Níunda október 2022 skrifaði Benedikt Erlingsson fallega grein í Stundina sem bar titilinn „Predikun fyrir trúaða“. Titillinn er við hæfi vegna þess að greinin er byggð á hugvekju sem hann flutti á fundi Skógræktarfélags Íslands um ástríðu hans fyrir skógum. Ég deili þessari ástríðu með Benedikt. Ég ólst upp í sunnanverðri Skandinavíu (Svíþjóð og Danmörku) og tré og skógar hafa verið þögull en mikilvægur hluti lífs míns. Þau hafa mótað mig ómeðvitað. Ég veitti því í raun fyrst athygli þegar ég flutti til Íslands hvaða áhrif trjáskorturinn hafði á mig.
Þegar ég sá í fyrsta skipti sumarbústaði hérlendis á berangri, án skjóls fyrir veðri og vindum fann ég fyrir undarlegri ónotatilfinningu. Einhvers konar víðáttufælni kannski eða tilfinningu sem líkist því að maður geti dottið í himininn! Ég skildi ekki hvernig maður gæti slakað á í húsi sem hefði engin tré umhverfis til að veita því skjól. Þegar ég fer til Svíþjóðar til að heimsækja föður minn þá leita ég í skóginn sem vex allt í kring. Stór, þéttur og myrkur skógur þar sem tré fá að lifa og deyja. Skógurinn róar mig og mér finnst ég vera kominn heim. Þannig að ég skil hvað Benedikt á við þegar hann kallar okkur „trjáverur“.
Engu að síður er ég ekki viss um að mínar tilfinningar og tilfinningar Benedikts séu þær sömu og allra annarra. Benedikt telur að þessi trjávera búi í sjálfu manneðlinu, en að tala um algilt mannlegt eðli er alltaf hættulegt og skyldi nálgast slíkt af varfærni. Að varpa eigin hugsunum og tilfinningum yfir á allt mannkynið getur falið í sér að þeir sem líkjast þér ekki séu einhvern veginn minni manneskjur. Ég er viss um að þetta er ekki ætlun Benedikts. Þannig að áður en við tölum um „manneðli“ ættum við að hlusta eftir röddum annarra og átta okkur á því að það er hægt að vera manneskja, og raunar vera yfirhöfuð, með ýmsum hætti.
Ólík sjónarhorn
Ég hef rætt við Íslendinga sem líður ekki vel í nágrenni trjáa og í skógum. Þeir segja að tré byrgi sýn og að geta ekki séð sjóndeildarhringinn sé mjög óþægileg tilfinning. Ég upplifi þetta öfugt: trén umlykja mig og veita vörn. Aðrar manneskjur geta upplifað þetta sem innilokunarkennd. Mér finnast víðerni og endalaus sjóndeildarhringur láta mér líða eins og sé að missa stjórn, en ég get samt skilið hvernig það að sjá vítt getur veitt annarri manneskju öryggistilfinningu, að maður hafi vald á aðstæðum. Fyrir þann sem líður þannig er skógurinn ekki vettvangur öryggis og skjóls, heldur þvert á móti.
Allt snýst þetta um sjónarhorn. Við eigum öll ólíka reynslu að baki. Við erum ekki eingöngu mótuð af menningu og félagslegum samskiptum, heldur líka af því landslagi sem við ölumst upp í. Aðrar tilfinningar til trjáa hafa ekki minna gildi – og eru ekki minna mannlegar – en tilfinningar mínar og Benedikts. Að sjálfsögðu gilda þær ekki fyrir allt fólk, og ekki alla Íslendinga heldur. Líðan fólks í mismunandi umhverfi er mikilvægt málefni, hvort sem það snýst um borgarskipulag (líkt og hvernig grænu svæðin í Reykjavík eru að hverfa) eða villta náttúru (sem er alltaf undir einhverjum áhrifum mannfólksins).
Predikun Benedikts beindi huga mínum til franska heimspekingsins Gilles Deleuze. Hann sagði að Evrópubúar hefðu tilhneigingu, eins og Benedikt, til að „hugsa eins og tré“, eða vera trjáverur. En ólíkt Benedikt þá taldi hann ekki að þetta væri nauðsynlegur þáttur manneðlisins. Það eru til aðrir veruhættir, aðrir hugsunarhættir. Hann fjallaði um hvernig hann taldi Ameríkana, meðal annars höfundana Henry Miller og Walt Whitman, hugsa öðruvísi. Þeir væru ekki mótaðir af evrópska skóginum, heldur amerísku sléttunum, þannig að þeir hugsuðu frekar eins og grös (Deleuze fyrirlestur: "Sur Cinéma et Pensée," 11. desember 1984).
Hér er auðvitað um myndlíkingu að ræða. Þannig taldi Deleuze að það væri mikils virði að hugsa meira eins og grös. Að hugsa eins og tré er línulegt, með miðlægu þema sem allt vex út frá. Grös eru síður þannig. Grös eru með trefjarætur, og oft einnig jarðstöngla, og mynda þannig víðfemt net sem teygir sig í ólíkar áttir. Þetta felur í sér sköpun. Í þessu felst líka sveigjanleiki sem hjálpar grösum að laga sig að aðstæðum. Og höldum myndlíkingunni áfram: Tréð getur verið sterkt, en það er líka viðkvæmt. Það getur kubbast niður í fannfergi eða fokið um koll, sérstaklega ef jarðvegurinn sem það vex í er grunnur. Rætur margra trjáa ná ekki eins djúpt og fólk almennt heldur. Frá sjónarhóli Deleuze þá eru grösin betri myndlíking fyrir virkni heilans: taugaendarnir eru stöðugt að mynda ný tengsl og mynstur, eins og grösin með sínar trefjarætur og jarðstöngla, ekki miðlægt og línulega eins og tré.
