Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi, Klassís, vill að ríkið hætti fjárveitingum til Íslensku óperunnar, nema að bæði stjórn og óperustjóri víki tafarlaust. Er ályktunin send í framhaldi af dómi Landsréttar í máli Þóru Einarsdóttur, en Óperan braut gegn kjarasamningsbundnum réttindum hennar.
Í áskorun félagsins, sem samþykkt var á félagsfundi síðastliðinn mánudag, segir að að félagið skori á ráðherra menningarmála að stöðva fjárveitingar til Íslensku óperunnar að öllu óbreyttu. „Félagsmenn telja frekari fjárveitingar til sjálfseignarstofnunarinnar ekki réttlætanlegar nema sitjandi stjórn og óperustjóri víki nú þegar. Klassís kallar eftir heilbrigðu og ásættanlegu starfsumhverfi til óperuflutnings á meðan undirbúningur stofnunar Þjóðaróperu stendur yfir.“
Áður, hinn 10. janúar 2021, hafði félagið sett fram vantraustsyfirlýsingu á bæði stjórn og óperustjóra Íslensku óperunnar, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, vegna stjórnunarhátta á undanförnum árum. Þá vantraustsyfirlýsingu ítrekar félagið nú.
„Svo er komið að margir okkar fremstu söngvara stíga ekki á svið í uppfærslum ÍÓ vegna þess að þeir hafa lent í ágreiningi við óperustjóra“
Samkvæmt dómi Landsréttar braut Íslenska óperan gegn kjarasamningsbundnum rétti Þóru með því að greiða lægri laun á æfingatímabilum en samningur kveður á um. Þá var ekki greitt fyrir yfirvinnu né voru launatengd gjöld greidd. „Málflutningur Íslensku óperunnar bar vott um vanþekkingu á framleiðsluferli óperusýninga og sýndi stétt óperusöngvara lítilsvirðingu,“ segir í ályktun Klassís.
Ljóst er að mikill þungi er í söngvurum út í Óperuna og birtist það í yfirlýsingunni. „Félagsmenn telja margir að „þeir séu settir út í kuldann“ fyrir það eitt að sýna þakklæti sitt og stuðning við kjarabaráttu söngvara. Svo er komið að margir okkar fremstu söngvara stíga ekki á svið í uppfærslum ÍÓ vegna þess að þeir hafa lent í ágreiningi við óperustjóra og fá því ekki tækifæri eða þeir geta ekki lengur hugsað sér að starfa fyrir stofnunina.“
Athugasemdir