Frá árdögum kvótakerfisins hefur verið ljóst hvert ókeypis úthlutun aflaheimilda eða því sem næst myndi leiða. Margir menn hafa lýst því í fjölmiðlum allar götur frá árunum eftir 1970. Ókeypis úthlutun leiðir til fáveldis óverðugra útvegsmanna og aukinnar misskiptingar auðs og valda í samfélaginu.
Það er ekki eins og við höfum ekki séð þetta gerast áður. Alþingi hegðaði sér með líku lagi eins og handbendi óverðugra bankamanna fram að hruni og seldi þeim beinlínis veiðileyfi á fólk og fyrirtæki. Það endaði með ósköpum. Auðsveipni Alþingis gagnvart útvegsaðlinum mun einnig enda með ósköpum nema við hin grípum fast í taumana án frekara fálms og frekari tafar.
Rekald á rúmsjó lögleysu
Aðeins röskur þriðjungur kjósenda ber traust til Alþingis samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup. Álitshnekkirinn hefur þó ekki dugað þinginu til að rífa sig laust úr kæfandi faðmlagi við útvegsmenn.
Þingmönnum hefði átt að bregða við að sjá 83% kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 lýsa fylgi við auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárinnar sem kveður á um þjóðareign og fullt gjald fyrir kvótann og engar refjar. Óbreytt skipan fiskveiðistjórnarinnar hefur sem sagt aðeins um sjöttung kjósenda að baki sér. Þingmenn kusu þó vitandi vits að hunza lýðræðið frekar en að stugga við útvegsmönnum, sem ganga á lagið og færa sig sífellt hærra upp á skaftið, nú síðast með kaupum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á Vísi í Grindavík. Samherji á stóran hlut í Síldarvinnslunni og nú einnig í Vísi.
Aðild Hæstaréttar að ósvinnunni er kafli út af fyrir sig. Hæstiréttur ógilti fiskveiðistjórnarkerfið með dómi sínum í máli Valdimars Jóhannessonar 1998 með þeim rökum að fyrirkomulag fiskveiðistjórnarinnar stæðist ekki stjórnarskrána, þá sem er enn í gildi. Hæstiréttur sneri við blaðinu undir þrýstingi hálfu öðru ári síðar og felldi þá rangan dóm, en mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna staðfesti í reynd fyrri dóminn með bindandi áliti sínu 2007. Þessu áliti hefur Alþingi ekki enn fengizt til að hlíta svo sem því bar þó skylda til að gera þar til mannréttindanefndin leysti íslenzka ríkið niður af króknum 2012 gegn loforði ríkisins um nýja stjórnarskrá með fullnægjandi ákvæði um auðlindir. Það loforð á ríkisvaldið enn eftir að efna.
Þingmenn tala sumir um nauðsyn þess að lagfæra fiskveiðistjórnina án þess að nefna öflugasta vopnið í þeirri baráttu, nýju stjórnarskrána sem landsmenn hafa samið sér og samþykkt. Stafar þetta skeytingarleysi af því að almennir borgarar sömdu þessa stjórnarskrá? Er þetta afbrýðisemi, sviksemi eða bara glámskyggni? Eða hræðast þau aukin áhrif kjósenda í kosningum og milli kosninga?
Alþingi er eins og rekald á rúmsjó lögleysu sem þingið hefur látið viðgangast lengi og leyft að vinda upp á sig.
Breyttar forsendur
Nú hafa forsendur breytzt. Forstjóri Samherja, umsvifamesti útvegsmaður landsins, hefur ásamt fimm samstarfsmönnum sínum stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á umfangsmiklu sakamáli sem á upptök sín í Namibíu, rannsókn sem teygir anga sína til margra landa. Á sama tíma eru yfirvöld í útlöndum nú loksins í óðaönn að kyrrsetja illa fengnar „eignir“ rússneskra fávalda eða gera þær upptækar í samræmi við gamlar og nýjar lagaheimildir um endurheimt þýfis og annars ólögmæts ávinnings. Þetta hefði þurft að gerast fyrr, en innrás Rússa í Úkraínu í febrúar virðist hafa þurft til að fylla mælinn.
Þolinmæði almennings og einnig stjórnvalda sums staðar í okkar heimshluta gagnvart taumlausri græðgi og gripdeildum margra auðmanna og annarra í skugga vaxandi misskiptingar er á þrotum. Af því helgast æ háværari kröfur um að almannavaldið beiti tiltækum lagaúrræðum gegn ólögmætum ávinningi eða búi til ný úrræði eins og Arnar Jensson lögreglumaður, fyrrverandi starfsmaður Europol, hefur lagt til með sterkum rökum.
Þriggja punkta plan
Breyttar forsendur veita nú færi á að snúa vörn í sókn, einnig hér heima, í þrem skrefum.
