Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherral baðst afsökunar í dag á því að yfirvöld hafi ekki hlustað á þolendur kynferðisbrota í mörg ár. Gríðarlegur fjöldi ungs fólks kom saman á lóð Menntaskólans í Hamrahlíð til að sýna þolendum samstöðu.
Ekki aðeins mættu menntaskólanemar úr Hamrahlíðinni, heldur fjölmenntu einnig nemendur úr öðrum skólum. „Ég er úr Kvennó,“ sagði einn mótmælenda og benti á fólk úr Verslunarskólanum. „Krakkar úr MR eru enn að bíða eftir strætó, því hann var troðfullur,“ sagði hann enn fremur. „Við erum öll hérna til að sýna samstöðu og segja að það er komið nóg af þessu rugli.“
Ræðumenn fengu almennt mikið lófaklapp en minna bar á því þegar ráðherra var kynntur til leiks. „Ég vil segja hérna í upphafi að við erum að hlusta. Ekki bara stjórnvöld heldur líka skólameistarar. Við viljum gera betur,“ sagði Ásmundur Einar þegar hann ávarpaði mannfjöldann.
Einn af mótmælendunum á staðnum kallaði fram í: „Gerið þá betur.“
Ráðherra hélt áfram og sagðist vilja biðjast afsökunar á því að yfirvöld hafi ekki hlustað í mörg ár. „Við biðjumst afsökunar á því að hafa ekki verið að hlusta í öll þessi ár,“ sagði hann. Við það fékk hann lófaklapp frá mótmælendum.
„Við viljum fara í samstarf um hvernig við breytum hlutum. En ég vil líka segja að þurfið áfram að láta í ykkur heyra. Halda okkur við efnið, vegna þess að þið eruð að breyta hlutunum og við þurfum að hlusta og við höfum ekki gert það allt of lengi. Þannig að við þurfum að fara í samtal við ykkur um hvernig við breytum hlutunum, með hvaða hætti og ég treysti því að rödd ykkar haldi okkur við efnið í því. Takk fyrir þennan fund og haldið áfram að láta í ykkur heyra,“ sagði Ásmundur Einar.
Stundin ræddi við Ásmund Einar þegar ræðu hans var lokið. Þar var hann spurður fyrir hönd hverra hann væri að biðjast afsökunar. Svaraði hann því til að þau sem eru við stjórnvölinn þurfi að hlusta á kröfu ungs fólks um breytingar á kerfinu.
„Þetta unga fólk er að boða breytingar. Þau vilja breytingar sem hefur verið kallað eftir. Mörg þeirra mála sem vitnað er til eru mjög gömul. Þannig ég er bara að segja að ég held að við þurfum, við sem eldri erum og erum við stjórnvölinn, hvort sem er í stjórnmálunum, stjórnkerfinu eða skólastjórnendur, við þurfum að hlusta á þessar breytingar og þurfum að bregðast við. Til þess var þessi fundur. Við erum komin á stað með þá vinnu og við þurfum að hraða henni og vinna hana með þessari grasrót, vegna þess að skólarnir eru fyrir nemendurna en ekki okkur gamla fólkið.“
Aðspurður um hvaða vinna væri nú þegar hafin í ráðuneytinu segir Ásmundur vinnu hafna við drög að viðbragsáætlun fyrir framhaldsskóla landsins.
„Við erum búnir að vera vinna drög að viðbragsáætlunum. Við reiknum með því að kalla alla skólastjórnendur til fundar, auk fleiri aðila. Eins og nemendurna sjálfa, fleiri aðila eins og hagaðila í jafnréttismálum, forsætisráðuneytið og löggæslu til að fara ofan í það með hvaða hætti við getum orðið við þeim hugmyndum sem kallað er eftir meðal ungs fólks.“
Hversu lengi má búast við að þessi vinna eigi sér stað?
„Við þurfum að hreyfa okkur hratt og við höfum verið að undirbúa það, en það kann að vera að það þurfi lagabreytingar til. Þá erum við komin í aðeins lengri feril, en allt sem við getum gerum við hratt. Við þurfum að bregðast við og hlusta.“
Telur þú sjálfur að stjórnendur framhaldsskóla hafi einfaldlega brugðist mörgum nemendum sínum?
„Ég held að skólastjórnendur vilji gera vel. Það er kallað eftir breytingum og við þurfum að styðja við þá í þeirra störfum. Ég hef ekki hitt einn skólastjórnenda sem vill ekki gera vel í þessum málum og vill ekki að nemendum líði vel í sínum skóla. Við þurfum að styðja við það. Oft á tíðum þurfum við, hið opinbera, að veita þeim tól og tæki til þess.“
Nú hafa komið sögur upp á yfirborðið þar sem skólastjórnendur voru ekki að bregðast við kvörtunum þolenda. Hvað telur þú að þurfi að gera í þeim málum?
„Þegar hlutirnir eru að breytast og kallað er eftir breytingum þá þarf skólakerfið að fá tækifæri til að breytast. Ég skynja á þessum fundi hér í dag að nemendurnir vilja samtal við kerfið um breytingar, vegna þess að breytingarnar verða ekki nema við tökum öll þátt í þeim. Þá þurfum við líka að gefa skólastjórnendum, kennurum, starfsfólki skóla, stjórnvöldum og öðrum tækifæri til þess að koma inn í það samtal. Það ætlum við að gera og þess vegna erum við hérna í dag, til að hlusta.“
Ef það er eitthvað sem þú vilt persónulega segja til þeirra þolenda sem kerfið hefur brugðist, hvað viltu segja við þá í dag.
„Takk fyrir að tala. Afsakið að við höfum ekki verið að hlusta og takk fyrir að láta í ykkur heyra og haldið okkur við efnið áfram,“ segir Ásmundur.
Athugasemdir