„Ég geri ráð fyrir að eilífur feluleikur gagnvart fortíðinni þyki næsta hvimleiður í fari einstaklinga, sem þannig hegða sér,“ skrifaði Jón Baldvin Hannibalsson. „Spurningin er: Ef þú hefur reynt mann að þrálátri ósannsögli alla tíð trúirðu honum þá, þegar hann lofar bót og betrun, í hvert sinn sem hann er staðinn að ósannindum og undirferli?“
Greinina skrifaði hann í september árið 1969, þá þrítugur kennari í Hagaskóla og formaður Félags háskólamenntaðra kennara. Sem slíkur kynnti hann yfirlýsingu um ófremdarástand í skólakerfinu, vegna skorts á „hæfum og vel menntuðum“ kennurum. Ástandið væri verst í gagnfræðaskólum og afleiðingarnar geigvænlegar, bæði fyrir gæði menntunar og „álit og virðingu“ kennarastéttarinnar.
Áhyggjur Jóns Baldvins af áliti og virðingu stéttarinnar virðast ankannalegar þegar litið er til þess hvernig hann gekk sjálfur fram sem kennari í gagnfræðaskóla.
Mörkin smám saman færð til
Á þessum tíma hélt nemandi hans í Hagaskóla, Þóra Hreinsdóttir, dagbók þar sem hún skrifaði um samband þeirra. Stundin birtir í dag brot úr dagbókunum, úr bréfi kennarans Jóns Baldvins til nemanda síns og frásögn vitna.
Hún var fimmtán ára og taldi sig vera ástfangna af kennara sem sýndi henni athygli og hjálpaði með einkunnir, en þjáðist vegna samskipta við hann, var reið, brotin og hrædd. Í dagbókinni lýsir hún hrifningu, undrun, ótta og reiði. Hún skilur ekki af hverju hann er að sýna henni þennan áhuga, hann sem gæti verið faðir hennar, er kvæntur fjögurra barna faðir og hún nemandi hans í ofanálag. Baklandið er brotið, þörfin fyrir viðurkenningu er mikil og valdamisræmið er algjört. Þar kemur líka fram að hann veit það, þekkir til aðstæðna, en virðist ekki hafa áhyggjur af því að notfæra sér þær. Leika sér jafnvel að eldinum, taka áhættu og treysta því að ekki komist upp um hann. Hann gefur henni símanúmerið á ritstjórn, boðar hana á fund þangað, fer með hana í bíltúra og sendir bréf, sem Stundin hefur nú undir höndum.
Í gegnum lestur dagbókarinnar má sjá aðferðirnar, fyrst þarf að ávinna sér trúnað barnsins og færa mörkin smám saman til, byrja varlega og færa sig síðan upp á skaftið. Hún lýsir fyrst óskýrum skilaboðum og veltir fyrir sér hvort það geti verið að hann hafi kynferðislegan áhuga á henni eða hvort hann sé bara kennari sem er að reyna aðstoða hana. Síðan verða augngotur að eftirsetu, eftirsetan verður að snertingu, snerting verður að fundum utan skóla, fundir utan skóla verða að skriflegri játningu, játningin verður að lokum að áminningu um raunveruleikann og þegar hún rekst á hann í bænum með eiginkonunni heilsar hann ekki. Hann missir áhugann, hættir að hafa samband og þráðurinn á milli þeirra slitnar.
Eftir situr hún sárþjáð, ringluð og reið. Hún á erfitt með að sofa, er hrædd og vill helst skríða undir skel: „Ég þori ekki að vera til eftir þetta.“
Punktur og basta
Dagbókarfærslur Þóru Hreinsdóttir fá stoð í gögnum, vitnisburðum og bréfinu, þar sem hann gengst við fundi þeirra og sagði „fegurð æskunnar drottnandi afl í tilverunni“. Kvaðst hann ekki hafa hringt heim til hennar því hann treysti sér ekki til að vera nógu „kæruleysislegur í röddinni“ til að hylma yfir ásetninginn, en hann hefði oft hugsað um að „stinga af frá öllu út í guðsgrænt vorið“, þar sem hann gæti legið með „höfuðið í kjöltu hennar“, horft upp í himininn, tuggið puntstrá og falið sig í hálsi hennar, „strítt þér og orðið aftur ungur og ástfanginn“: „Mundu að ég hugsa oft til þín og þá slær hjartað örar og blóðið rennur hraðar.“
Viðbrögð Jóns Baldvins voru hins vegar að spyrja hvaða tilgangi það þjóni að grafa upp 50 ára gamla dagbókarfærslu unglingsstúlku „til að gefa í skyn – vekja grunsemdir um – að samskipti hennar við kennara sinn gætu hafa verið af „kynferðislegum toga?““
Sakaði hann fjölmiðilinn um „aðför að mannorði sínu“, „sorpblaðamennsku“ og neitaði að ræða við „mannorðsþjófa“. „Það er eitthvað annað en sannleiksástin, sem býr að baki þessari aðför að mannorði mínu.“ Hann gæti fullyrt að umrædd stúlka varð ekki fyrir kynferðislegri áreitni af hans hálfu. „Púnktur og basta.“
Þótt Jón Baldvin sjái ekki tilganginn með því segja bæði dóttur Þóru og ekkli mikilvægt að málið komi upp á yfirborðið, meðal annars vegna þess hve alvarlegar afleiðingar það hafði fyrir hana.
