Sterkar vísbendingar eru um að börn sem vistuð voru á meðferðarheimilinu Laugalandi, áður Varpholti, hafi verið beitt alvarlegu andlegu ofbeldi með kerfisbundnum hætti. Um helmingur þeirra barna sem tekin voru viðtöl við við rannsókn á starfsemi meðferðarheimilisins lýstu einnig líkamlegu ofbeldi og áreitni. Þá urðu önnur börn vitni að slíku ofbeldi. Barnaverndarstofa brást eftirlitshlutverki sínu.
Þetta er megin niðurstaða greinargerðar starfshóps Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, sem var falið að rannsaka hvort og þá í hvaða mæli „börn, sem vistuð voru á meðferðarheimilinu Varpholti/Laugalandi á árunum 1997 til 2007, hafi sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi meðan á dvöl þeirra stóð“.
Óttastjórnun, harðræði og niðurbrot
Í skýrslunni kemur fram að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem vistuð voru á heimilinu og starfshópurinn tók viðtöl við upplifðu andlegt ofbeldi á meðan á vistuninni stóð. Það ofbeldi lýsti sér í óttastjórn, harðræði og niðurbroti. Sterkar vísbendingar eru um að alvarlegu andlegu ofbeldi hafi verið beitt með kerfisbundnum hætti. Um helmingur þeirra sem tekin voru viðtöl við lýstu því að hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og önnur börn lýstu því að hafa orðið vitni að líkamlegu ofbeldi.
Það er niðurstaða starfshópsins að barnaverndaryfirvöld hafi brugðist eftirlitsskyldu sinni.
Það gerðu þau með því að bregðast ekki við ákalli um aukna geðheilbrigðisþjónustu, sem fram kom, og að skoðun á dagbókum og fundargerðabókum heimilisins hefðu átt að vekja grunsemdir um að á heimilinu ríktu neikvæð viðhorf í garð barnanna. Barnaverndaryfirvöld hefðu þá átt að kanna hvort þau neikvæðu viðhorf endurspegluðust í framkomu starfsfólks og stjórnenda meðferðarheimilisins við börnin sem þar voru vistuð. Eins hefðu barnaverndaryfirvöld átt að skerast í leikinn þegar ljóst varð að mikið álag væri á starfsmönnum.
Enn fremur kemur fram að gagnrýnd þekking um afleiðingar áfalla í æsku var þegar til staðar á árabilinu 1997 til 2007. Sú þekking var ekki innleidd í meðferðarúrræði Barnaverndarstofu á meðferðarheimilinu Varpholti og síðar Laugalandi.
30 af 34 lýstu andlegu ofbeldi
Tekin voru viðtöl við 34 fyrrverandi vistbörn á meðferðarheimilinu, rúman helming þeirra sem vistuð voru þar á umræddu tímabili. Alls voru 65 vistbörn vistuð í Varpholti og á Laugalandi á árunum 1997 til 2007.
Af þeim 34 sem viðtöl voru tekin við lýstu 22 því að þörfum þeirra hefði ekki verið mætt. Mörg sögðu faglega þjónustu hafa verið af skornum skammti og og ófullnægjandi, jafnvel lítilsvirðandi. Sálfræðiþjónusta var af skornum skammti og læknisþjónustu einnig og jafnvel ekki til staðar. Alls sögðu 14 stúlkur frá því að þær hefðu verið sendar til kvensjúkdómalækna á vegum meðferðarheimilisins og lýstu margar þeirra þeim heimsóknum sem neikvæðum.
Af þessum 34 vistbörnum lýstu 30 því að þau hefðu upplifað andlegt ofbeldi á heimilinu. Var um að ræða óttastjórnun, harðræði og niðurbrot, einkum af hendi Ingjalds Arnþórssonar forstöðumanns en einnig af hálfu Áslaugar Brynjarsdóttur, forstöðumanns og eiginkonu Ingjalds. Þá greindu 9 viðmælendur frá því að hafa orðið vitni að því að aðrir unglingar á heimilinu væru beittir andlegu ofbeldi.
Starfsmenn sem störfuðu á heimilinu á þessum tíma vildu ekki kannast við slíkar lýsingar, þó með undantekningum. Þeir könnuðust hins vegar við skapsveiflur og mislyndi Ingjalds og voru almennt sammála um að geðslag hans hefðu haft áhrif á starfsemina.
Hvorki Ingjaldur né Áslaug könnuðust við að hafa talað niður til vistbarna eða notað niðrandi orð í samskiptum við þau, fyrir nefndinni.
