Rússar héldu á dögunum það sem þeir kölluðu atkvæðagreiðslu meðal íbúa í fjórum héruðum Úkraínu, sem þeir halda með vopnavaldi að miklu leyti, og átti atkvæðagreiðslan að sýna að íbúar þráðu það heitast að innlima lönd sín í Rússland.
Allir vita þó að þessi atkvæðagreiðsla var einskis virði og ómarktæk með öllu. Vonandi tekst á endanum að hrekja Rússa með einum eða öðrum hætti burt frá þessum héruðum svo íbúar þar og Úkraínumenn allir geti óþvingaðir tekið eigin ákvarðanir um framtíð sína.
Lifað með kúgurunum?
En setjum nú svo að það takist ekki. Þrátt fyrir ýmis áföll Rússa á vígvellinum þá verði þeir ekki hraktir burt frá héruðunum og þar komi að alþjóðasamfélagið standi frammi fyrir því sem orðnum hlut.
Og þurfi einhvern veginn að læra að lifa með því að Rússar ráði þessum héruðum í fyrirsjáanlegri framtíð.
Þó færi sannarlega ekki á milli mála að hlutskipti úkraínskra íbúa héraðanna væri hörmulegt.
Þeir væru annars flokks borgarar í eigin landi og reyndar mætti varla segja að þeir nytu nokkurra borgararéttinda yfirleitt. Rússneskir íbúar í héruðunum væri yfirstétt á svæðinu. Nýaðfluttir Rússar nytu hvarvetna meiri réttinda heldur en Úkraínumenn sem hefðu þó búið í héruðunum svo kynslóðum skipti.
Þá hefðu Rússar á sumum stöðum í héruðunum tekið upp á því að útdeila sérstökum „verndarsvæðum“ til Úkraínumanna og svo ætti að heita að í borgum og bæjum á þeim svæðum nytu þeir frelsis og sjálfstjórnar.
Risastór fangelsi
Í reynd væru þessi „verndarsvæði“ þó ekkert annað en risastór fangelsi þar sem Úkraínumönnum væri þjappað saman eins og síld í tunnu. Umhverfis þau væri rússneski herinn og brygðist hart við ef minnsti vottur væri uppi um andstöðu við hernámsöfl Rússa.
Vanmáttug skæruliðahreyfing Úkraínumanna sendi öðru hvoru litlar eldflaugar á svæði Rússa og þótt þær yllu ekki miklu tjóni notuðu Rússar þær árásir sem tylliástæðu til þess að ráðast með skriðdrekum, þyrlum og eldflaugum inn á „verndarsvæðið“ og leggja þar allt í rúst sem þeim þóknaðist.
Mannréttindi Úkraínumanna væru öll fótum troðin, Rússar hikuðu ekki við að gera árásir á íbúðarhúsnæði og skjóta á hús og byggingar án þess einu sinni að ganga úr skugga um hvort þar væru börn inni.
Sviðsmynd, sviðsmynd!
Og ekki nóg með það, heldur væru rússneskir „landnemar“ sífellt að fara inn á þau svæði sem Rússar hefðu þó að nafni til úthlutað til Úkraínumanna, og reisa sér byggðir og bú á skástu skikunum.
Og þótt þessir „landnemar“ væðu uppi með ofbeldi, frekju og yfirgang, þá væru þeir svo dyggilega studdir rússneska hernum að Úkraínumenn yrðu að láta þetta allt yfir sig ganga.
Þetta væri ömurlegt hlutskipti fyrir Úkraínumenn, finnst ykkur það ekki? En þetta er reyndar mjög raunhæf sviðsmynd – eins og það heitir nútildags – ef öll Evrópa leggst ekki á eitt að koma Rússum burt frá héruðunum fjórum.
Þetta gæti allt vel gerst, og er reyndar kannski þegar byrjað að gerast að baki víglínunni.
Og hvað ættum við að gera? Yppta öxlum, segja gert er gert og einbeita okkur að einhverju öðru?
Til dæmis fara að undirbúa Eurovision þótt við vissum að þar myndum við keppa við Rússa sem í héruðunum fjórum kúguðu Úkraínumenn svo skefjalaust?
Skálað í freyðivíni?
Væri þá svo komið að Rússar væru aftur komnir til leiks í Eurovision og Felix Bergsson og íslenska keppnissveitin myndi glaðbeitt skála í freyðivíni við keppnisnefnd Rússa?
Ég ætla rétt að vona ekki. Ég ætla rétt að vona að hið íslenska RÚV og Felix Bergsson og íslensk stjórnvöld og íslenskir listamenn hefðu bein í nefinu til að taka ekki þátt í slíkum skrípaleik, og myndu berjast af afefli fyrir því að Rússar fengju enn ekki að vera með í þessari söngvakeppni Evrópu sem á að vera hylling til gleði og frelsis og fjölbreytileika.
Það væri enda fáránlegt að keppa í gleði og frelsi og fjölbreytileika við ríki sem hefur aðra þjóð í fangelsi.
Það væri það minnsta sem við gætum gert, að keppa ekki við fangaverðina í Eurovision.
Einræðisherrar kunna á samstöðusýningar
Nú kunna menn að segja að Eurovision sé ekki merkilegt mál, en það er samt táknrænn viðburður.
Og reyndar meta engir táknræna atburði og samstöðusýningar meira en grimmir einræðisherrar. Þeir kunna á svoleiðis og gera sér öðrum betur grein fyrir mikilvægi þess.
En við tækjum sem sagt auðvitað ekki í mál að Rússar fengju að troða upp í Eurovision. Ef samtök evrópskra sjónvarpsstöðva ætluðu að leyfa slíka svívirðu, þá myndum við sjálf sitja heima.
Er það ekki?
Ég þarf vonandi ekki að stafa oní ykkur hvað ég er að fara. Við erum í samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva með tilteknu ríki sem einmitt leikur aðra þjóð (að breyttu breytanda) jafn hrottalega og í þessu dæmi um Rússa og Úkraínumenn.
Bara táknrænn verknaður?
En við keppum við Ísrael eins og ekkert sé í Eurovision þótt Ísraelsmenn haldi palestínsku þjóðinni í viðurstyggilegri herkví og meti einskis mannréttindi hennar, eða jafnvel líf hennar, þegar svo ber undir.
Er ekki kominn tími til að hætta því? Krefjast þess að Ísrael verði vísað úr keppni, en að öðrum kosti þá sitjum við heima?
Berjumst af öllum mætti gegn hræðilegum framgangi Rússa í Úkraínu en látum ekki standa okkur að þeirri hræsni að segja bara humm og pass og ha og hvaða lag ætli Ísraelsmenn sendi í Eurovision þetta árið, þegar um er að ræða mannréttindabrot Ísraels gegn Palestínufólki.
Það væri vissulega bara táknrænn verknaður að hætta í Eurovision vegna kúgunar Ísraels í Palestínu en það var líka bara táknrænn verknaður þegar Ísland viðurkenndi sjálfstæði Eystrasaltsþjóðanna.
Athugasemdir