Þegar ég var í söngnámi í den var Íslenska óperan sannkallað óskabarn þjóðarinnar. Hver sýningin á fætur annarri sló í gegn og stemningin eftir því. Kraftaverk voru unnin í því að koma stórum verkefnum á lítið svið í Gamla bíói og fólk með reynslu, þekkingu, ást og þrautseigju var við stjórnvölinn. Þetta varð til þess að margir fóru í söngnám og sannkölluð menningarverðmæti urðu til þegar hámenntaðir íslenskir söngvarar sneru heim til að syngja fyrir land og þjóð.
Ýmislegt hefur breyst síðan að óperan sleit barnsskónum, bæði samfélagið sem við lifum í og svo aðstaða óperunnar. Margt hefur síðan þá heppnast ljómandi vel og flottar uppfærslur litið dagsins ljós.
Nú er hins vegar svo komið að Íslenska óperan er orðin að skúffufyrirtæki í Hörpu. Hvernig gerðist það eiginlega? Þar leigir hún rándýrt skrifstofuhúsnæði en setur upp lítið af sýningum. Vissulega setti Covid strik í reikninginn en þá var ákveðið að fá söngvara til að syngja fyrir þjóðina en bjóða þeim ekki einu sinni lágmarksgreiðslu fyrir. Svo var byrjað að sýna upptökur af gömlum óperuuppfærslum sem sannarlega var ánægjulegt en því var síðan skyndilega hætt, sennilega vegna réttindagreiðslna. Á sama tíma var óperan styrkt af ríkinu.
„...þá var ákveðið að fá söngvara til að syngja fyrir þjóðina en bjóða þeim ekki einu sinni lágmarksgreiðslu fyrir.“
Mikill styrr hefur staðið um óperustjórann og stjórn óperunnar og er svo komið að einhverjum finnst jaðra við einelti. Það er vissulega ekki fallegt að „hjóla í manninn“ eins og sagt er í boltanum en ÍÓ veigraði sér ekki við að gera það þegar Þóra Einarsdóttir barðist fyrir réttindum sínum fyrir dómstólum sem dæmdu henni síðan í vil. Auðvitað verðum við að fara gætilega í umræðunni en fólki er skiljanlega heitt í hamsi. Þegar upp er staðið skiptir ekki mestu máli hver sagði hvað við hvern heldur staðreyndir málsins. Staðreyndir þessa máls eru þær að stjórn óperunnar og óperustjóri hafa fengið flesta íslenska söngvara upp á móti sér, þau hafa gerst sek um að brjóta kjarasamninga og þau hafa bara ekki verið að setja upp óperur undanfarið.
Margir hafa átt erfið samskipti við núverandi óperustjóra og er ég þar á meðal. Sjaldan veldur einn þá tveir deila segir máltækið en þegar margir hafa sömu eða svipaða sögu að segja þá hlýtur eitthvað að vera að. Nú segir einhver að ég sé einn af þessum ósáttu söngvurum sem einfaldlega fái ekki að syngja í ÍÓ og sé því bara í fýlu þess vegna. Það er ekki rétt. Ég hef oft fengið að syngja við óperuna og hefur núverandi óperustjóri tvisvar komið að máli við mig varðandi hlutverk til að syngja, sem ég gat síðan í hvorugt skiptið þegið.
Hvað um það. Við sem vinnum við óperuflutning og allir sem elska óperur (líka þeir sem vita það ekki ennþá) þurfa að horfa fram á veginn. Nú er unnið að stofnun Þjóðaróperu sem réttilega á heima innan sviðslistalaga eins og Þjóðleikhúsið og Íslenski dansflokkurinn. Þegar hún hefur störf verður gaman.
Kannski verður jafn gaman og fyrir nærri hálfri öld síðan þegar ungir söngvarar með Garðar Cortes í fararbroddi gerðu hið ómögulega og stofnuðu Íslensku óperuna.
Athugasemdir (1)