Fleiri nemendur segja frá
Árið 2019 lýsti Matthildur Kristmannsdóttir því í viðtali við Stundina hvernig Jón Baldvin hefði reglulega látið hana sitja eftir að loknum tíma í íslensku, snert hana og gengið lengra í hvert sinn. Snertingin sem hún lýsti var kynferðisleg. María Alexandersdóttir, sem var með Matthildi í bekk, sagðist hafa óttast að verða næst. Í tímum hefði hann grúft sig yfir hana, alveg upp að andliti hennar, lagt hendur sínar yfir axlir hennar og strokið henni. Loks hafi komið að því að hann sagði henni að sitja eftir en hún neitaði, hún vildi ekki lenda í því sama og bekkjarsystir sín. „Þetta var alveg nóg til að maður var alltaf drulluhræddur,“ útskýrði hún. Vitni staðfestu frásagnir þeirra.
Jón Baldvin neitaði að svara ásökunum þeirra efnislega: „Engin gögn fyrirfinnast um að ég hafi kennt umræddum bekk. Meðan svo er, hef ég ekki meira um það að segja,“ skrifaði Jón Baldvin í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu. Hann lagðist síðan gegn því að Stundin fengi umrædd gögn afhent. Af því að gögnin voru víst til, staðfestingin á að hann hefði svo sannarlega kennt stúlkunum sem hann vildi ekki kannast við en sökuðu hann um að hafa brotið gegn þeim þegar hann var kennari í Hagaskóla, rétt áður en hann fór fram á opinberum vettvangi til að ræða áhyggjur af ófremdarástandi í gagnfræðaskólum landsins vegna skorts á hæfum kennurum, sem gæti valdið kennarastéttinni álitshnekkjum.
„Ég tók andann djúpt og gekk áfram og þorði ekki að líta aftur fyrir mig“
Þriðja konan sem lýsti kynferðislegri áreitni af hálfu hans sem kennara í Hagaskóla, Sigurbjörg Jónsdóttir, steig fram síðar á sama ári í viðtali við Fréttablaðið. Í viðtalinu lýsti hún því hvernig hann hefði kallað hana í aukatíma daginn sem jólafríið hófst veturinn sem hún var fimmtán ára. Hún var hissa en fylgdi fyrirmælum, gekk ein um skólagangana, í átt að skólastofunni en þegar þangað var komið hafi hann gengið svo nærri henni að hún reis upp, reiddist og rauk út. Veður var kalt en hún gæti aldrei gleymt því hvað það var mikill léttir að anda að sér fersku súrefni, því hún var „algjörlega búin“. „Ég var bara að niðurlotum komin,“ sagði hún og hélt áfram: „Ég tók andann djúpt og gekk áfram og þorði ekki að líta aftur fyrir mig.“ Þar sem hann hefði boðað annan aukatíma hefði hún tekið málin í eigin hendur, bankað upp á hjá öðrum enskukennara í fríinu og fengið að færa sig yfir til hans eftir áramót.
Frásögn Þóru er sú fjórða er varðar nafngreindan nemanda hans í Hagaskóla.
Stígandi í skrifunum
Mun fleiri konur hafa komið fram, ýmist undir nafni eða ekki, til að deila sambærilegri reynslu af marka- og virðingarleysi af hans hálfu á öðrum vettvangi lífsins. Þeirra á meðal eru fjölskyldumeðlimir, dóttir hans, mágkona hans og ung frænka eiginkonunnar.
