Kærunefnd útlendingamála braut gegn hælisleitenda með því að synja honum um endurupptöku á umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi. Ákvörðun nefndarinnar var byggð á því að hælisleitandinn, Palestínumaðurinn Suleiman Al Masri, hefði tafið fyrir brottvísun sinni úr landi með því að mæta ekki til Covid-19 sýnatöku. Á það féllst Héraðsdómur Reykjavíkur ekki og ógilti úrskurð kærunefndarinnar. Lögmaður Al Masri segir dóminn fordæmisgefandi fyrir þann stóra hóp hælisleitenda sem ílengdist hér á landi vegna kórónaveirufaraldursins og ljóst sé að stjórnvöldum sé ekki stætt á að vísa þeim hópi úr landi án efnismeðferðar umsókna.
Hópurinn taldi fyrst um 300 umsækjendur um alþjóðlega vernd og var haft eftir Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra að fólkið hefði dvalið ólöglega á Íslandi. Síðar var tekin ákvörðun um að vísa ekki barnafjölskyldum úr landi en þá stóðu eftir tæplega 200 manns. Sökum kórónaveirufaraldursins var fólkið hins vegar ekki flutt af landi brott. Þau höfðu dvalið hér í yfir tólf mánuði sem að öllu jöfnu hefði átt að þýða að mál þeirra fengju efnismeðferð hér á landi. Á það vildu stjórnvöld hins vegar ekki fallast.
Naut ekki aðstoðar túlks eða lögmanns
Í máli Al Masri, sem er einn úr þeim stóra hópi sem vísa átti úr landi, var því haldið fram af hálfu hins opinbera að hann bæri sjálfur ábyrgð á þeim töfum sem urðu á því að hægt væri að senda hann af landi brott, með því að láta undir höfuð leggjast að mæta til Covid-19 sýnatöku. Án þeirrar sýnatöku hefði ekki verið hægt að senda hann til Grikklands, þar sem hann hafði þegar fengið alþjóðlega vernd. Byggði upphafleg ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka umsókn Al Masri ekki til efnismeðferðar einmitt á því að hann hefði þegar fengið vernd í Grikklandi.
„Telur dómurinn að ekki hafi verið réttmætt að leggja til grundvallar að stefnandi bæri ábyrgð á þeirri töf sem varð á meðferð máls hans“
Al Masri sjálfur og Helgi Þorsteinsson Silva, lögfræðingur hans, héldu því hins vegar fram fyrir dómi að honum hefði ekki verið gerð nægjanlega skýr grein fyrir því hvert hann ætti að mæta til sýnatöku né heldur hefði verið útskýrt fyrir honum að með því að mæta ekki mætti túlka það svo að hann hefði með vísvitandi hætti reynt að tefja mál sitt. Hann hefði ekki haft túlk viðstaddan þegar fulltrúar ríkislögreglustjóra hefðu mætt til að gera honum grein fyrir því að hann ætti að mæta til sýnatökunnar og skjal þess efnis að hann sýndi ekki samstarfsvilja, sem lögreglumenn hefðu fyllt út, hefði ekki verið á tungumáli sem væri honum skiljanlegt. Þá hefði hann ekki fengið að kalla til lögmann til að bera umrætt skjal undir.
Al Masri sótti um endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála en var hafnað með fyrrgreindum rökum, þrátt fyrir að meira en tólf mánuðir hafi verið liðnir frá því að hann fyrst sótti um vernd hér á landi. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst sem fyrr segir ekki á rök kærunefndarinnar. Í dómsorði segir: „Að öllu framangreindu virtu telur dómurinn að ekki hafi verið réttmætt að leggja til grundvallar að stefnandi bæri ábyrgð á þeirri töf sem varð á meðferð máls hans og leiddi til þess að ekki varð af flutningi hans innan 12 mánaða frestsins. Var úrskurður kærunefndar útlendingamála að þessu leyti byggður á efnisannmarka sem telst verulegur. Þegar af þeirri ástæðu verður fallist á kröfu stefnanda um að ógiltur verði úrskurður nefndarinnar frá 18. nóvember 2021 þar sem synjað var beiðni hans um endurupptöku málsins.”
Helgi Þorsteinsson, lögmaður Al Masri, segir að dómurinn sé stórtíðindi fyrir þennan hóp hælisleitenda sem til stóð að vísa af landi brott, en mörgum þeirra hefði verið synjað um endurupptöku og efnismeðferð á svipuðum forsendum og Al Masri. Dómurinn sé því fordæmisgefandi. „Að fengnum dómnum er ljóst að stjórnvöldum er ekki stætt á öðru en að bregðast við og koma í veg fyrir mestu fjöldabrottvísanir Íslandssögunnar,“ segir Helgi.
Athugasemdir