Hrint, lamin og slegin
Alls greindu 14 af 34 vistbörnum frá því að hafa verið beitt líkamlegu ofbeldi. Í tólf tilvikum var Ingjaldur tilgreindur sem gerandi en í tveimur tilvikum Áslaug. Því til viðbótar sögðust 11 vistbörn hafa orðið vitni að, ýmist séð eða heyrt, þegar Ingjaldur beitti aðra líkamlegu ofbeldi. Lýsingar þeirra voru af því að vistbörnum hefði verið hrint niður stiga, þau lamin með inniskó eða þau slegin utan undir.
Starfsfólk kannaðist ekki við að vistbörn hefðu verið beitt líkamlegu ofbeldi eða líkamlegum refsingum. Þá kannaðist starfsfólk ekki við að börnin hefðu kvartað undan ofbeldi af hálfu þeirra Ingjalds eða Áslaugar. Þau sjálf neituðu fyrir nefndinni að hafa beitt vistbörn ofbeldi og neituðu því einnig að um kerfisbundið ofbeldi hefði verið að ræða á heimilinu.
Í einu tilviki greindi stúlka frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti af hálfu starfsmanns. Starfsmenn á heimilinu könnuðust við það og kvaðst einn hafa tilkynnt atvikið til Barnaverndarstofu. Starfsmaðurinn sem um ræðir hætti störfum á Laugalandi en var skömmu síðar falið að veita öðru meðferðarheimili forstöðu. Heimilið var rekið með þjónustusamningi við Barnaverndarstofu .
Neikvæð viðhorf og ónærgætni í skýrslum
Í greinargerðinni kemur fram að í lokaskýrslum um fjölda vistbarna, sem unnar voru við útskrift þeirra af heimilinu, hafi verið að finna neikvæðan tón og ónærgætnar lýsingar sem lýsi neikvæðum viðhorfum til stúlkna sem vistaðar voru þar. Neikvæð skrif um vistbörnin eru þá áberandi í fundargerðabókum heimilisins og finna má þar viðkvæmar og persónulegar upplýsingar um málefni einstaka barna, sem leynt hefðu átt að fara.
Skrifaðar voru dagbókarfærslur á heimilinu um daglegt líf þar. Í þeim mátti einnig finna persónulegar upplýsingar og persónugreinanlegar skráningar á heilsufarsupplýsingum barna sem voru vistuð í Varpholti og á Laugalandi. Á fremstu síðu í fyrstu dagbókinni stendur skrifað, til þeirra sem færa myndu í hana upplýsingar:
„Skrifaðu aldrei neitt í þessa bók sem þú getur ekki staðið við fyrir dómstólum. Allt sem þú skrifar í þessa bók kann að vera notað gegn þér“.
Þá kemur fram að innra eftirlit með starfsemi meðferðarheimilisins hafi verið í höndum Barnaverndarstofu. Sama manneskjan sinnti því eftirliti með örfáum undantekningum. Fram kemur í viðtölum við fyrrverandi vistbörn að þau treystu ekki þeirri manneskju enda hafi mikil tengsl verið milli hennar og forstöðuhjónanna Ingjalds og Áslaugar. Gögn frá Barnaverndarstofu staðfesta að svo hafi verið en eftirlitsaðilinn var í miklum samskiptum við heimilið. Samkvæmt gögnum virðast engar grunsemdir hafa vaknað um neikvæð viðhorf forstöðufólksins í garð barnanna við eftirlitið, jafnvel þó það hafi meðal annars falist í að skoða dagbækur og fundargerðir.
Tíu kvartanir en ekkert að gert
Á árunum 1997 til 2007 bárust Barnaverndarstofu 10 kvartanir vegna starfsemi heimilisins. Tvær komu frá viststúlkum, tvær frá mæðrum fyrrum viststúlkna, tvær frá barnaverndarstarfsmönnum, ein frá Umboðsmanni barna, ein frá félagsmálastjóra sveitarfélags, ein frá BUGL og ein frá fagaðila sem sinnti störfum á Laugalandi. Níu þessara kvartana vörðuðu starfshætti eða framkomu og vinnubrögð Ingjalds sérstaklega. Sex lutu að harðræði, ofbeldi, ósæmilegu orðbragði eða fráhrindandi framkomu gagnvart vistbörnum. Ein sneri að ruddalegri framkomu Ingjalds við stúlku og foreldra hennar, ein að samskiptum hans við BUGL og ein að samskiptum við félagsmálastjóra sveitarfélags. Umboðsmanni barna bárust fjórar tilkynningar á tímabilinu
Niðurstaða greinargerðarinnar er að langflest vistbörnin sem rætt var við upplifðu andlegt ofbeldi í Varpholti og Laugalandi. Svo sterkar vísbendingar eru um að slíku andlegu ofbeldi hafi verið beitt að „má staðfesta að svo hafi verið,“ segir í skýrslunni.
Athugasemdir (4)