Gert er ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs nemi 1.117 milljörðum króna á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023. Alls verður ríkissjóður rekinn með 89 milljarða króna halla á næsta ári.
Langstærstur hluti tekna ríkissjóðs er tilkominn með skatttekjum, 78,5 prósent, eða ríflega 877 milljarðar króna. Tryggingagjöld skila 126,8 milljörðum króna og aðrar tekjur 106,7 milljörðum.
Virðisaukaskattur skilar ríkissjóði hæstum fjármunum á næsta ári er marka má fjárlagafrumvarpið. Tekjur ríkissjóðs af innheimtum virðisaukaskatti munu nema 338 milljörðum króna á næsta ári, alls 34 prósentum af öllum tekjum ríkisins.
4%
Skattar af tekjum og hagnaði eru næst stærsti tekjuliður ríkisins en alls skilar þeir skattar 384,6 milljörðum króna, ef fjárlagafrumvarp stenst. Þar vegur tekjuskattur einstaklinga hæst en hann á að skila tæpum fjórðungi allra tekja ríkissjóðs, alls 241 milljarði króna. Fjármagnstekjuskattar skila hins vegar ekki nema 42 milljörðum króna til ríkissjóðs á næsta ári, eða 4 prósentum af heildartekjunum. Eignaskattar skila 10 milljörðum króna sem er tæpt 1 prósent tekna ríkisins.
Tryggingagjöld eru þriðji stærsti einstaki tekjuliður ríkissjóðs á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Alls eiga tryggingagjöld að standa undir 13 prósentum tekna ríkissjóðs, 127 milljörðum króna. Þá nema tekjuskattsgreiðslur lögaðila, félaga og fyrirtækja, 101 milljarði króna eða 10 prósentum af heildartekjum ríkisins samkvæmt áætlun.
Reiknað er með að tekjur af eignum ríkissjóðs verði alls 61,7 milljarðar króna á næsta ári. Þar af nema vaxtatekjur 17,5 milljörðum og arðgreiðslur 34,2 milljörðum. Þá mun sala á vörum og þjónustu, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu skila ríkissjóði 37,4 milljörðum króna.
51
Gjöld á ökutæki og eldsneyti munu skila ríkissjóði 51 milljarði króna á næsta ári, eða sem nemur 5 prósentum af tekjum ríkissjóðsl. Af öðrum tekjum ríkissjóðs má nefna að áfengis- og tóbaksgjöld eiga að skila 31 milljarði króna í ríkiskassann, 3 prósentum af heildartekjum ríkisins. Aðrir neysluskattar skila litlu minna, 34 milljörðum króna. Þá mun bankaskattur á næsta ári nema 6 milljörðum króna, hálfu prósenti af heildartekjum ríkissjóðs.
Athugasemdir