Stýrivextir Seðlabanka Íslands halda áfram að hækka, nú um 0,25 prósentustig. Meginvextir bankans verða því 5,75%. Um þetta var tilkynnt í morgun en vextir hafa hækkað úr 0,75 prósentum síðasta sumar, samtals um 5 prósentustig.
Í tilkynningu frá peningastefnunefnd bankans segir að undirliggjandi verðbólga hafi aukist á milli funda nefndarinnar þó að verðbólga hafi hjaðnað um 0,6 prósent á sama tíma. „Vísbendingar eru um að vaxtahækkanir undanfarin misseri hafi hægt á vexti almennrar eftirspurnar og umsvifum á húsnæðismarkaði,“ segir í tilkynningu nefndarinnar.
Nefndin segir að vísbendingar af vinnumarkaði bendi til að spenna í þjóðarbúskapnum hafi náð hámarki en alþjóðlegar efnhagshorfur hafi versnað. „Og óvissa aukist sem kann að leiða til þess að hraðar dragi úr innlendri eftirspurn en áður var gert ráð fyrir,“ segir í tilkynningu nefndarinnar.
Athugasemdir