Lesturinn á Deleuze kveikir með mér þá hugsun hvort að til sé séríslenskur hugsunarháttur mótaður af íslensku landslagi og lífríki? Kannski líkist hann meira fléttum: þar sem ólíkar lífverur starfa saman sem ein hér á þessum kletti í úthafinu til að mynda lífkerfi? Kannski líkist hann hrútaberjalyngi eða kræklóttu birkikjarri – sem vex niður við jörð og mótast af næringu moldarinnar og vindunum glöðu. Ég veit ekki. En mig grunar að það sé ekki trjálægur hugsunarháttur.
Semjum frið við náttúruna
Skorturinn á skógum víða á Íslandi (minnumst þess að það eru nokkuð stórir skógar hér og þar) hefur áhrif á þá sem flytja til landsins. Mörg okkar erum vön að vera umkringd trjám, stórum trjám sem veita skugga og skjól. Þetta getur leitt til þess að það getur verið erfitt að finnast maður eiga heima hérna. Þannig skil ég þrá Benedikts eftir því að breyta Íslandi í heimili með því að planta trjám alls staðar. En þegar allt kemur til alls er þetta nokkuð hrokafullt. Sú hugmynd að fólk verði að sigrast á náttúrunni og umbreyta henni sér til ímyndaðra hagsbóta er hættuleg – bæði fyrir náttúruna og fólkið í henni.
„Benedikt er líka hrokafullur að því leyti að hann virðist ekki líta svo á að Ísland sé raunverulegt heimili fyrir fólk“
Benedikt er líka hrokafullur að því leyti að hann virðist ekki líta svo á að Ísland sé raunverulegt heimili fyrir fólk. Fólk eru trjáverur segir hann, og þar sem fá tré séu á Íslandi þá er það í rauninni ekki staður þar sem fólki getur liðið eins og heima hjá sér, svo við verðum að breyta landinu í eitthvað sem það er ekki. Ef við hugsum þetta alla leið þá þýðir þetta að Íslendingar eru í raun ekki til, einungis Evrópubúar sem eru fastir á trjálausum kletti þar sem þeim líður ekki eins og heima hjá sér. Þetta tel ég ekki rétt. Ég veit ekki hvað það er nákvæmlega að hugsa í takt við íslenskt landslag, en ég veit að fólk þarf að læra að hugsa og lifa meira í samhljómi við þá náttúru sem við lifum í. Að hugsa vistfræðilega þýðir að spyrja hvernig við getum aðlagast og orðið hluti af landslaginu, ekki einvörðungu „hvernig get ég breytt náttúrunni svo hún henti mér.“
Að sjálfsögðu snýst þetta ekki bara um hvernig okkur fólkinu líður. Hér þarf líka að huga að líffræðilegri fjölbreytni og innlendum plöntum sem er ýtt til hliðar og kæfðar af innrás trjáveranna. Þær skipta líka máli. Og enn eitt mál sem Benedikt veit: tré skipta máli fyrir loftslagið sem við erum öll háð. Eyðingu skóga verður að stöðva því trén sem þegar eru til draga í sig koltvísýring. En það þýðir ekki að það að planta nýjum trjám sé alltaf lausnin.
IPCC (Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar) hefur síendurtekið varað við því að rækta tré í vistkerfum sem eru sögulega ekki skógar. Þetta á einkum við um tegundir sem eru úr mjög ólíku umhverfi eins og til dæmis barrtré á Íslandi, þar sem þetta getur haft neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni og hefur ekki endilega góð áhrif á loftslag (IPBS-IPCC: Biodiversity and climate change, 2021). Raunar er það svo að nýlegar rannsóknir sýna að ræktun skóga á norðurslóðum eins og hér á Íslandi gæti haft neikvæð áhrif á loftslagið. Tré sem er nýbúið að gróðursetja leggja lítið af mörkum í kolefnisbindingu (ef það væri málið ætti að leggja áherslu á endurheimt votlendis sem bindur mun meira kolefni). Ef við þekjum landið með sígrænum trjám, þar sem venjulega er hvítt eða sinubleikt yfirborð á veturna sem endurkastar meira sólarljósi, dregur úr albedo áhrifunum og veldur þar með frekari hlýnun (Portmann et al: „Global forestation and deforestation affect remote climate via adjusted atmosphere and ocean circulation“, Nature Communications, 4. October 2022).
Það er umdeilt meðal vísindamanna hversu góð skógrækt á Íslandi sé í baráttunni gegn losun koltvísýrings og hlýnun jarðar. Eins og öll vísindi er hér um flókið mál að ræða sem þarf að meta vandlega, en ekki reiða sig á trúarsetningar. Ef Benedikt er að predika til þeirra sem hafa þegar snúist til nýrrar trúar, þá lýsi ég því yfir að ég er trúvillingur. Ég elska tré, en ég vil ekki tilheyra neinni kirkju. Þegar persónuleg tilfinning verður að trúarsetningu stofnunar gerast hættulegir hlutir. Í stað verkfræðilegra umbreytinga á náttúru Íslands ættum við frekar að spyrja hvernig við getum aðlagað lífsstíl okkar, menningu og hugsunarhátt þannig að okkur líði vel á þessari plánetu og þessari klettaeyju eins og þau eru, ekki eins og við viljum að þau séu. Eða eins og segir í nýlegri umhverfisskýrslu Sameinuðu þjóðanna þá þurfum við að hætta að umbylta náttúrunni, en í staðinn umbylta sambandi mannkyns við náttúruna (UNEP: Making Peace with Nature, 2021).
Athugasemdir (2)