Skref 1 Fyrsta skrefið er að birta opinberlega upplýsingar um „eignir“ Íslendinga í erlendum skattaskjólum, upplýsingar sem fjármálaráðuneytið hefur aflað og býr yfir, og kyrrsetja ólögmætan ávinning eða gera hann upptækan eftir atvikum í samræmi við lög.
Það þykir ekki tiltökumál að gera ólögleg fíkniefni upptæk þegar þau finnast. Sá munur er þó á þýfi og ólöglegu góssi eins og fíkniefnum að þýfi sem gert er upptækt er skilað til réttra eigenda en ólöglegum fíkniefnum er fargað. Jafnræði fyrir lögum útheimtir hvað sem öðru líður að sama gildi um heimildir yfirvalda til kyrrsetningar og upptöku ólöglegs góss og þýfis hverju nafni sem það nefnist.
Rannsóknir Gabriels Zucman, prófessors í hagfræði í Berkeley í Kaliforníu, og danskra samstarfsmanna hans benda til að íslenzk fyrirtæki nái að minnka skattgreiðslur sínar til ríkisins um sjöttung með því að fela fé í erlendum skattaskjólum. Undanskot íslenzkra fyrirtækja nema sem sagt 18% af skattgreiðslum fyrirtækja borið saman við 10% að meðaltali í heiminum öllum samkvæmt rannsókn Zucmans og félaga. Ærinn er vandinn erlendis yfirleitt og eftir þessu er hann enn meiri hér heima.
Ef gildandi lagaheimildir til kyrrsetningar eða upptöku falins fjár þykja ekki duga getur Alþingi sett neyðarlög líkt og það gerði eftir hrun, neyðarlög sem hagræða fyrri ákvæðum um eignarrétt til að girða fyrir ófrið og upplausn og gæta þjóðarhags. Eignarréttarákvæði laga og stjórnarskrár eiga ekki við um ólöglegt góss og ekki heldur um þýfi. Saga heimsins geymir mörg dæmi víðs vegar að um endurskiptingu eigna og skulda. Fyrirgefning skulda hefur fylgt manninum frá fyrstu tíð svo sem Faðirvorið vitnar um, einnig fyrirgefning fjárskulda, og felur í sér samsvarandi afsal eigna og krafna samkvæmt eðli máls.
Sama á við um endurskiptingu eigna, einkum jarðnæðis. Einn lykillinn að lýðræði og framförum í átt til aukinna mannréttinda og almennrar velferðar víða um heim var uppskipting lands (e. land reform). Dæmin eru mýmörg frá fyrri tíð, sum þeirra tiltölulega nýleg frá síðari hluta síðustu aldar.
Skref 2 Þegar listinn yfir eigendur reikninga í skattaskjólum hefur verið birtur opinberlega sem og færslurnar inn og út af þessum reikningum verður hægt að bera upplýsingarnar saman við eigendur fyrirtækja í sjávarútvegi og í öðrum greinum til að sjá hvernig landið liggur. Þessi kortlagning þarf að fara fram fyrir opnum tjöldum nema lögmæt neyðarsjónarmið mæli fyrir um annað í einstökum tilvikum. Almenna reglan er að bankaleynd á ekki við um skattaskjól. Með slíkri kortlagningu verður hægt að leiða í ljós undanskot einstakra fyrirtækja og eigenda þeirra með glöggan greinarmun á skattsvikum og skattasniðgöngu að leiðarljósi og meta síðan hvort forsvaranlegt sé að slík fyrirtæki starfi áfram með óbreyttu sniði eða hvort rétt þyki að skipta um eigendur og yfirstjórnir þeirra, jafnvel með tímabundinni þjóðnýtingu ef nauðsyn sýnist krefja líkt og gert var við bankana hér heima eftir hrun. Við kunnum þetta, við höfum gert það áður – og það bara fyrir fáeinum árum, eftir hrun.
Skref 3 Að lokinni slíkri kortlagningu og viðeigandi ráðstöfunum stjórnvalda í kjölfarið verður hægt að skoða hvort hægt er að ekki bara binda enda á eignaupptökuna sem enn á sér stað í gegnum kvótakerfið heldur einnig snúa henni við og skila illum feng aftur í hendur réttra eigenda, fólksins í landinu. Eignaupptaka er leyfileg samkvæmt lögum ef almenningsþörf krefur og fullt verð kemur fyrir, bæði samkvæmt gildandi stjórnarskrá og óbreyttu orðalagi nýrrar stjórnarskrár sem enn bíður staðfestingar Alþingis. Með því móti og því móti einu hlýtur siðað samfélag með heilbrigða sjálfsvirðingu að telja sig þurfa að bregðast við siðferðilega rangri og félagslega eyðileggjandi eignatilfærslu frá almenningi til útvegsmanna í krafti rangsleitinna ákvarðana auðsveipra stjórnmálamanna sem vanvirða stjórnarskrárvarin lýðréttindi almennings.