Það var reyndar hún, Guðrún Harðardóttir, sem rauf þagnarmúrinn árið 2012 og opinberaði bréfasendingar hans á árunum 1998 til 2001. Hún var fjórtán ára þegar síminn hringdi í skólastofunni í Hagaskóla og hún var send upp á skrifstofu því þar biði hennar bréf. Undrandi en forvitin skottaðist hún inn á skrifstofu, aðeins til að finna þar bréf frá eiginmanni móðursystur sinnar. Í bréfunum bað hann hana um að halda þeim leyndum „þangað til 50 árum eftir okkar dag“. Alls voru bréfin átta talsins, þar af fimm frá árinu 1998, og í þeim var ákveðin stígandi.
Til að byrja með talaði hann um: „Japanskar blómarósir sem liðu hjá blaðskellandi með aðdráttarlinsur fyrir augunum minntu mig á þig. Af hverju? Af því bara, jú, af því að þær voru skáeygðar með há kinnbein og í æskublóma eins og þú. Og þá fannst mér allt í einu rétti tíminn til að skrifa þér, þrátt fyrir daufar undirtektir.“
„Þær voru skáeygðar með há kinnbein og í æskublóma eins og þú“
Í seinni bréfum talaði hann um hana og vændiskonur í sömu andrá. „Í Austur-Evrópu er alltaf fullt af háklassahórum,“ „til að fá frið bauð ég einni með mér í mat. Hún var cirka 18 (ert þú ekki að nálgast það?),“ „þær voru á aldur við þig, allar slavnesk fegurð á háum hælum og með tagl, naktar nema með fíkjulauf fyrir það allra heilagasta og streng um rassinn,“ „sú kátasta sagðist fá meira fyrir ein munnmök en sem barnfóstra á mánuði,“ þetta væru „praktískar konur, að fara skynsamlega að boðum markaðarins. Voila!“ Guðrún ætti að senda honum bréf í sendiráð Íslands í Washington og merkja það prívat. „En ég tek auðvitað ekki við bréfi frá þínum ungmeyjarblóma nema þú segir mér einlæglega frá vöku og draumi, lífi og losta, og nóttinni í frumskóginum (eða kaþólska skólanum). Skilurðu?“
Í allra síðasta bréfinu lýsti hann kynlífi með eiginkonu sinni: „Ég færði mig nær og fór að ríða henni í hægum takti og hún stundi þungt eins og skógardís undir sígröðum satyríkon,“ sem hann útskýrði að væri maður fyrir ofan mitti en „hreðjarmikill geithafur að neðan,“ sem „serðir konur án afláts“. Hann yrði aleinn og yfirgefinn í höfuðborg heimsins, hvatti Guðrúnu til að koma að stytta honum stundir, nóg væri plássið í höllinni. „Ég varð brjálæðislega hrædd,“ sagði hún síðar í viðtali við Nýtt líf.
Bréfritarinn beðist afsökunar
Guðrún kærði Jón Baldvin fyrir kynferðislega áreitni árið 2005. Í yfirheyrslu viðurkenndi hann „dómgreindarbrest“ en neitaði að hafa haft „nokkuð kynferðislegt í huga gagnvart henni“. Um væri að ræða „bréfaskriftir fullorðins fólks“, en hún var 16 og 17 ára gömul þegar síðustu bréfin bárust. Málið var látið niður falla, skortur virðist hafa verið á sönnunum fyrir kynferðislegri áreitni því hann var líka sakaður um óviðeigandi snertingu, og fyrri bréfin voru fyrnd. Hluti seinni bréfa var talinn falla undir hegningarlagaákvæði um brot á blygðunarsemi, en bréfin voru bæði send og opnuð erlendis, þar sem sambærileg lagaákvæði voru ekki til staðar. Þar af leiðandi var ekki heimild í lögum til að sækja refsingu fyrir hin meintu brot.
