflokkurinn sígur um 2,6 prósentustig.
Ekki eru mjög miklar breytingar á fylgi annarra flokka milli kannanna. Framsóknarflokkurinn mælist þriðji stærsti flokkurinn, og nýtur fylgis 14,8 prósenta þeirra sem afstöðu taka. Það er því sem næst sama fylgi og mældist í síðustu könnun en 2,5 prósentustigum lægra en úrslit kosninganna.
Fylgi Pírata dalar lítið eitt milli kannana, um tæpt prósentustig, og mælist nú 13,4 prósent. Það er tæpum fimm prósentustigum hærra en sá stuðningur sem flokkurinn naut í síðustu kosningum. Viðreisn mælist nú með 9 prósenta fylgi, eilítið minna en í síðustu könnun, en litlu meira en niðurstaða kosninganna síðasta haust gaf.
Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, mælist nú með stuðning 7,1 prósents þeirra sem afstöðu taka. Það er eilítið lægra en í síðustu könnun en fylgi flokksins hefur fallið jafnt og þétt frá kosningum, þar sem flokkurinn hlaut 12,6 prósent atkvæða.
Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn mælast báðir með 5 prósenta fylgi og níundi flokkurinn sem mældur er, Miðflokkurinn, nýtur fylgis 4,9 prósenta aðspurðra. Fylgi Sósíalista dalar um 1,5 prósent frá fyrri könnun en er tæpu prósentustigi hærra en var í kosningunum. Fylgi Miðflokksins er á svipuðu róli og í síðustu könnun og sömuleiðis á svipuðu róli og úrslit kosninganna. Fylgi Flokks fólksins mælist hins vegar tæpum fjórum prósentustigum lægra en útkoma kosninganna.
Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi yngstu kjósendanna
Sé litið til bakgrunns þátttakenda má sjá að Vinstri græn njóta töluvert meira fylgis kvenna heldur en karla, 9,1 prósent stuðningsmanna flokksins eru konur en 5,2 prósent karlar. Þessi hlutföll snúast við sé horft til þeirra sem lýsa yfir stuðningi við Miðflokkinn en 6,6 prósent þeirra sem styðja hann eru karlar á móti 3,1 prósentum kvenna.
Samfylkingin nýtur mest fylgis í elsta aldurshópnum, 60 ára og eldri, en í þeim hópi segjast 23,4 prósent styðja flokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur hins vegar mests fylgis í yngsta aldurshópnum, 18 til 29 ára, en 20,6 prósent fólks á því aldursbili segist styðja flokkinn.
Þegar horft er til heimilistekna nýtur Sjálfstæðisflokkurinn afgerandi mests stuðnings hjá þeim sem hæstar tekjur hafa, 1.200 þúsund eða hærri. Alls segjast 28,3 prósent aðspurðra styðja flokkinn. Samfylkingin kemur næst og nýtur stuðnings 18,1 prósents þeirra svarenda þar sem heimilitekjur eru hærri en 1.200 þúsund. Samfylkingin nýtur hins vegar afgerandi mests stuðnings fólks sem hefur hærri millitekjur, það er þar sem heimilistekjur eru á bilinu 1 til 1,2 milljónir króna. Af þeim segjast 27,8 prósent styðja flokkinn. Hlutfall stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins sem eru á sama tekjubili er 20 prósent.
Sé horft til þeirra sem lægstar tekjurnar hafa, heimilistekjur undir 400 þúsund krónum, dreifist fylgi þeirra víða. Fylgi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Pírata og Flokks fólksins meðal fólks sem hafa lægstar tekjurnar mælist um 15 prósent hjá öllum flokkunum. Þá styðja tæp þrettán prósent Samfylkinguna og svipað hlutfall Sósíalistaflokkinn. Athygli vekur að Vinstri græn, flokkur sem sjálfur skilgreinir sig sem rótttækan vinstri flokk sem leggi höfuðáherslu á jöfnuð og félagslegt réttlæti, nýtur aðeins stuðnings 5,3 prósenta fólks sem lægstar hefur tekjurnar. Aðeins Viðreisn nýtur minna fylgis þess hóps, 3,8 prósenta.
Könnun Maskínu var gerð dagana 4. til 22. nóvember og tóku 2.483 svarendur afstöðu til flokks.
Athugasemdir