Snjallir lögfræðingar og aðrir þurfa að finna færar útfærsluleiðir að þessu marki.
Fordæmi
Hliðstæð og að sumu leyti sambærileg mál eru nú í deiglunni úti í löndum.
Þjóðminjasafn Egyptalands krefst þess að British Museum skili aftur dýrgripum sem Bretar tóku ófrjálsri hendi í nýlendu sinni við Nílarfljót fyrir löngu, fluttu til Bretlands og slógu eign sinni á. Samningar standa yfir. Ríkisstjórnir, listasöfn og þjóðminjasöfn margra annarra landa krefjast þess með líku lagi að Bretar, Frakkar, Belgar, Portúgalar og fleiri Evrópuþjóðir skili aftur ýmsum gersemum til fyrrum nýlendna sinna í Afríku. Gömlu nýlenduveldin geta ekki með góðu móti hafnað slíkum kröfum með skírskotun til eignarréttar þar eð eignarréttur nær ekki yfir þýfi, og varla heldur með skírskotun til þess að hefð sé komin á ósómann. Önnur sjónarmið hljóta því að koma til álita.
Lausn handritamálsins hér heima 1971 er dáð fyrirmynd í hugum margra þeirra sem leita nú réttar síns gagnvart gömlum nýlenduveldum eða leita að minnsta kosti réttlátrar niðurstöðu sem unað verður við. Einn fremsti lögfræðingur Dana um sína daga, Alf Ross, prófessor í Kaupmannahafnarháskóla, fann leið til að kveða niður kröfur þeirra Dana, einkum hægrimanna, sem héldu því fram að Íslendingar ættu ekki rétt til handritanna samkvæmt ákvæðum gildandi laga um eignarrétt.
Lausnin sem Ross fann fólst í að skilgreina vænan hluta handritanna sem menningareign (d. kultureje) Íslendinga. Á þeim grunni reyndist dönsku ríkisstjórninni kleift samkvæmt dómi Hæstaréttar Danmerkur 1971 að afhenda Íslendingum álitlegan hluta handritanna til umráða. Í lausninni fólst að Danir gáfu íslenzku þjóðinni í reyndinni þau handrit sem þeir létu af hendi. Með þeim gjafagerningi urðu handritin að íslenzkri menningareign, þjóðareign. Þessi lausn setti niður erfiða innanlandsdeilu í Danmörku og stóðst öll próf á vettvangi dómstóla og stjórnmála.
Menningareign, þjóðareign
Einmitt þetta er hugsunin á bak við menningareignarákvæðið í nýju stjórnarskránni sem Alþingi á enn eftir að staðfesta, en það hljóðar svo:
„32. grein. Menningarverðmæti. Dýrmætar þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.“
Orðalaginu svipar til orðalags auðlindaákvæðisins í 34. grein sem kveður á um þjóðareign á auðlindum. Hliðstæðan er skýr.
Kjarni lausnarinnar á handritamálinu, lausnar sem hefur vakið heimsathygli, er þessi: Dönum leyfðist ekki þegar til kastanna kom að slá eign sinni á menningareign Íslendinga. Sama á við um útvegsmenn til dæmis. Ríkisstjórn Íslands má ekki selja eða gefa Samherja handritin skyldi einhverjum þar á bæ detta slíkt í hug.
Með líku lagi leyfist útvegsmönnum ekki heldur að slá eign sinni á þjóðareign Íslendinga, fiskinn í sjónum. Þeim leyfist það ekki nú og þeim leyfðist það aldrei ef að er gáð þar eð kvótakerfið stenzt ekki stjórnarskrána samkvæmt dómi Hæstaréttar 1998. Lagabreytingar, að ekki sé talað um lítils háttar lagabreytingar til málamynda eins og þá sem gerð var eftir dóm Hæstaréttar 1998, skipta ekki máli í þessu viðfangi þar eð stjórnarskráin stendur ofar lögum. Ef stjórnvaldsákvörðun eins og synjun sjávarútvegsráðueytisins á umsókn Valdimars Jóhannessonar á sínum tíma um leyfi til veiða er ógilt þar eð synjunin stenzt ekki stjórnarskrána, þá getur lagabreyting ekki snúið ógildingunni við eftir á, heldur þyrfti stjórnarskrárbreytingu til að leggja línurnar fram í tímann. Nýja stjórnarskráin svarar því kalli.
Á þessum lagagrunni er hægt að reisa réttmæta kröfu fólksins í landinu um endurheimt þjóðareignarinnar sem útvegsmenn hafa sölsað undir sig fyrir tilstilli stjórnmálamanna.
Líkt og okkur tókst að endurheimta handritin.
Athugasemdir (6)