„Þetta á ekkert erindi við almenning, frekar en geðveiki dóttur minnar“
Niðurstöðuna hefur Jón Baldvin notað sér til varnar, saklaus uns sekt er sönnuð og allt það. Strax árið 2012 sagði hann: „Þetta mál snýst ekki um kynferðisafbrot af neinu tagi, svo sem staðfest er af réttarkerfinu. Það snýst um bréfasendingar lífsreynds manns og óþroskaðrar stúlku, þar sem bréfritarinn hefur ítrekað beðist afsökunar á dómgreindarbresti og boðist til að gera allt sem í hans valdi stendur til að bæta fyrir glöp sín.“
Útskýrt hefur verið hvers vegna sáttatilraunir hans hafa misfarist: Hann hefur aldrei axlað ábyrgð á misgjörðum sínum, í stað þess að viðurkenna brotin sem Guðrún ber á hann hefur hann gert lítið úr málinu, hafnað hluta þess, vísað í annarlegan ásetning og veikindi dóttur sinnar. Það er eitt að biðjast fyrirgefningar, annað að ávinna hana með gjörðum sínum eða sýna iðrun í verki. Eftir að Guðrún steig fram var hún vænd um ósannindi, eftiráskýringar og aðild að samsæri. Fyrstu viðbrögð Jóns Baldvins við opinberun bréfanna var: „Þetta á ekkert erindi við almenning, frekar en geðveiki dóttur minnar.“
Ískaldur hrollur
Eftir sat spurningin, hvað hafði geðveiki dóttur hans með óviðeigandi bréfasendingar hans til unglingsstúlku í fjölskyldunni að gera? Dóttir hans hafði aldrei stigið inn í opinbera umræðu, heldur var það faðir hennar sem dró hana þangað í tilraun til að draga athygli frá sjálfum sér og misgjörðum sínum. Aðrir fjölskyldumeðlimir tóku undir og stefið var alltaf það sama: Ásakanir Guðrúnar um kynferðislega áreitni af hálfu Jóns Baldvins væru eftiráskýringar sem mætti rekja til dóttur hans, væru hluti af haturs- og hefndarherferð hennar, drifin áfram af sjúkum hugarórum geðveikrar konu.
Skömmu eftir birtingu bréfanna skrifaði systir hennar grein um „sjúklinginn“ í fjölskyldunni, sem hefði þurft að hafa afskipti af „til að koma í veg fyrir að hann færi sjálfum sér og öðrum að voða“. Alkunna væri að eftir slík afskipti beinist „reiði hins sjúka“ fyrst og fremst að nánustu aðstandendum. „Sjúkir hugarórar“ um kynferðislega misnotkun væri algengt og alþekkt sjúkdómseinkenni. Það er alls ekki óþekkt að systkini rísi upp til varnar föður sínum. Þegar dóttir biskups sakaði föður sinn um kynferðisbrot kom bróðir hennar fram í Kastljósi til að halda því fram að hún væri með falskar minningar. Í þessu tilfelli hafði Kolfinna Baldvinsdóttir fengið símtal tíu árum fyrr frá Guðrúnu, sem greindi frá áreitninni. Um það hafði Kolfinna þetta að segja: „Hatrið gróf um sig og hefndarhugurinn réð för. Þetta er fjölskylduharmleikurinn sem býr að baki þessu máli.“
„Þetta er fjölskylduharmleikurinn sem býr að baki þessu máli“
Seinna á sama ári skrifaði móðir þeirra sömuleiðis grein þar sem hún sagðist vera búin að fá nóg af „rógi, aðdróttunum, hatursskrifum, illsku og lítilmennsku“. Verið væri að breiða út ógeðfelldar aðdróttanir um eiginmann hennar „í skjóli myrkurs“. Umfjöllunina í Nýju lífi kallaði hún „ákæruskjal“ og sagði lýsingar Guðrúnar af áreitni í æsku „það ljótasta við frásögnina“, ósannindi og „eftiráspuna“. Það væri „óskiljanleg mannvonska og illgirni að dæma mann opinberlega sem barnaníðing út af söguburði eins og þessum“, sagði hún. Í því fælist ekki aðeins mannfyrirlitning heldur einnig kvenfyrirlitning: „Hvað með mig í öllu þessu fári?“ spurði hún og benti á dóttur sína. Þegar hún hefði lesið að dóttir þeirra stæði sem klettur að baki frænku sinni hefði farið um hana „ískaldur hrollur“. Allt í einu hefði hún skilið samhengi hlutanna. Gerði hún fjölmiðlinum upp annarlegan ásetning með birtingu bréfanna. „Það er ljótt að færa sér í nyt fjölskylduharmleik annarra í því skyni að koma höggi á einhvern, sem manni er í nöp við.“
Þreytandi að þurfa að sverja af sér geðveiki
Aldís Schram, dóttir þeirra, virðist ekki vera sú eina sem var sökuð um geðveiki vegna málsins. Í grein sem systir Guðrúnar skrifaði henni til varnar sagði: „Að þurfa að sverja af sér lygar og geðveiki er þreytandi til lengdar.“ Af þeim sökum hefði Guðrún ákveðið að leggja staðreyndir málsins á borðið, svo hægt væri að taka afstöðu til þeirra. Ekkert annað lægi þar að baki. Hins vegar væri áhugavert að sjá að pólitískar samsæriskenningar fjölskyldunnar, sem hafi fyrst snúist um að málið væri runnið úr rifjum gamalla kvennalistakvenna, væru nú orðnar persónulegar.
