Það er ákveðin týpa sem vill leysa vandamál með því að lýsa yfir stríði. Týpur eins og Richard Nixon, George W. Bush og Jón Gunnarsson. Nixon lýsti yfir stríði gegn fíkniefnum árið 1971, það gekk ekki betur en svo að ég þurfti sjálfur að gera tilraun til þess að losa heiminn við þau með því að innbyrða þau í eins miklu magni og ég komst yfir á árunum 2009–2016.
Ég er ekki frá því að mín aðferð hafi verið árangursríkari en Nixons.
George W. Bush lýsti yfir alþjóðlegu stríði gegn hryðjuverkum árið 2001, það vannst heldur ekki.
Og núna lýsti Jón Gunnarsson yfir stríði gegn skipulagðri glæpastarfsemi, í því felast hins vegar engin nýmæli. Lyndon Johnson fór í stríð gegn glæpum 1965, skömmu eftir að hafa lýst yfir stríði gegn fátækt. Hvorugt þeirra vannst.
Stríð spretta upp úr úrræðaleysi. Þegar ráðamenn hafa ekki lengur vald á einhverju þykir þeim rétt að vígbúast. Það er enda auðvelt fyrir valdhafa að fara í stríð, þar sem þeir standa ekki sjálfir á vígvellinum. Stríð kostar þá ekkert, það er þekkt stærð. Þeir græða jafnvel á því.
Ráðamenn standa ekki í fremstu víglínu, og því síður senda þeir börn sín þangað. En síst af öllu tapa ráðamenn á stríðum gegn óvinsælum fyrirbærum. Við vitum hins vegar hver verða fórnarlömb þeirra. Fíklar, fátækt fólk og aðrir jaðarsettir hópar. Við sjáum það best á afleiðingum sambærilegs stríðs frá New York, jafnan kennt við brotnar rúður.
Félagsleg vandamál þarf að leysa í félagslega kerfinu, vopnavæðing, aukin valdbeiting, harka og refsingar leysa ekki vandamál. Þvert á móti gera þau illt verra. Jaðarsetja fleiri, leiða af sér vígbúnaðarkapphlaup lögreglu og glæpahópa og skapa enn frekara vantraust milli þeirra sem þurfa stuðning og hins opinbera. Fyrir svo utan hversu kjánalegt orðfærið er; stríð gegn hinu og þessu. Stríð sem mun svo aldrei vinnast. Stríð fyrir menn með mikilmennskubrjálæði, brotin egó og drauma um að vera John Wayne. Drauma sem aldrei munu rætast.
Menn í þægilegri innivinnu sem pína þjóðina til þess að taka þátt í þykjustuleik þeirra. Menn í efristétt sem vilja friðþægja efri millistétt; stétt með stétt. Við þurfum heldur engin stríð. Dómsmálaráðherrann þurfti bara að þenja sig út og gera sig stóran.
Við þurfum hins vegar að gera upp fyrir hann reikninginn.
Athugasemdir (1)