„Svona hagar enginn faðir sér“
Árið 2013 svaraði Aldís fyrir sig, sakaði föður sinn um að hafa brotið gegn sér og beitt valdi sínu til að nauðungarvista sig á geðdeild, þar sem hún hefði fengið geðgreiningu á mettíma sem læknar hefðu seinna lýst efasemdum um. Verst væri að í gegnum skrif systur sinnar hafi skinið í gegn að hún væri ill og rætin að ljúga sökum á föður sinn. „Sök sér að vera geðveik – hvað með það? Eru ekki margir snillingar með geðhvarfasýki? En ég er ekki og hef aldrei verið geðveik.“
Hún lýsti líka sársauka gagnvart föður sínum. „Að hann skyldi opinberlega skrifa níð um mig, frá þeim degi er hann ekki faðir minn, því svona hagar enginn faðir sér.“
Samfelld leiksýning
Viðbrögð Jóns Baldvins við því að fjórar nafngreindar konur stigu fram árið 2019 til að bera á hann sakir um kynferðislega áreitni voru viðbrögðin þau sömu og áður: „Aldís dóttir mín hefur spunnið þær sögur.“
Sama stef var enn viðhaft þegar frásagnirnar voru orðnar 23, frá nafngreindum og ónafngreindum konum. Þá skrifaði Jón Baldvin grein þar sem hann spurði: „Hvers vegna er elstu dóttur okkar svo mjög í nöp við foreldra sína, eins og raun ber vitni? Hversu margar eru þær fjölskyldur í okkar litla samfélagi sem eiga um sárt að binda vegna geðrænna vandamála einhvers í fjölskyldunni? Hversu algengt er það ekki að reiði og hatur sem af hlýst beinist fyrst og fremst að nánustu aðstandendum? Þetta er kjarni málsins.“
„Aldís dóttir mín hefur spunnið þær sögur“
Enn var verið að vinna með kenninguna um að geðveik dóttir hans hefði sannfært allar þessar konur um að bera á hann sakir. Konur sem komu jafnvel fram undir nafni og mynd og sögðu frá atvikum, frásagnirnar voru sumar hverjar studdar vitnum eða gögnum. En allar voru þær afskrifaðar. Þegar kona kærði hann fyrir kynferðislega áreitni sakaði hann hana um að hafa „smyglað“ sér inn á heimili þeirra hjóna til að „sviðsetja“ atvik, sem leiddu til ákæru. Hann var sýknaður í héraðsdómi en málið bíður afgreiðslu Landsréttar.
Eitt sinn lét eiginkona hans hafa eftir sér í viðtali að „lífið hefur auðvitað verið samfelld leiksýning“.
Föst í hryllingsmynd
Aftur svaraði dóttir hans fyrir sig, nú í viðtali við Morgunútvarpið á RÚV, þar sem hún endurtók frásögnina af því hvernig faðir hennar hefði beitt stöðu sinni sem ráðherra og síðar sem sendiherra til að fá hana nauðungarvistaða á geðdeild eftir að hún bar á hann sakir um kynferðisbrot. Sem sendiherra hafi hann ítrekað sent beiðni um nauðungarvistun, notað bréfsefni sendiráðsins og í einhverjum tilvikum skrifað undir sem sendiherra. Í eitt skiptið var aðgerðin merkt sem „aðstoð við erlent sendiráð“ í gögnum lögreglu.
Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að hún hafi verið hættuleg öðrum, geðveik eða ekki. Hins vegar er fjöldi fólks sem gengur laus í þessu samfélagi sem hefur orðið uppvíst að alvarlegum ofsóknum og ofbeldi án þess að það sé nauðungarvistað inni á stofnunum, „til að koma í veg fyrir að það fari sjálfum sér og öðrum að voða“.
„Ég gat ekki sætt mig við að vera útmáluð geðveik“
Í kjölfar viðtalsins dró faðir hennar hana fyrir dóm. Þar var hún innt svara við því hvers vegna hún steig sjálf fram í DV árið 2013, skömmu eftir að Jón Baldvin hafði sagt hana geðveika í sama blaði. „Ég gat ekki sætt mig við að vera útmáluð geðveik,“ svaraði hún. Það hafi verið „eins og að vera föst í hryllingsmynd“ að hlusta á hvernig fjölskyldan talaði um hana á opinberum vettvangi.
Illska og geðveiki
Að stimpla óþægilegt fólk geðveikt er algeng aðferð í deilumálum. Sérstaklega konur sem lýsa athöfnum manna í áhrifastöðum. Nýjasta dæmið er frá Akureyri. Þegar konur í Flokki fólksins sökuðu flokksfélaga um lítilsvirðandi framkomu og kynferðislega áreitni, svaraði flokksbróðir þeirra með aðsendri grein þar sem þær voru kallaðar „svikakvensur“ og ýjað var að því að ein væri veik á geði: „Ég hafði margt misjafnt um hana heyrt og sel ekki dýrar en ég keypti eins og fyrr segir, ef til vill minnugur þeirrar umfjöllunar um ýmislegt misindisfólk sem er ekki heilt á geði og ber fyrir sig jafnvel hnífa,“ skrifaði maðurinn sem kallar sig „guðfaðir“ framboðslista Flokks fólksins á Akureyri.
„Illskan á sér hins vegar engin takmörk hjá þessum hópi“
Annar maður að norðan, skipstjóri hjá Samherja sem var hluti af hópnum sem kallaði sig skæruliðadeildina og skipulagði rógsherferðir gegn blaðamönnum og uppljóstrara, hefur tekið upp þetta sama stef. Að það hafi verið rangt að afhjúpa aðferðir þeirra vegna þess að konan hans sé svo veik á geði. „Illskan á sér hins vegar engin takmörk hjá þessum hópi“ fjölmiðlamanna, skrifaði hann, „og það að misnota fjölskylduharmleik og veikan einstakling með ekkert sjúkdómsinnsæi er það lágkúrulegasta sem ég veit.“
Segir maðurinn sem tók þátt í samtali um hvernig ætti að bera rangar sakir á uppljóstrara til að fyrirbyggja vitnisburð hans fyrir dómi og „stinga, snúa og strá salti í sár“ fjölmiðlamanna.
Að skapa eigin orðstír
Áður hafði blaðamaður sem varð fyrir stöðugu áreiti um langt skeið vegna umfjöllunar um málið, af hálfu starfsmanns Samherja, einnig fengið á sig sama stimpil. Með því er reynt að senda þau skilaboð að fólk sé ómarktækt ef það missir geðheilsuna, en þeir sem það gera afhjúpa fyrst og fremst hættulega fordóma sem geta komið í veg fyrir að fólk leiti sér aðstoðar ef á þarf að halda.
Ekki er óeðlilegt að fólk verði fyrir geðheilsubresti í aðstæðum sem reynast of þungbærar, til dæmis vegna alvarlegra áfalla og afleiðinga ofbeldis. Ekki síst ef brotaþolum er ekki trúað, þeir fá ekki viðeigandi stuðning og mæta þöggun.
Fyrir nokkrum árum áttu íslenskir ráðherrar heimsmet í notkun aflandsfélaga. Nú hlýtur þessi fyrrverandi ráðherra að eiga Íslandsmet í fjölda MeToo-frásagna af einum og sama manninum. Þrátt fyrir það er enn tekist á um réttmæti þeirra. Víða er leitað að sökudólgum, annars staðar en hjá honum sjálfum, manninum sem var sekur um að skrifa kynferðisleg bréf til unglingsstúlku, hefur viðurkennt það, beðist afsökunar og boðist til að bæta fyrir brot sín, með þeim fyrirvara þó að dóttir sín væri geðveik.
Dagbók Þóru er skrifuð frá 1969 til 1970, þegar hann tók við sem skólameistari Menntaskólans á Ísafirði. Áratugum síðar áttu eftir að berast frásagnir af honum þaðan líka, en við skólasetningu áréttaði hann við nemendur að það væri í þeirra höndum að skapa sér orðstír, góðan eða slæman.
Whatsapp núna: +639451256230
Þjóðin þarf að fá að vita þetta, því miður.
Mín skoðun er að ef einhver er geðveikur í fjölskyldu JBH, þá er það hann sjálfur.
Ég óska ykkur öllum velfarnaðar í ykkar nauðsynlega starfi.